Hoppa yfir valmynd
14. september 2017 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 515/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. september 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 515/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17060048

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 19. júní 2017 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. maí 2017, um að synja honum um ótímabundið dvalarleyfi hér á landi. Kærandi krefst þess að kærunefnd útlendingamála ógildi hina kærðu ákvörðun og leggi fyrir Útlendingastofnun að veita honum ótímabundið dvalarleyfi. Komi til þess að kærunefnd staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar fer kærandi fram á að nefndin leggi fyrir stofnunina að veita honum endurnýjun dvalarleyfis.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda kom fram að kærandi hafi fyrst fengið útgefið dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi þann 10. nóvember 2005 sem hann hafi endurnýjað fram til ársins 2007. Árið 2008 hafi kæranda verið veitt dvalarleyfi [...] sem hann hafi endurnýjað í eitt skipti, fram til 28. febrúar 2009. Þann 14. janúar 2011 hafi kærandi fengið útgefið dvalar- og atvinnuleyfi vegna tímabundins skorts á vinnuafli, en þau dvalarleyfi hafi kærandi endurnýjað fimm sinnum, síðast með gildistíma til 1. maí 2016. Þann 30. maí 2016 hafi kærandi síðan lagt fram umsókn um búsetuleyfi, sbr. 15. gr. eldri laga um útlendinga nr. 96/2002, nú ótímabundið dvalarleyfi skv. 58. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 24. maí 2017, var umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi synjað. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála þann 19. júní 2017. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 19. júní 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar voru skilyrði fyrir útgáfu ótímabundins dvalarleyfis rakin, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Meðal skilyrða fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis væri að umsækjandi hafi sýnt að framfærsla hans hafi verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað framfleytt sér hérlendis með löglegum hætti. Við meðferð málsins hafi kærandi lagt fram skattframtöl áranna 2013 til 2016, vegna tekna áranna 2012 til 2015. Með hliðsjón af lágmarksframfærslu einstaklings samkvæmt framfærslustuðli sveitarfélaganna hafi framfærsla kæranda verið fullnægjandi árin 2012, 2013 og 2015, en samkvæmt skattframtali kæranda árið 2015 hafi tekjur hans á árinu 2014 numið [...]. Lágmarksframfærsla fyrir einstakling hafi verið kr. 163.635 á mánuði og framfærsla kæranda því ótrygg árið 2014. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 58. gr. væri heimilt að víkja frá skilyrði um trygga framfærslu ef hún hefði verið ótrygg um skamma hríð og ríkar sanngirnisástæður mæltu með því. Að mati Útlendingastofnunar yrði hvorki séð að kærandi hefði haft trygga framfærslu á árinu 2014 né að ríkar sanngirnisástæður mæltu með því að vikið yrði frá umræddu skilyrði laga um útlendinga. Var umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi sé í hjúskap með [...] konu og að þau eigi tvö börn saman sem séu undir 12 ára aldri. Eiginkona kæranda hafi verið búsett hér á landi en ekki líkað dvölin hér og flutt til [...] með börnin. Þau séu áfram í hjúskap og axli sameiginlega ábyrgð á uppeldi barnanna. Eftir að eiginkona kæranda hafi flutt úr landi hafi hann unnið mikið í um níu mánuði á ári en dvalið í [...] hjá fjölskyldu sinni í uppsöfnuðum orlofstímabilum. Vegna mats Útlendingastofnunar um að kærandi uppfylli ekki skilyrði b-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga um trygga framfærslu byggir kærandi á að skýra verði ákvæðið í samræmi við þann tilgang að tryggja annars vegar að útlendingar, sem dvelja á Íslandi, verði ekki óhæfileg byrði á félagslega kerfinu og hins vegar að þeir framfleyti sér ekki með tekjum af ólögmætri starfsemi. Kærandi bendir á að hann hafi verið í stöðugri vinnu meðan hann hafi verið staddur á Íslandi og að atvinna hans sé tryggð hjá núverandi vinnuveitanda. Þá hafi kærandi hreint sakavottorð.

Kærandi vísar til þess að í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi framfærsluviðmið Reykjavíkurborgar um lágmarksframfærslu verið lagt til grundvallar við mat á því hvort framfærsla kæranda hafi verið trygg. Byggir kærandi á því að sú viðmiðun hafi enga lagastoð, þótt fallast megi á að eðlilegt sé að hafa hana til hliðsjónar þegar umsækjendur um ótímabundið dvalarleyfi búi á höfuðborgarsvæðinu. Kærandi sé hins vegar heimilisfastur í [...] og þar sé framfærsla mun ódýrari, einkum kostnaður við húsnæði. Telur kærandi eðlilegt að taka mið af framangreindu við mat á því hvort framfærsla sé trygg skv. b-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga.

Í framhaldinu gerir kærandi athugasemd við túlkun Útlendingastofnunar á a-lið 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga, sem kveður á um undantekningu á skilyrði b-liðar 1. mgr. 58. gr. um framfærslu, hafi hún verið ótrygg um skamma hríð og ríkar sanngirnisástæður mæli með því. Ljóst sé að framfærsla kæranda hafi aldrei verið ótrygg hér á landi enda leitaði kærandi aldrei aðstoðar við framfærslu. Útlendingastofnun hafi látið hjá líða að rannsaka hve mikið fé kærandi hafi átt og hve miklar tekjur eiginkona hans hafi haft. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun hafi komið fram af hálfu kæranda að árið 2014 hafi kærandi farið til [...] til að eiga umgengni við börn sín í tengslum við ákvörðun eiginkonu hans um að flytja til [...]. Kærandi hafi reynt að bregðast við óvæntri framvindu í einkalífi hans í því skyni að halda sem mestri umgengni við börn sín og rækja þannig skyldur sínar sem foreldri. Eðlilegt sé og sanngjarnt að fallast á að slíkar aðstæður geti skapast þegar samstaða meðal hjóna raskist og að það sé sanngirnismál að víkja frá minniháttar frávikum frá ólögbundnum viðmiðum um lágmarksframfærslu. Loks gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun hafi látið undir höfuð leggjast að fjalla um framangreindar aðstæður kæranda við mat á því hvort undantekningarákvæði b-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga geti átt við.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um ótímabundið dvalarleyfi hér á landi.

Í 58. gr. laga um útlendinga er fjallað um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis eru m.a. að útlendingur sýni fram á að framfærsla hans hafi verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað og geti áfram framfleytt sér hér á landi á löglegan hátt, sbr. b-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Þá kemur fram í ákvæðinu að greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags teljist ekki til tryggrar framfærslu samkvæmt ákvæðinu. Í undantekningartilvikum er heimilt að víkja frá skilyrði um framfærslu ef hún hefur verið ótrygg um skamma hríð og ríkar sanngirnisástæður mæla með því, sbr. a-lið 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga um útlendinga skal útlendingur sem er eldri en 18 ára sýna fram á að framfærsla hans sé trygg þann tíma sem hann sækir um að fá að dveljast hér á landi. Á grundvelli 4. mgr. 56. gr. er ráðherra heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um kröfu um trygga framfærslu, þ.m.t. um hvað teljist trygg framfærsla. Í athugasemdum við síðastnefnt ákvæði í frumvarpi er varð að lögum um útlendinga segir m.a. að ráðherra sé heimilt að setja nánari reglur um framfærslu, við hvaða upphæðir skuli miða, en þær skuli þó aldrei vera lægri en lágmarksframfærsla sveitarfélaga kveði á um.

Ráðherra hefur ekki sett reglugerð á grundvelli umrædds ákvæðis. Með vísan til ummæla í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga nr. 80/2016 telur kærunefnd ekki tilefni til að gera athugasemd við það almenna viðmið að trygg framfærsla sé ekki lægri en lágmarksframfærsluviðmið sveitarfélaga.

Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að þann 14. júní 2011 hafi kærandi fengið útgefið dvalar- og atvinnuleyfi vegna tímabundins skorts á vinnuafli. Þau leyfi hafi verið endurnýjuð fimm sinnum, síðast með gildistíma til 1. maí 2016. Kærunefnd hefur aflað gagna frá Útlendingastofnun um endurnýjun kæranda á dvalarleyfi sínu árin 2014 og 2015. Í gögnum vegna endurnýjunar dvalarleyfis árið 2015 liggur fyrir yfirlit yfir staðgreiðslu kæranda árið 2014, en af yfirlitinu er sem fyrr segir ljóst að kærandi greiddi ekki staðgreiðslu frá [...] það ár. Á yfirlitinu má greina að launatekjur kæranda hafi numið kr. [...] á árinu 2014. Þá liggur fyrir að á tímabilinu hefur kærandi hvorki þegið félagslega aðstoð frá sveitarfélögum né atvinnuleysisbætur.

Með bréfi Útlendingastofnunar til kæranda, dags. 23. júní 2015, óskaði stofnunin eftir skriflegum skýringum frá kæranda á því hvers vegna engar færslur væri að finna í sundurliðun staðgreiðslu frá [...]. Í svarbréfi kæranda, dags. 10. júlí 2015, kvaðst hann hafa verið í fríi á tímabilinu. Samkvæmt framangreindu er ljóst að við endurnýjun dvalarleyfis kæranda árið 2015 lá fyrir að kærandi hafði ekki greitt staðgreiðslu á fyrrnefndu tímabili á árinu 2014. Þá er ljóst að Útlendingastofnun rannsakaði þennan þátt málsins sérstaklega án þess að gera frekari athugasemdir við framfærslu kæranda umrætt ár. Með hliðsjón af gögnum málsins og skýringum kæranda hafi Útlendingastofnun því talið að kærandi uppfyllti grunnskilyrði dvalarleyfis samkvæmt 11. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002, þ.m.t. um að framfærsla væri trygg, og endurnýjað dvalarleyfi hans.

Í málinu liggja fyrir skattframtöl kæranda árin 2013 til 2016, vegna tekna áranna 2012 til 2015, auk yfirlita yfir greiðslutímabil staðgreiðslu opinberra gjalda vegna áranna 2013 til 2016. Af þeim gögnum er ljóst að árin 2013 og 2014 var kærandi [...]. Ljóst er að tekjur kæranda það ár voru undir þeim framfærsluviðmiðum sem lögð voru til grundvallar í hinni kærðu ákvörðun og var framfærsla hans því metin ótrygg árið 2014.

Samkvæmt a-lið 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er í undantekningartilvikum heimilt að víkja frá skilyrði um framfærslu, sbr. b-lið 1. mgr., ef hún hefur verið ótrygg um skamma hríð og ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Eins og rakið hefur verið var framfærsla kæranda ótrygg á um fimm mánaða tímabili árið 2014, en kærunefnd telur framfærsluna hafa verið ótrygga um skamma hríð í skilningi b-liðar 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Í ljósi þess að Útlendingastofnun taldi framfærslu kæranda árið 2014 ekki standa því í vegi að dvalarleyfi hans yrði endurnýjað árið 2015, en meðal skilyrða fyrir endurnýjun dvalarleyfis hans þá var að framfærsla væri trygg, lítur kærunefnd svo á, eins og atvikum málsins er háttað, að væntingar hafi skapast hjá kæranda um að hann uppfyllti skilyrði um framfærslu vegna ársins 2014 og þar af leiðandi skilyrði um framfærslu á árunum 2012 til 2015 við umsókn um ótímabundið dvalarleyfi. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að ríkar sanngirnisástæður mæli með því að vikið verði frá skilyrði b-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að kæranda verði veitt ótímabundið dvalarleyfi samkvæmt 58. gr. laga um útlendinga að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að kæranda verði veitt ótímabundið dvalarleyfi að uppfylltum skilyrðum 58. gr. laga um útlendinga.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The directorate is instructed to grant the appellant perminent residence permit, subject to the conditions set forth in Art. 58 in the Act on foreigners no. 80/2016.

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                             Árni Helgason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum