Hoppa yfir valmynd
7. desember 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 473/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 7. desember 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 473/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22100088

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 30. október 2022 kærði […], fd. […], ríkisborgari Íran ( hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. október 2022, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi fyrir börn á grundvelli 71. gr. laga um útlendinga.

Kærandi krefst þess að henni verði veitt dvalarleyfi fyrir börn hér á landi á grundvelli 71. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 25. júlí 2022 sótti móðir kæranda um dvalarleyfi fyrir námsmenn á grundvelli 1. mgr. 65. gr. laga um útlendinga til að stunda hagnýtt nám við Háskóla Íslands í íslensku sem öðru tungumáli. Sama dag lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi fyrir barn á grundvelli fjölskyldusameiningar við móður sína. Hinn 17. ágúst 2022 var umsókn móður kæranda samþykkt með þeim fyrirvara um að hún myndi mæta í myndatöku, tilkynna dvalarstað og gangast undir læknisskoðun hér á landi innan tiltekins tímafrests. Móðir kæranda er ekki stödd á landinu. Degi síðar var umsókn kæranda hafnað á þeim grundvelli að dvalarleyfi móður kæranda samkvæmt 65. gr. laga um útlendinga veitti ekki leyfi til fjölskyldusameiningar á grundvelli 1. mgr. 71. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 69. gr. sömu laga. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 356/2022, dags. 14. september 2022, var ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda felld úr gildi þar sem ekki hafði verið fjallað um þau sjónarmið sem fram koma í undanþáguákvæði 5. mgr. 71. gr. laga um útlendinga og var stofnuninni gert að taka málið til nýrrar meðferðar. Með ákvörðun, dags. 28. október 2022, var umsókn kæranda hafnað á þeim grundvelli að dvalarleyfi móður kæranda samkvæmt 65. gr. laga um útlendinga veitti ekki leyfi til fjölskyldusameiningar samkvæmt 1. mgr. 71. gr., sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga. Jafnframt taldi Útlendingastofnun að aðstæður kæranda væru ekki þess eðlis að beita ætti undanþáguákvæði 5. mgr. 71. gr. laga um útlendinga, m.a. með vísan til þess að hvorki kærandi né móðir hennar hafi búið hér á landi né hafi þær nokkra tengingu við landið. Þá væri kærandi ekki stödd á landinu.

Kæranda var tilkynnt niðurstaða Útlendingastofnunar með tölvubréfi, dags. 28. október 2022, og var ákvörðunin kærð til kærunefndar 30. október 2022. Ásamt kæru lagði kærandi fram rökstuðning og fylgiskjöl.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í rökstuðningi með kæru kemur m.a. fram að kærandi sé undir 18 ára aldri og geti ekki búið ein í Íran. Auk þess standi írönsk yfirvöld að baki morðum á konum og stúlkum og því geti móðir kæranda ekki skilið kæranda eftir eina í heimaríki þeirra. Mannréttindabrot af hálfu íranskra yfirvalda stigmagnist með hverjum degi sem líði. Kærandi sé nemandi og eigi engan að í heimaríki til að veita sér stuðning nema móður sína.

Í viðbótarrökstuðningi með kæru, dags. 8. nóvember 2022, kemur m.a. fram að stúlkur eigi á hættu að verða myrtar og/eða rænt af írönskum yfirvöldum. Í ljósi þess sé Íran ekki öruggur staður fyrir kæranda. Fram kemur að á síðustu þremur dögum hafi verið gerðar tvær árásir af hálfu yfirvalda á skólann sem kærandi stundi nám við. Fimm stúlkur undir 18 ára aldri hafi verið handteknar og enginn viti hvað hafi orðið um þær. Móðir kæranda geti ekkert gert til að aðstoða kæranda í ljósi þess að hún sé einnig kona í írönsku samfélagi. Í því samhengi vísar kærandi til nýlegra frétta um framferði íranskra yfirvalda í garð kvenna.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 69. gr. laga um útlendinga er fjallað um skilyrði fyrir dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis samkvæmt 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis samkvæmt 58. gr. geti með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla laganna. Í 2. málsl. sama ákvæðis segir að til nánustu aðstandenda teljist maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Sama gildi um maka, sambúðarmaka og börn þeirra sem stundi framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr. laganna.

Í 1. mgr. 71. gr. laga um útlendinga segir að heimilt sé að veita barni yngra en 18 ára dvalarleyfi ef foreldri þess hefur dvalarleyfi á grundvelli 58., 61., 63., 70., 73., 74. eða 78. gr. laganna. Samkvæmt gögnum málsins er móðir kæranda með dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 65. gr. laga um útlendinga en hún stundar ekki framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám eða rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr., sbr. 3. málsl. 69. gr. laganna. Liggur því fyrir að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 71. gr. laga um útlendinga.

Í 5. mgr. 71. gr. laga um útlendinga segir að heimilt sé að víkja frá skilyrðum ákvæðisins ef sérstaklega stendur á enda krefjist hagsmunir barnsins þess. Eigi þetta t.d. við í tilvikum þar sem barnaverndarnefnd hefur tekið yfir forsjá barns eða ef barn er í varanlegu fóstri. Í athugasemdum við 5. mgr. 71. gr. í frumvarpi því sem varð að núgildandi lögum um útlendinga segir:

Í 5. mgr. er stjórnvöldum veitt undanþáguheimild til að bregðast við sérstökum aðstæðum þar sem hagsmunir barns krefjast. Við slíkt mat skal ávallt haft samráð við barnaverndaryfirvöld ef grunur leikur á að barn búi við óviðunandi aðstæður. Getur þetta t.d. átt við ef í ljós kemur eftir að barn hefur flust til Íslands að skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í upphafi voru ekki uppfyllt eða skilyrði endurnýjunar séu af öðrum orsökum brostin. Sem dæmi má nefna ef barnaverndaryfirvöld þurfa að grípa til þess úrræðis að taka barn í sína umsjá. Þessi heimild þarf að vera fyrir hendi meðan íslensk stjórnvöld leysa úr málefnum viðkomandi barns. Um undanþáguheimild er að ræða sem þarf að skýra þröngt en árétta ber að heimildin er sett til verndar hagsmunum barns.

Eins og áður greinir uppfyllir kærandi ekki skilyrði 1. mgr. 71. gr. laga um útlendinga. Af lögskýringargögnum með ákvæði 5. mgr. 71. gr. má ráða að undanþáguheimildinni sé m.a. ætlað að ná yfir tilvik þar sem barn býr við óviðunandi aðstæður og þar sem grípa þarf til nauðsynlegra ráðstafana. Geti ákvæðið t.d. átt við ef í ljós kemur eftir að barn flytur hingað til lands að skilyrði fyrir upphaflegri veitingu dvalarleyfis hafi ekki verið uppfyllt eða þegar skilyrði til endurnýjunar dvalarleyfis eru af öðrum ástæðum brostin. Þá er nefnt í dæmaskyni tilvik þar sem barnaverndaryfirvöld þurfa að grípa til þess úrræðis að taka barn í sína umsjá. Jafnframt er áréttað í athugasemdum við ákvæðið að um sé að ræða undanþáguheimild sem skýra þurfi þröngt og að heimildin sé sett til verndar hagsmunum barns. Af framangreindum lögskýringargögnum leiðir að þau sjónarmið sem koma fyrst og fremst til skoðunar við mat á því hvort ástæða sé til að veita undanþágu frá ákvæðinu séu hagsmunir barnsins, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. laganna. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins verður heimildinni ekki beitt nema aðstæður barns, og þá einkum hagsmunir þess, séu sérstakir í skilningi ákvæðisins. Þá leiðir af orðalaginu „þar sem hagsmunir barns krefjist“ að hagsmunirnir þurfa að vera knýjandi eða nauðsynlegir.

Eins og að framan greinir hefur löggjafinn með skýrum hætti tekið afstöðu til þess að útlendingar sem fá veitt dvalarleyfi vegna náms eiga ekki rétt til fjölskyldusameiningar. Má ráða af löggjöfinni að meðal ástæðna þess sé að dvalarleyfi vegna náms séu ávallt tímabundin og geti ekki veitt grundvöll fyrir ótímabundnu dvalarleyfi. Eins og fram kom í úrskurði kærunefndar nr. 356/2022 frá 14. september 2022 fer móðir kæranda ein með forsjá hennar í heimaríki og nýtur faðir kæranda verulega takmarkaðs umgengnisréttar við hana. Móðir kæranda hefur greint frá því að kærandi hafi sætt kynferðislegu og andlegu ofbeldi af hálfu föður síns og kærandi eigi engan áreiðanlega að í heimaríki nema sig. Því geti móðir kæranda ekki komið til Íslands í nám án dóttur sinnar. Auk þess séu aðstæður stúlkna og kvenna í Íran slæmar.

Þrátt fyrir að kærunefnd dragi ekki í efa að aðstæður kæranda í heimaríki séu viðkvæmar og að mestu leyti bundnar aðstæðum og áformum móður hennar þá horfir nefndin til þess við mat sitt að um sé að ræða val móður kæranda um að koma til Íslands í íslenskunám. Telur kærunefnd hvorki ósanngjarnt né óeðlilegt að gera þá kröfu um að umsækjendur um dvalarleyfi vegna náms meti sjálfir hvort flutningur til Íslands sé tilhlýðilegur þeim og þeirra fjölskylduaðstæðum. Kærandi og móðir hennar búa saman í Íran og eru staddar þar núna. Þrátt fyrir að fallist yrði á það með kæranda að öryggisástand í Íran núna sé óstöðugt er það mat kærunefndar að orðalag 5. mgr. 71. gr. laga um útlendinga verði ekki túlkað á þann hátt að veita undanþágu frá því skilyrði að dvalarleyfisgrundvöllur móður hennar veiti rétt til fjölskyldusameiningar enda standi það, líkt og að framan greinir, móður kæranda næst að gæta að hagsmunum kæranda og meta hvaða áhrif það hefur á stöðu kæranda verði hún eftir í heimaríki án móður sinnar. Þá hefur kærandi ekki komið hingað til lands eða haft dvalarleyfi hér á landi. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að aðstæður og hagsmunir kæranda séu ekki þess eðlis að undanþáguákvæði 5. mgr. 71. gr. laga um útlendinga verði beitt í málinu. Verður umsókn kæranda því synjað.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Bjarnveig Eiríksdóttir


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum