Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2007 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 23. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur

Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 16. janúar 2007 klukkan 09.00 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Guðjón A. Kristjáns­son, Jón Kristjánsson (formaður), Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Jónína Bjartmarz og Kristrún Heimisdóttir voru forfallaðar. Þá voru einnig mætt úr sérfræðinga­nefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður) og Gunnar Helgi Kristinsson. Kristján Andri Stefánsson var forfallaður. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.

 Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt án athuga­semda. 

 

2. Hugsanlegar breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar.

Formaður nefndarinnar kynnti tillögu um breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar. Þar var gert ráð fyrir tveimur meginleiðum við stjórnarskrárbreytingar eftir því hvort næðist aukinn meirihluti á Alþingi fyrir breytingum. Hvor leiðin sem farin yrði endaði með þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þyrfti tiltekinn lágmarksstuðning. Skyldi kveða nánar á um slíka þjóðaratkvæðagreiðslu í lögum. Að sögn formanns væri hér um að ræða málamiðlun sem hann setti fram eftir viðræður við nefndarmenn í kjölfar síðasta fundar.

Í umræðum um tillöguna kom fram að í athugasemdum með stjórnarskrárfrumvarpi þyrfti að benda á að þjóðaratkvæðagreiðsla gæti farið fram samhliða alþingiskosningum eða öðrum kosningum. Stjórnarskrárbreytingar væru því ekki lengur bundnar við lok kjörtímabils. Þá var nokkuð rætt um hvort gera þyrfti kröfu um tiltekinn lágmarksstuðning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Annars vegar komu fram sjónarmið um að allir þröskuldar aðrir en einföld meirihlutaregla væru til óþurftar. Hins vegar var lögð áhersla á að eðlilegt væri að gera kröfu um ríka samstöðu um breytingar á grundvallarlögum og lágmarksstuðning þjóðar. Þær lágmarkskröfur sem talað væri um gætu vart talist þröskuldar. Þá kom ennfremur fram það sjónarmið að gera frekar kröfu um lágmarksþátttöku en lágmarksstuðning. Var að lokum samþykkt að gera kröfu um 20-25% lágmarksstuðning í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir því hvor meginleiðin væri farin við stjórnarskrárbreytingar.

Þá voru samþykktar breytingar á tillögu formanns með það fyrir augum að ekki yrði freisting fyrir þingmenn að hverfa frá stuðningi við stjórnarskrárbreytingar í þeim tilgangi að ná fram þingrofi.

 Fram kom að tillagan væri samþykkt með fyrirvara um viðbrögð í þingflokkum.

 

3. Starfið framundan

Ýmsir nefndarmenn lögðu áherslu á að samþykkt ofangreindrar tillögu fæli einungis í sér áfanga. Það væri rökrétt að byrja á því að breyta tilhögun stjórnarskrárbreytinga til að undirstrika að þjóðin væri stjórnarskrárgjafinn.

Rætt var um hvernig væri eðilegast að standa að flutningi frumvarps um ofangreindar stjórnarskrárbreytingar. Varð niðurstaðan sú að eðlilegast væri að skila tillögum til forsætisráðherra sem myndi svo athuga gagnvart Alþingi fyrirkomulag á flutningi frumvarps til stjórnarskipunarlaga. Þá var sammæli um að réttast væri að frumvarpinu fylgdu gögn úr starfi nefndarinnar eins og áfangaskýrsla, drög að frumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslur og greinargerðir sérfræðinganefndar. Var sérfræðinganefndinni falið að undirbúa þessi gögn.

Næstu fundir í nefndinni eru fyrirhugaðir laugardaginn 27. janúar nk. kl. 10-12 og fimmtudaginn 1. febrúar nk. kl. 17-19. 

 

 4. Önnur mál

 

Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 10.30.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum