Hoppa yfir valmynd
2. október 2015 Utanríkisráðuneytið

Heimsmarkmiðum fagnað, áhersla á jafnrétti og loftslagsmál

Gunnar Bragi ávarpar allsherjarþing SÞ
RaedaGA

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flutti í dag ræðu Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Rifjaði ráðherra upp þær breytingar sem orðið hafa á Sameinuðu þjóðunum undanliðin 70 ár, en í dag eru aðildarríkin 193 talsins og lagarammi og fjöldi stofnana á sviði friðargæslu, mannréttinda- og mannúðarmála og umhverfismála fyrir hendi.

Utanríkisráðherra fagnaði samþykkt Heimsmarkmiðanna og tilgreindi sérstaklega markmið á sviðum sjálfbærrar nýtingar á náttúruauðlindum, orkumála, jafnréttis og taugaskaða. Gunnar Bragi gerði loftslagsmál og áhrif þeirra á norðurskautið að umtalsefni og áréttaði mikilvægi þess að árangur náist á loftslagsráðstefnunni í París í desember. Greindi ráðherra frá markmiðum Íslands, í samvinnu við ríki Evrópusambandsins og Noreg, um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030.

Mannréttindamál voru utanríkisráðherra hugleikin og tók hann sérstaklega fyrir mál Ali Mohammed al-Nimr sem bíður dauðarefsingar í Saudi Arabíu. Lýsti ráðherra sérstökum áhyggjum af stöðu hans og hvatti þarlend stjórnvöld eindregið til að þyrma lífi hans. Gunnar Bragi áréttaði að mannréttindi séu fyrir alla, á því byggist hugsjón Sameinuðu þjóðanna. Hann sagði Ísland myndu halda jafnréttismálum á lofti og lagði áherslu á HeforShe jafnréttisátakið og Rakarastofur sem beinast frekast að karlmönnum og ábyrgð þeirra í jafnréttisbaráttunni.

Utanríkisráðherra fjallaði um flóttamannavandann og greindi frá framlögum Íslands til flóttamanna- og mannúðarstofnana á vettvangi og móttöku flóttamanna til Íslands. Sagði ráðherra mikilvægt að ráðast að rót vandans og minnti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna á skyldur sínar og ábyrgð í þeim efnum.

Gunnar Bragi fjallaði um stöðu mála við botn Miðjarðarhafsins og sagði tveggja ríkja lausnina í deilu Ísraels og Palestínu einu raunhæfu leiðina fram á við. Lýsti ráðherra áhyggjum af stöðu mannúðarmála á Gasa-svæðinu og landtökum Ísraels. Þá fordæmdi hann árásir á báða bóga og mannfall óbreyttra borgara. Ráðherra fagnaði hins vegar nýlegu samkomulagi um kjarnorkuáætlun Írans og sagðist vona að það stuðlaði að auknum stöðugleika í heimshlutanum. Þá minnti hann á skyldu fastaveldanna í öryggisráðinu að brjóta ekki gegn stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, þ.m.t. gegn friðhelgi landamæra annarra ríkja.

Að endingu ræddi Gunnar Bragi um nauðsynlegar umbætur á allsherjarþinginu og öryggisráðinu, sem endurspeglaði ennþá heimsmyndina árið 1945. Ráðherra hvatti til þess að konur fengju aukinn framgang í helstu stöður á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og tilgreindi sérstaklega stöður aðalframkvæmdastjóra og forseta þingsins.

Ávarp utanríkisráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira