Hoppa yfir valmynd
10. maí 2011 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Alheimsátaki í umferðaröryggismálum hleypt af stokkunum á morgun

Alheimsátaki í umferðaröryggismálum verður hleypt af stokkunum í velflestum aðildarlöndum Sameinuðu þjóðanna á morgun, miðvikudag 11. maí. Á Íslandi fer athöfnin fram hjá miðstöð ökukennslu á Kirkjusandi við Borgartún í Reykjavík að viðstöddum forseta Íslands, innanríkisráðherra og velferðarráðherra sem allir flytja ávarp.

Áratugur aðgerða hefur það markmið að fækka banaslysum og alvarlegum slysum í umferðinni. Kringum 1,3 milljónir manna látast á ári hverju í umferðarslysum í heiminum öllum og verði þróunin hin sama næstu árin verður þessi fjöldi kominn í um 1,9 milljónir manna. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna lýsti því yfir á á síðasta ári að árin 2011 til 2020 yrði áratugur aðgerða í umferðaröryggismálum. Aðildarlönd eru hvött til að herða hvers konar aðgerðir varðandi öryggismál svo sem að leggja aukið fé til þeirra, styrkja lagasetningu og auka umfjöllun og vitund manna um hvernig unnt væri að fækka umferðarslysum.

Á vegum innanríkisráðuneytis hefur verið skipaður starfshópur til að undirbúa fyrstu skref í áratug aðgerða. Fulltrúar í hópnum eru frá velferðarráðuneyti, landlækni, lögreglumönnum og fjölmörgum aðilum og félögum sem láta sig umferðaröryggismál varða. Við upphaf athafnarinnar á morgun verða þessi fyrstu skref kynnt. Lögð er áhersla á að yfirvöld, félagasamtök og einstaklingar leggist saman á árarnar til að ná því markmiði að fækka slysum í umferðinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira