Hoppa yfir valmynd
9. mars 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Skýrsla Fagráðs landlæknisembættisins kynnt

Góðir tilheyrendur!

Þið ættuð nú öll að hafa fengið í hendur samantekt um þá skýrslu sem fagráð á vegum landlæknis hefur tekið saman. Fagráðið var stofnað í byrjun 2000 til að vera landlækni til ráðgjafar um mál sem lúta að heilsuvernd og heilsueflingu.

Eins og samantektin sýnir er þetta mikil og gagmerk skýrsla þar sem komið er inná flesta þá þætti sem varða heilsufar þjóðarinnar á einhvern hátt. Það er mikill akkur í þeirri vinnu sem hér hefur farið fram fyrir þá fjölmörgu sem þurfa að taka höndum saman til að vinna að bættu heilbrigði þjóðarinnar.

Eins og skýrsluhöfundar benda á er heilbrigði færni til að lifa daglegu lífi en ekki markmið í sjálfu sér. Að temja sér heilbrigða lífshætti og lífsviðhorf til að geta lifað góðu lífi alla ævi.

Íslenska þjóðin hefur aldrei verið hraustari en nú. Og landsmenn hafa góðar forsendur til að lifa góðu lífi. Við búum við góðan efnahag, hátt menntunarstig, góða heilbrigðisþjónustu og getum sótt margvíslegan stuðning í því samhjálparkerfi sem við búum við þegar þörf krefur.

En vissulega steðja að okkur nútímafólki margvísleg vandamál sem tengjast því samfélagi sem við erum að mörgu leyti svo stolt af. Við höfum kannske tapað okkur nokkuð í ákafri neyslu og eftirsókn eftir efnislegum gæðum á kostnað annarra lífsgilda sem hafa dýpri merkingu og stuðla að innihaldsríku, heilbrigðu og uppbyggilegu lífi. Og þá er sú hætta til staðar að ofgnóttin leiði til ofneyslu af ýmsu tagi eða veruleikaflótta í gegnum neyslu vímuefna sem því miður er verulegt áhyggjuefni.

Ég ætla ekki að telja hér þau verkefni sem skýrsluhöfundar benda á að brýnt sé að takast á við. Þau eiga hins vegar öll sammerkt að krefjast þess að allir sem á einhvern hátt fást við hið mannlega í samfélaginu leggist á eitt. Áhersla er lögð á að ríki og sveitarfélög marki sér heilsueflingarstefnu, beiti heilbrigðismati við undirbúning allra ákvarðana sem geta haft áhrif á líf og heilsu íbúanna. Athygli er vakin á því að heilsuefling krefst þverfaglegra aðgerða, samhæfðra lausna og samvinnu opinberra aðila, sveitarfélaga, áhugasamtaka, aðila vinnumarkaðarins og einstaklinga.

Það er gífurlega mikill styrkur í því að halda vel saman þekkingu á sviði lýðheilsu, heilsueflingar og forvarna. Að þeir sem að málum koma geti leitað í sameiginlegan þekkingarsjóð og að kraftar séu sameinaðir. Þetta var einmitt markmiðið með stofnun Lýðheilsustöðvar sem nú er að stíga sín fyrstu skref og ég bind miklar vonir við að eigi eftir að vísa okkur veginn til enn betri lýðheilsu.

Ég vil að lokum ítreka þakkir mínar til þeirra sem unnið hafa að gerð þeirrar skýrslu sem nánar verður kynnt hér á eftir. Ég vonast til að efni hennar eigi ekki aðeins eftir að vekja til umhugsunar heldur einnig að hvetja til samstilltra aðgerða til að bæta heilsu þjóðarinnar.

_______________

Talað orð gildir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum