Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 167/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 21. apríl 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 167/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23010062

 

Kæra [...] á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 29. janúar 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Sýrlands (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. janúar 2023, um að synja henni um langtímavegabréfsáritun.

Af kæru kæranda má ráða að hún krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og fallist verði á beiðni hennar um langtímavegabréfsáritun.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 5. janúar 2023, óskaði kærandi eftir langtímavegabréfsáritun til Íslands frá 1. apríl 2023 til 28. júní 2023. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. janúar 2023, var umsókn kæranda synjað. Hinn 29. janúar 2023 barst kærunefnd kæra kæranda á ákvörðun Útlendingastofnunar ásamt fylgigögnum.

III.    Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um langtímavegabréfsáritun en hafi ekki verið stödd hér á landi. Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, komi skýrt fram að útlendingur sem sæki um langtímavegabréfsáritun skuli vera staddur hér á landi nema annað sé tekið fram í reglugerðinni. Útlendingastofnun hafi því verið óheimilt að veita kæranda langtímavegabréfsáritun með vísan til framangreinds ákvæðis. Í 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar séu talin upp þau tilvik sem leiða skuli til synjunar á umsókn um langtímavegabréfsáritun. Í e-lið ákvæðisins komi fram að umsókn um langtímavegabréfsáritun skuli synjað ef umsóknin uppfylli með öðrum hætti ekki skilyrði fyrir langtímavegabréfsáritun. Umsókn kæranda um langtímavegabréfsáritun til landsins var því synjað á grundvelli 21. gr. laga um útlendinga.

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kæranda kemur fram að dóttir hennar og tengdasonur búi hér á landi. Þau eigi von á barni um miðjan apríl 2023 og kærandi vilji vera viðstödd síðustu daga meðgöngunnar og fyrstu dagana eftir fæðingu barnsins. Það sé eindregin ósk bæði kæranda og dóttur hennar að kærandi fái að vera viðstödd fæðinguna. Dóttir kæranda eigi ekki stuðningsnet á Íslandi og því mikilvægt að hún fái aðstoð móður sinnar á þessum mikilvægu tímum. Kærandi ætli sér ekki að setjast að hér á landi enda hafi hún lagt fram flugmiða fram og til baka. Þá hafi framfærsla kæranda hér á landi verið tryggð. Kærandi muni dvelja á heimili dóttur sinnar. Þá verði þetta í fyrsta skipti sem kærandi muni koma hingað til lands og hún sé spennt að sjá landið þar sem dóttir hennar og tengdasonur hafi fest rætur og dvelja hjá þeim á þessum tímamótum í lífi þeirra.

Kærandi vísar til 21. gr. laga um útlendinga og athugasemda við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til laga um útlendinga. En þar segi m.a. að í framkvæmd hafi verið rætt um að þörf sé á heimild til að veita vegabréfsáritun sem gildir lengur en 90 daga í ákvæðnum tilvikum. Þau tilvik eigi það flest sameiginlegt að um sé að ræða dvöl einstaklinga sem ætli að koma hingað til lands í lengri heimsóknir eða í ákveðnum tilgangi. Hugsunin að baki ákvæðinu sé að heimila komu einstaklinga hingað til lands sem ekki vilji setjast hér að en þurfi eða velji að dvelja á Íslandi í ákveðnum tilgangi sem geti ekki verið grundvöllur dvalarleyfis. Af þessari umfjöllun megi ráða að einstaklingur sem sækir um áritun þurfi ekki að vera staddur á landinu enda sé talað um einstaklinga sem ætli að koma hingað til lands.

Hvað reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, varði þá segi vissulega í 3. gr. að langtímavegabréfsáritun feli í sér heimild til dvalar hér á landi í allt að 90 daga og útlendingur sem sæki um slíka áritun skuli vera staddur hér á landi nema annað sé tekið fram í reglugerðinni. Í 5. gr. reglugerðarinnar segi svo að heimilt sé að gefa út langtímavegabréfsáritun, m.a. til aðstandenda, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga sem hyggjast koma í lengri heimsókn hingað til lands.

Af framangreindu verði því ekki séð að nauðsynlegt sé að kærandi sé stödd á landinu enda hyggist hún koma hingað til lands. 

IV.    Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 80/2016 og reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, ásamt síðari breytingum.

Í 1. mgr. 21. gr. laga um útlendinga segir að langtímavegabréfsáritun megi veita þegar umsækjandi óskar eftir dvöl umfram 90 daga en tilgangur dvalar sé ekki af ástæðu sem tilgreind sé almennt í dvalarleyfisflokkum og ekki sé ætlun umsækjanda að setjast að í landinu. Vegabréfsáritun samkvæmt ákvæðinu verði ekki veitt til lengri tíma en 180 daga. Þá sé nánar fjallað um skilyrði fyrir veitingu langtímavegabréfsáritunar í II. kafla reglugerðar um útlendinga.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um útlendinga má veita útlendingi langtímavegabréfsáritun að fenginni umsókn og að uppfylltum skilyrðum laga og öðrum skilyrðum reglugerðarinnar. Í 2. mgr. segir að langtímavegabréfsáritun feli í sér heimild til dvalar hér á landi í allt að 90 daga og útlendingur sem sækir um slíka áritun skuli vera staddur hér á landi nema annað sé tekið fram í reglugerð þessari. Dvöl útlendings þegar sótt er um slíka áritun skuli vera í samræmi við 49. gr. laga um útlendinga nema annað sé tekið fram. Langtímavegabréfsáritun sé einungis heimilt að gefa út einu sinni á hverju 12 mánaða tímabili. 

Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um grundvöll langtímavegabréfsáritunar. Þar er ekki með tæmandi hætti kveðið á um þau skilyrði sem umsækjandi um langtímavegabréfsáritun þarf að uppfylla til útgáfu slíkrar áritunar, en ákveðin tilvik nefnd í a-c-liðum ákvæðisins fyrir slíkum grundvelli. Í a-lið 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að heimilt sé að gefa út langtímavegabréfsáritun til aðstandenda, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga, sem hyggjast koma í lengri heimsóknir hingað til lands. Heimilt sé að víkja frá aldursskilyrði foreldra umsækjanda við útgáfu langtímavegabréfsáritunar.

Fyrir liggur að kærandi lagði fram umsókn um langtímavegabréfsáritun til að heimsækja dóttur sína hér á landi. Útlendingastofnun synjaði umsókn kæranda á þeim grundvelli að hún væri ekki stödd hér á landi. Orðalag ákvæða 2. mgr. 3. gr. og a-liðar 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um útlendinga verður ekki skilið á þá leið að viðkomandi þurfi að vera staddur á landinu þegar hann leggur fram umsókn um langtímavegabréfsáritun á þeim grundvelli. Verður umsókn kæranda því ekki synjað af þeirri ástæðu og ber að ógilda ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Í ljósi þess að ekki er fjallað um það í ákvörðun Útlendingastofnunar hvort kærandi uppfylli önnur skilyrði II. kafla reglugerðar um útlendinga, sbr. 21. gr. laga um útlendinga er nauðsynlegt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Útlendingastofnun skal taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is revoked. The Directorate is instructed to re-examine the case.

 

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum