Hoppa yfir valmynd
22. mars 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál 132/2020-Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 132/2020

 

Sameiginlegur kostnaður/sérkostnaður. Viðgerðir á lögnum.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 16. nóvember 2020, beindu A og B, hér eftir nefnd álitsbeiðendur, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við C ehf., D ehf. og E ehf., hér eftir nefnd gagnaðilar.

Gagnaðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 7. desember 2020, athugasemdir álitsbeiðenda, dags. 6. janúar 2021, og athugasemdir gagnaðila, dags. 18. janúar 2021, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 22. mars 2021.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið F alls fimm eignarhluta. Álitsbeiðendur eru eigendur eignarhluta 0105 og 0106. Gagnaðilar eru eigendur eignarhluta 0101, 0102 og 0103. Ágreiningur er um kostnað vegna viðgerða á lögnum.

Kröfur álitsbeiðenda eru:

  1. Að viðurkennt verði að álitsbeiðendum beri ekki að greiða hlutdeild í reikningi vegna hreinsunar úr grunni og endurnýjunar lagna í eignarhlutum 0101 og 0102.
  2. Að viðurkennt verði að álitsbeiðendum beri ekki að greiða hlutdeild í reikningi vegna lagfæringa frárennslis frá eignarhluta 0102.
  3. Að viðurkennt verði að álitsbeiðendum beri ekki að greiða hlutdeild í kostnaði vegna viðgerða sem þurfi að framkvæma vegna frárennslislagna frá eignarhluta 0103.

Álitsbeiðendur vísa til 7. tölul. 5. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, og segja það óumdeilt að þær viðgerðir sem hafi verið framkvæmdar og standi til að framkvæma varði lagnir sem liggi eingöngu frá eignarhlutum gagnaðila, að minnsta kosti að langmestu leyti. Ekki hafi verið um að ræða viðgerðir á þeim hluta lagnanna sem sameini frárennsli hinna einstöku hluta. Í vinnulýsingu hafi til að mynda komið fram að endurnýjað hafi verið að stofnlögn en ekki stofnlögnin sjálf. Viðgerðin hafi því eingöngu þjónað viðkomandi séreignum. Lagnir sem liggi frá séreignum séu séreign þar til þær tengist stofnlögn.

Vandræði í frárennslislögnum hafi eingöngu verið bundin við þá eignarhluta þar sem stundaður sé veitingarekstur eða framreiðsla matvæla. Alþekkt sé að slíkur rekstur skili frá sér efnismiklu frárennsli þar sem mikið geti verið um fitu og annað sem kunni að valda því að lagnir skemmist eða stíflist. Þess vegna sé venjulega komið upp fitugildrum og öðrum útbúnaði til að tryggja öruggt frárennsli frá slíkum rekstri. Álitsbeiðendum sé ókunnugt um að slíku sé fyrir að fara í eignarhlutum gagnaðila, enda séu þeir allir skráðir sem verslun og ekki byggðir fyrir veitingarekstur.

Umræddar framkvæmdir hafi ekki verið samþykktar fyrir fram af húsfélagi og hafi álitsbeiðendum ekki verið gefinn kostur á að hafa skoðun á þeim eða fylgjast með umfangi  þeirra. Hafi enda komið á daginn að öllum eigendum hússins blöskri hve mikill kostnaðurinn sé orðinn. Hvorki hafi verið leitað tilboða í framkvæmdina né fylgst með henni. Hafi það því verið orðað á húsfundi eftir á að verulegur vafi væri um að allir rukkaðir tímar hefðu verið unnir. Framkvæmdin hefði orðið mun ódýrari hefði þeim verið gefinn kostur á að hafa áhrif á hvernig hún hafi farið fram, svo sem með tilboðum og eftirliti.

Engin neyð hafi valdið því að fara hafi þurft í þessar framkvæmdir. Til að mynda hafi enginn rekstur verið í eignarhluta 0101 þegar þær hafi staðið yfir. Þá séu fjárhæðir svo háar að ljóst sé að ekki hafi verið að koma í veg fyrir yfirvofandi tjón, enda hafi því ekki verið haldið fram. Engin tilraun hafi verið gerð til að halda húsfund. Vegna viðgerða á eignarhluta 0101 hafi álitsbeiðendum borist stutt símtöl þar sem nefnt hafi verið að eitthvað hefði átt að huga að lögnum og verktaki gæti þurft aðgang að eignarhlutum þeirra. Þetta hafi hvorki verið kynnt sem mál sem húsfélagið bæri ábyrgð á né hafi á neinn hátt verið gerð grein fyrir hinu mikla umfangi viðgerðanna. Ekki hafi verið boðað til húsfundar fyrr en reikningarnir hafi legið fyrir.

Í greinargerð gagnaðila segir að fram að húsfundi 15. september 2020 hafi ekki verið virk starfandi stjórn á vettvangi húsfélagsins.

Að því er varði kröfulið II í álitsbeiðni hafi eigandi eignarhluta 0102 með tölvupóstum og öðrum samskiptum gert eigendum kunnugt um stórfelldan leka í eignarhluta hans svo og framvindu greiningarvinnu vegna hans. Erfiðlega hafi gengið að finna orsök og upptök lekans en í upphafi marsmánaðar hafi loks komið í ljós að um væri að ræða skemmdar lagnir í ofnakerfi (hitakerfi) sem sé sameiginlegt fyrir fjöleignarhúsið. Í stað þess að gera við hinar skemmdu lagnir, sem hefði kallað á umtalsvert meiri röskun og kostnað, hafi verið ákveðið að leggja nýjar utanáliggjandi lagnir í eignarhlutum 0101 og 0103. Ekki hafi verið þörf á slíkum lögnum í eignarhluta 0102 að svo stöddu þar sem engir ofnar séu í þeim hluta. Þrátt fyrir það hafi eigandi þess eignarhluta lagt út fyrir kostnaði vegna þessa og boðað að lagt yrði fyrir húsfund að húsfélagið endurgreiði kostnaðinn í samræmi við reglur þar um.

Þrátt fyrir ítarlega upplýsingagjöf til allra eigenda og boð um að halda fund um málið hafi engum athugasemdum verið hreyft við þessum ráðstöfunum. Vegna heimsfaraldursins hafi ekki verið hlaupið að því að hittast á formlegum fundi á umræddu tímabili en þess í stað liggi fyrir að málið verði afgreitt á húsfundi sem standi til að halda formlega þegar aðstæður leyfi, sbr. ákvæði 4. mgr. 40. gr. laga um fjöleignarhús. Brýn þörf hafi verið á ráðstöfununum til að koma í veg fyrir yfirvofandi tjón vegna lekans og ómögulegt hafi verið að leita sérstakra tilboða eða annars slíks þar sem orsök og umfang hafi ekki legið fyrir.

Að því er varði kröfur í liðum I og III í álitsbeiðni skuli tekið fram að við afhendingu eignarhluta 0101 hinn 16. júlí 2020 hafi komið í ljós stíflað salerni. Til hafi staðið að afhenda það nýjum leigutaka þegar í kjölfarið. Við nánari eftirgrennslan hafi innréttingar verið teknar frá og þá blasað við skolpleki upp úr gólfi, útfellingar upp úr sprungum í gólfplötu og rakaskemmdir í veggjum, bæði gömlum og nýjum, allt að 30 cm upp með veggjum. Af þeim sökum hafi afhending til nýs leigjanda tafist. Fljótlega í kjölfarið hafi salerni í eignarhluta 0102 stíflast og skolpleki upp úr gólfi farið að gera vart við sig með tilheyrandi óþægindum.

Afráðið hafi verið að fá fyrirtæki, sem sérhæfi sig í endurnýjun og viðgerðum á skolp- og drenlögnum, til að ganga úr skugga um orsök og umfang lekans. Við vinnuna hafi komið í ljós að vandamálið lægi í stíflum í frárennsliskerfi fjöleignarhússins, þ.e. stofnlögn og hliðargreinum undir gólfplötu, sem hafi valdið því að frárennsli hafi lekið í húsgrunn. Það hafi því meðal annars þurft að hreinsa úrgang úr húsgrunni og jarðvegsskipta innan beggja salerna og hreinsa möl úr lögnum í frárennsliskerfi hússins. Að svo búnu hafi þurft að endurnýja frárennsli frá báðum hlutum undir plötu og tengja aftur salerni, vaska og svo framvegis. Vart þurfi að fjölyrða að nauðsyn hafi borið til að gera umræddar ráðstafanir án tafar þegar í ljós hafi komið hver orsök og umfang vandamálsins hafi verið, enda hefði að öðrum kosti þurft að loka starfsemi í umræddum rýmum um lengri tíma og umbera frekara tjón. Hafi það meðal annars verið mat fyrirtækisins að um væri að ræða bráðatilfelli. Öðrum eigendum hafi verið gerð grein fyrir vandamálinu símleiðis eins og frekast hafi verið unnt miðað við fyrirliggjandi upplýsingar.

Að gengnum framangreindum lagfæringum hafi umræddur reikningur borist vegna vinnunnar, svo og ráðgjöf og tilboð varðandi aðrar nauðsynlegar lagfæringar og skoðanir vegna vandamálsins. Hafi þá verið ákveðið að boða til húsfundar til að fjalla um málið og næstu skref. Fundurinn hafi verið haldinn 15. september 2020 þar sem álitsbeiðandi hafi hafnað þátttöku í kostnaði vegna lagfæringa á frárennsliskerfi. Hann hafi viljað afla álits á því hvað tilheyrði húsfélaginu í þeim efnum og leita tilboða áður en næstu skref yrðu tekin. Gagnaðilar, sem búi yfir meirihluta atkvæða í málefnum húsfélagsins miðað við fjölda og hlutfallstölur, hafi talið nauðsynlegt að ganga í frekari lagfæringar án tafar, enda vandamálið aðkallandi. Það hafi einkum og sér í lagi átt við varðandi eignarhluta 0103 þar sem leigutaki hafi staðið frammi fyrir því að fá ekki endurnýjað rekstrarleyfi fyrr en búið væri að bæta úr þessum atriðum.

Í framhaldi af fundinum hafi átt sér stað samskipti á milli aðila þar sem ákveðið hafi verið að funda með Húseigendafélaginu, boða nýjan húsfund og afla frekari tilboða í þær lagfæringar sem eftir hafi staðið. Illa hafi gengið að ná sambandi við aðra aðila og fá þá til að gera tilboð. Svo hafi farið að eigandi eignarhluta 0103 hafi ekki getað unað lengur við þetta ástand gagnvart sínum leigutaka og hann því gengið að fyrirliggjandi tilboði í lagfæringar. Endanlegur kostnaður við þær viðgerðir, sem framkvæmdar hafi verið í lok september, hafi verið lægri en fyrirliggjandi tilboð. Eigandinn hafi lagt út fyrir kostnaðinum og hyggist endurkrefja um hann á húsfundi í samræmi við reglur þar um.

Boðað hafi verið til húsfundar í umsjón Húseigendafélagsins með tölvupósti 24. september 2020 og fundurinn átt að fara fram 5. október 2020. Honum hafi þó verið frestað vegna aðstæðna tengdum COVID-19 og hafi af sömu ástæðu enn ekki farið fram. Á fundinum hafi staðið til, og standi raunar enn til, að taka fyrir afstaðnar og fyrirhugaðar framkvæmdir til umræðu og formlegrar samþykktar.

Það fáist ekki staðist að umþrættar ráðstafanir og lagfæringar hafi varðað lagnir sem séu séreign gagnaðila í skilningi 7. tölul. 5. gr. laga nr. 26/1994. Það sé meginregla laganna að lagnir í fjöleignarhúsi séu í sameign allra, einkum og sér í lagi lagnir fyrir heitt vatn og skolp, sbr. 7. tölul. 8. gr. laganna. Undantekningu frá þessari meginreglu beri að skýra þröngt. Í þeim tilvikum sem hér um ræði séu viðkomandi lagnir hluti af ofnakerfi (hitakerfi) og frárennsliskerfi sem sé sameiginlegt fyrir allt húsið, þjóni sameiginlegum þörfum allra og hafi verið hannað sem slíkt í þeim tilgangi. Allir séreignarhlutar tengist þannig með sams konar hætti einni stofnlögn sem flytji skolp að brunni.

Þær lagfæringar sem hafi átt sér stað hafi fyrst og fremst tekið til frárennslis undir gólfplötu. Eina leiðin til að lagfæra slíkt hafi verið að aftengja og færa salerni, vask, innréttingar og svo framvegis og brjóta upp gólf að lagnarstút. Eðli máls samkvæmt hafi þurft að svo búnu að færa þetta aftur í samt horf, sbr. 5. mgr. 26. gr. laganna.

Eins og atvikum hafi verið háttað hafi athafnir gagnaðila verið brýnar ráðstafanir til að koma í veg fyrir yfirvofandi tjón, bæði á sameign og séreign, sbr. 37. gr. laganna. Um hafi verið að ræða nauðsynlegt viðhald og lagfæringar vegna leka, þar á meðal skolpleka, sem hafi kallað á tafarlaus viðbrögð í ljósi þeirrar starfsemi sem rekin sé í eignarhlutum gagnaðila.

Gætt hafi verið að því, eins og frekast hafi verið unnt, að umfang og kostnaður yrði ekki meiri en nauðsynlegt hafi verið. Álitsbeiðendur hafi ekki leitt neinar líkur að því að kostnaður og umfang sé meira en nauðsyn hafi borið til, að teknu tilliti til aðstæðna. Fyrir liggi með óyggjandi hætti að tími hafi verið kominn á endurnýjun frárennslislagna og stofnlagnar í heild sinni.

Í athugasemdum álitsbeiðenda segir meðal annars að sönnunarbyrði um að framkvæmdir hafi verið svo nauðsynlegar að ekki hafi verið tími til kynningar fyrir öðrum eigendum um nauðsynlegt umfang þeirra og að kostnaður hafi verið í lágmark, hvíli á þeim sem haldi því fram.

Það sé ótækt að eigendur í skjóli meirirhlutavalds, sem sé reyndar mjög tæpt eða 52,5%, geti komist upp með það að hafa að engu ákvæði fjöleignarhúsalaga um ákvarðanatöku og samþykkt síðan kostnaðinn eftir á. Það hafi auk þess ekki verið gert og geti bollalengingar um slíkt á síðari stigum ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins.

Það virðist óumdeilt að álitsbeiðendum hafi ekki verið gerð grein fyrir þessum framkvæmdum að öðru leyti en því sem fram komi álitsbeiðni, þ.e. með stuttum símtölum þar sem ekki hafi verið gefið til kynna að um væri að ræða neitt sem álitsbeiðendur gætu borið fjárhagslega ábyrgð á.

Nú sé komið í ljós að sú krafa sem vænta megi, varði ekki frárennslislagnir og falli álitsbeiðendur því frá beiðni sinni hvað varði kröfulið II að því gefnu að þar með verði ekki veitt álit um þennan hluta byggt á greinargerð varnaraðila.

Vegna kröfuliðar III sé áréttað að ágreiningur snúist eingöngu um hverjum kostnaðurinn tilheyri, þ.e. hvort umræddar lagnir séu séreign eða sameign, en ekki upplýsingaskort og ákvarðanatöku.

Í athugasemdum gagnaðila segir að af lestri gagna málsins megi ljóslega sjá að þeim hafi fyrst verið gerð grein fyrir eignarhaldi og aðkomu álitsbeiðanda A ehf. í lok janúar 2020 eftir að ítarleg tilkynning hafði verið send sameigendum hússins vegna leka frá ofnalögn. Samskiptaleiðir hafi því ekki verið greiðari en svo.

Umþrættur kostnaður vegna kröfuliða I og III í álitsbeiðni snúi að lagfæringum sem gerðar hafi verið á lögnum sem einsýnt sé að teljist til sameignar allra.

Allar umþrættar lagfæringar snúi að atriðum sem ekki hafi gert boð á undan sér og hafi eðli máls samkvæmt ekki getað beðið eftir formlegum húsfundi og öðru skrafi og ráðagerðum.

Af gögnum málsins verði aftur á móti ráðið að ákvörðunartöku varðandi frárennslislagnir á húsfundi 15. september 2020 hafi verið frestað á þeim grundvelli að afla ætti álits á því hvort kostnaðurinn tilheyrði húsfélaginu. Hafi það verið gert að beiðni álitsbeiðenda. Í stað þess að láta við sitja að afla slíks álits virðist sem álitsbeiðendur einblíni fyrst og fremst á formsatriði varðandi ákvörðunartöku í erindi sínu til nefndarinnar.

III. Forsendur

Í athugasemdum álitsbeiðenda kemur fram að fallið sé frá kröfu í lið II og kemur hún því ekki til efnislegrar úrlausnar af hálfu kærunefndar.

Deilt er um kostnaðarþátttöku vegna hreinsunar úr grunni og endurnýjunar á lögnum í eignarhlutum 0101 og 0102 og einnig vegna viðgerða á frárennslislögnum frá eignarhluta 0103.

Um eignarhald á lögnum í fjöleignarhúsum er fjallað í 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, en þar segir að undir sameign fjöleignarhúss, sbr. 6. gr. laganna, falli allar lagnir, svo sem fyrir heitt vatn, kalt vatn og skolp, sem þjóna sameiginlegum þörfum og þörfum heildarinnar, án tillits til þess hvar þær liggja í húsinu. Í ákvæðinu segir enn fremur að jafnan séu líkur á því að lagnir í fjöleignarhúsi séu í sameign allra. Hér er um meginreglu að ræða.

Í 5. gr. sömu laga er fjallað um séreign. Samkvæmt 7. tölul. þeirrar lagagreinar falla undir séreign fjöleignarhúss lagnir og tilfæringar, hverju nafni sem þær nefnast og hvar sem þær eru, sem eingöngu þjóni þörfum viðkomandi séreignar.

Lagnir í fjöleignarhúsum eru eðli sínu samkvæmt bæði viðameiri og flóknari en gerist í annars konar byggingum. Má ætla að slíkt lagnakerfi miðist fyrst og fremst við hagkvæmni og kostnað þar sem ákvörðun er tekin út frá aðstæðum og hagsmunum hússins í heild, en ekki með sérstöku tilliti til þess að lega eða afnot lagna gagnist beinlínis fleiri eða færri eignarhlutum hússins. Ráða þannig aðstæður og hagkvæmni því oft hvort fleiri eða færri séu um tiltekna lögn. Slík ákvörðun þjónar sameiginlegum þörfum heildarinnar.

Kærunefnd hefur í fjölmörgum álitsgerðum talið að túlka beri ákvæði laga um fjöleignarhús þannig að sem sanngjarnast sé fyrir heildina þegar til lengri tíma er litið, þannig að íbúar fjöleignarhúsa búi að þessu leyti við það réttaröryggi sem búseta í fjöleignarhúsi getur veitt. Nauðsyn beri til að reglur um atriði sem þessi séu einfaldar og skýrar þannig að þær séu sem flestum skiljanlegar. Þá beri að stuðla að samræmingu á úrlausnum ágreiningsmála hvað þetta varði þannig að íbúar búi við sambærilega réttarstöðu innbyrðis. Annað býður upp á „rugling ef ekki öngþveiti ef sinn siður myndaðist í hverju húsi og eigendur sambærilegra húsa byggju við mismunandi réttarstöðu“ svo að notuð séu ummæli í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 26/1994.

Það er því álit kærunefndar, með vísan til þess sem hér hefur verið rakið, að jafnan séu yfirgnæfandi líkur á því að lagnir í fjöleignarhúsi séu í sameign allra, sbr. 7. tölul. 8. gr. laga um fjöleignarhús. Í 2. tölul. 7. gr. laganna segi að um sameign sumra sé að ræða þegar lega sameignar eða afnot hennar eða möguleikar til þess eru með þeim hætti að sanngjarnt og eðlilegt er að hún tilheyri aðeins þeim sem hafa aðgang að henni eða afnotamöguleika. Á þetta meðal annars við um lagnir. Er hér um að ræða undantekningu frá meginreglu 7. tölul. 8. gr. laganna og ber að skýra þröngt.

Almennt hefur kærunefnd litið svo á að lagnir teljist sameign í skilningi 7. tölul. 8. gr. laga um fjöleignarhús þar til inn fyrir vegg íbúðar er komið, þ.e. út úr vegg eða upp úr gólfi. Samkvæmt því sem ráðið verður af gögnum málsins var þörf á viðgerðum vegna stíflu í stofnlögn og hliðargreinum undir gólfplötu en stíflan leiddi til þess að frárennsli lak í húsgrunn. Að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram í máli þessu sem tilefni gefur til að víkja frá framangreindri meginreglu. Með hliðsjón af framangreindu telur kærunefnd að stíflan hafi myndast í sameiginlegu frárennsliskerfi hússins sem telst til sameignar í skilningi 7. tölul. 8. gr. laga um fjöleignarhús.   

Sameiginlegur kostnaður er samkvæmt 43. gr. laga um fjöleignarhús allur kostnaður, hverju nafni sem hann nefnist, sem snertir sameign fjöleignarhúss, bæði innanhúss og utan, sameiginlega lóð þess og sameiginlegan búnað og lagnir, sem leiðir af löglegum ákvörðunum stjórnar húsfélags, almenns fundar þess og þeim ráðstöfunum sem einstakur eigandi hefur heimild til að gera. Telur kærunefnd að viðgerð á sameiginlegum lögnum teljist til sameiginlegs kostnaðar, sbr. einnig 3. mgr. 43. gr., þar sem segir að sameiginlegur kostnaður sé meðal annars fólginn í endurnýjunum, viðhaldi, viðgerðum, umhirðu, hreingerningum og fleira. Reglur um skiptingu sameiginlegs kostnaðar er að finna í 45. gr. laganna. Telur kærunefnd því að kostnaður vegna téðra viðgerða sé sameiginlegur.

Í 1. mgr. 39. gr. laga um fjöleignarhús segir að allir hlutaðeigandi eigendur eigi óskoraðan rétt á að eiga og taka þátt í öllum ákvörðunum er varða sameignina, bæði innan húss og utan, og sameiginleg málefni sem snerta hana beint og óbeint. Þá segir í 4. mgr. sömu greinar að sameiginlegar ákvarðanir skuli teknar á sameiginlegum fundi eigenda, húsfundi en þó geti stjórn húsfélags tekið vissar ákvarðanir í umboði eigenda sem bindandi séu fyrir þá, sbr. 69. og 70. gr. Þá hafi einstakir eigendur í vissum tilvikum, sbr. 37. og 38. gr., rétt til að gera ráðstafanir sem bindandi séu fyrir aðra þótt fundur hafi ekki fjallað um þær.

Í 1. mgr. 37. gr. laga um fjöleignarhús segir að eiganda sé heimilt að gera brýnar ráðstafanir til að koma í veg fyrir yfirvofandi tjón á sameign eða einstökum séreignarhlutum og ekki þoli bið eftir sameiginlegri ákvörðun húsfélagsins eða stjórnar þess, sé því að skipta. Skuli hann, svo sem frekast sé kostur, gæta þess að slíkar ráðstafanir verði ekki umfangsmeiri og kostnaðarsamari en nauðsyn krefji og teljist þá kostnaðurinn sameiginlegur.

Samkvæmt gögnum málsins kom í ljós að þörf var á umræddum viðgerðum þar sem salerni voru stífluð og eftir að innréttingar voru teknar frá í kjölfar þess kom í ljós skolpleki upp úr gólfi. Kærunefndin telur að þörf hafi verið á að bregðast skjótt við þessu í tilviki með viðgerðum og að gagnaðilum hafi verið það heimilt á grundvelli framangreindrar 1. mgr. 37. gr., sem og með vísan til framangreindrar 4. mgr. 39. gr. Þar að auki fær kærunefndin ekki annað séð en að eigendur allir hafi verið upplýstir um gang mála eftir að lekans varð vart. Þá telur nefndin að ekkert hafi komið fram í máli þessu sem gefi til kynna að þær ráðstafanir sem gripið hafi verið til hafi verið umfangsmeiri og kostnaðarsamari en nauðsyn hafi krafið heldur hafi verkið eingöngu verið bundið við það að sinna viðgerðum í tengslum við umrædda stíflu í sameiginlegum frárennslislögnum.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að hafna beri kröfum álitsbeiðenda.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfum álitsbeiðenda.

 

Reykjavík, 22. mars 2021

 

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson                                          Eyþór Rafn Þórhallsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum