Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2003 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundur Efnahags- og framfarastofnunarinnar - OECD -

Nr. 045

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Ráðherrafundi OECD ríkjanna, sem haldinn var í París, lauk í dag. Meginviðfangsefni fundarins var umfjöllun um horfur í efnahagsmálum við lok hernaðarátaka í Írak og stöðuna í samningaviðræðum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um nýja skipan heimsviðskipta, Doha lotuna. Gunnar Snorri Gunnarsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, sat fundinn fyrir hönd utanríkisráðherra og Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, sat fundinn fyrir hönd fjármálaráðherra.
Efnahags- og fjármálaráðherrar OECD ríkjanna voru sammála um að áhrif stríðsins í Írak á hnattræna þróun efnahagsmála myndu verða mun minni en í fyrstu hafði verið óttast, einkum vegna þess hve skammvinnt stríðið hefði orðið. OECD spáir því að hagvöxtur í OECD ríkjunum aukist hægt er líða tekur á árið og muni nema um 2,5% að meðaltali. Á næsta ári er því hins vegar spáð að hagvöxtur muni nema um 3,0%, þar af nemi hagvöxtur í Bandaríkjunum um 4,0%, innan ESB 2,4% en einungis 1,1% í Japan. Til samanburðar má geta þess að samkvæmt sömu spám muni hagvöxtur á Íslandi á þessu ári nema um 2,1% og um 3,5% á árinu 2004.

Ráðherrarnir lýstu áhyggjum yfir því að fjárlagahalli í OECD ríkjunum færi vaxandi sem rekja mætti til minnkandi neyslu, aukins atvinnuleysis og vaxandi útgjalda til baráttunnar gegn hryðjuverkastarfsemi. Þá fjölluðu ráðherrarnir um þann mikla vanda sem blasir við vegna hækkaðs lífaldurs samfara lækkandi starfsaldi, sem stóreykur kostnað OECD ríkjanna vegna lífeyrismála, samtímis því að færri og færri vinnandi hendur þurfi að standa undir þessum útgjöldum.

Í umræðum um stöðuna í Doha lotunni lýstu ráðherrarnir eindregnum vilja sínum til að ljúka lotunni fyrir sett tímamörk, þ.e. í lok árs 2004, auk þess að tryggja árangursríkan ráðherrafund í Cancun, en tóku jafnframt fram að mikinn og einbeittan vilja þyrfti til að það mætti takast því ágreiningsefnin væru djúpstæð. Viðurkennt var að helsti ásteitingasteinninn í lotunni væri deilan um markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur og umfang niðurgreiðslna og útflutningsbóta fyrir landbúnaðarafurðir í iðnríkjunum. Fleiri mikilvæg óleyst ágreiningsmál væru einnig Þrándur í Götu svo sem vernd hugverkaréttar á sviði lyfjaframleiðslu og framkvæmd gildandi samninga. Ráðherrarnir voru þó sammála um að á ýmsum sviðum hillti undir lausnir, sérstaklega varðandi markaðsaðgang og tollalækkanir fyrir iðnaðarvörur.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 30. apríl 2003


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum