Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Viðurkenning í garð Þorvarðar Örnólfssonar fyrir baráttu gegn reykingum

Heilbrigðisþing 2003

Ávarp heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra




Ágætu þingfulltrúar.

Um og eftir miðja öldina sem leið urðu mönnum endanlega ljós tengslin milli alvarlegs heilsubrests og reykinga. Þetta sáu menn fyrst í lungnakrabbameini, síðar í hjartasjúkdómunum, öndunarfærasjúkdómum og enn síðar öðrum sjúkdómum.

Vorið 1974 var gerð könnun á reykingum grunnskólanema í Reykjavík. Niðurstöðumar voru ískyggilegar: Meira en 30% nemenda á aldrinum frá 12 til 16 ára reyktu, þar af meira en 20% daglega. Í elstu aldurshópunum fór hlutfallið yfir 50%.

Fljótlega eftir að niðurstöðumar voru birtar, árið 1975, hafði Þorvarður Örnólfsson, lögfræðingur og þáverandi framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta, samband við stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur og kynnti hugmyndir sínar um herferð gegn reykingum ungs fólks. Stjórnin féllst á hugmyndirnar og var Þorvarður síðan ráðinn framkvæmdastjóri félagsins. Í samvinnu við Krabbameinsfélag Íslands var herferðinni ýtt úr vör.

Haft var náið samstarf við skóla, bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, nemendur og starfsfólk skóla fengu víðtæka fræðslu um skaðsemi reykinga og nemendurnir tóku virkan þátt í baráttunni.

Herferðin vakti mikla athygli og árangurinn lét ekki á sér standa. Í næstu könnun, árið 1978, kom í Ijós að hlutfall nemenda sem reyktu hafði lækkað úr 30,6% í 20,6%. Þessi þróun hefur síðan haldið áfram og nú reykja um 6,8% nemenda á aldrinum 12-16 ára (þar af 4,6% daglega).

Þorvarður var framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Reykjavíkur til haustsins 1997. Allan sinn starfstíma var hann ötull baráttumaður fyrir tóbaksvörnum, bæði í skólum landsins og á öðrum vettvangi. Hann hafði mikil áhrif á tóbaksvarnalöggjöfína og á sinn þátt í þeim merku áföngum sem þar hafa náðst, í góðri samvinnu við Alþingi og heilbrigðisráðherra á hverjum tíma. Þorvarður er enn í dag ráðgjafí Tóbaksvarnaráðs og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins að því er löggjöfína varðar.

Óhætt er að segja að með skipulegu tóbaksvarnastarfi meðal grunnskólanema hafi tekist að forða þúsundum ungmenna frá því að byrja að reykja. Samdráttur í reykingum í þjóðfélaginu í heild er einnig mjög athyglisverður. Árið 1985 reyktu 40% fullorðinna Íslendinga. Nú er hlutfallið 24% miðað við 18-69 ára. Að sjálfsögðu er þessi mikli árangur verk margra manna. Á engan verður þó hallað þó fullyrt sé að hlutur Þorvarðar Örnólfssonar er mjög mikill. Eldmóður hans og áhugi fyrir velferð landsmanna, ungra sem eldri, er einstakur. Fyrir það ber að þakka honum. Mig langar að biðja Þorvarð að koma hér upp og taka við viðurkenningunni. Þetta er líparítsteinn, sem gæti verið úr Kerlingafjöllum, en þar rak Þorvarður skíðaskála um áratuga skeið með bróður sínum. Áletrunin hljóðar svo: Viðurkenning og þakkir fyrir ómetanlegt framlag til tóbaksvarna og bættrar heilsu landsmanna.


Hér á eftir verður boðið uppá hressingu en ég bið ykkur rísa úr sætum og hylla Þorvarð fyrir framlag hans og segi Heilbrigðisþingi 2003 slitið.

____________
Talað orð gildir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum