Hoppa yfir valmynd
15. desember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Þjónusta við íbúa á Sólheimum verður tryggð

Samkomulag um flutning málefna fatlaðra tryggir óbreytt rekstrarfé til Sólheima líkt og annarra sjálfseignarstofnana á næsta ári. Íbúum verður tryggð þar áframhaldandi þjónusta eins og lög gera ráð fyrir.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið bendir á að í heildarsamkomulagi ríkis og sveitarfélaga um flutning málefna fatlaðra til sveitarfélaga kemur skýrt fram að sveitarfélög og þjónustusvæði á vegum þeirra taka við ábyrgð á framkvæmd og fjármögnun þjónustunnar, óháð því hvort hún hefur verið veitt af ríki, sveitarfélögum, sjálfseignarstofnunum eða öðrum aðilum, með þeim réttindum og skyldum sem þjónustunni tengjast. Jafnræðis er gætt gagnvart sjálfseignarstofnunum við tilfærslu þjónustunnar.

Framlög til þjónustuaðila, þar með talinna sjálfseignarstofnana verða samsvarandi á næsta ári og árið 2010. Eina breytingin gagnvart Sólheimum er sú að Árborg mun greiða rekstrarfé til stofnunarinnar fyrir hönd þjónustusvæðisins á Suðurlandi á grundvelli þjónustusamnings, í stað ríkisins.

Ráðuneytið vill einnig koma því á framfæri að þjónustumat var gert hjá íbúum Sólheima í sumar, samhliða þjónustumati hjá fötluðum um land allt. Í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga er kveðið á um að greiðslur í samræmi við þjónustumat hefjist í byrjun árs 2012. Þetta hefur lengi verið öllum ljóst.

Sameiginleg yfirlýsing félags- og tryggingamálaráðuneytisins, sveitarfélagsins Árborgar og þingmanna Suðurkjördæmis

Vegna yfirlýsingar um að fulltrúaráð Sólheima í Grímsnesi hafi heimilað framkvæmdastjórn heimilisins að segja upp þjónustu við fatlaða íbúa Sólheima, ráðningarsamningum, leigusamningum og öðrum skuldbindingum vill félags- og tryggingamálaráðuneytið, sveitarfélagið Árborg og þingmenn Suðurkjördæmis koma eftirfarandi yfirlýsingu á framfæri:

Samkomulag um flutning málefna fatlaðra til sveitarfélaganna tryggir óbreytt rekstrarfé til Sólheima líkt og annarra sjálfseignarstofnana á næsta ári. Íbúum verður tryggð þar áframhaldandi þjónusta þótt forsvarsmenn Sólheima dragi sig út úr rekstrinum.

Aðilar að þessari yfirlýsingu harma að fulltrúaráð Sólheima skuli vilja segja upp þjónustu við fatlaða íbúa Sólheima, ráðningarsamningum, leigusamningum og öðrum skuldbindingum. Jafnframt vekur það undrun ef forsvarsmenn Sólheima kjósa að draga sig út úr rekstrinum og vísa til þess að fjárveitingar næsta árs muni ekki duga í ljósi þess að framlögin verða í fullu samræmi við framlög þessa árs.

Þjónusta við íbúa Sólheima verður tryggð

Fari svo að stjórn Sólheima nýti sér heimild fulltrúaráðsins og segi upp samningum mun félags- og tryggingamálaráðuneytið í samvinnu við Árborg og þjónustusvæði fatlaðra á Suðurlandi tryggja að íbúar Sólheima geti átt þar áfram búsetu og notið þjónustu líkt og verið hefur.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum