Hoppa yfir valmynd
7. desember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 7. desember 2010

Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Lovísa Ósk Þrastardóttir, varamaður Ástu Sigrúnar Helgadóttur, án tiln., Eiríkur Jónsson, tiln. af KÍ, Rafn Sigurðsson, tiln. af fjármálaráðuneyti, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Guðrún Eyjólfsdóttir, tiln. af SA, Gyða Hjartardóttir, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristján Sturluson, tiln af RKÍ, Margrét Sæmundsdóttir tiln. af efnhags- og viðskiptaráðuneyti, Ragnheiður Bóasdóttir, tiln. af menntamálaráðuneyti, Salbjörg Bjarnadóttir, varamaður Geirs Gunnlaugssonar, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Reykjavíkurborg, Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af BHM, Þórhildur Þorleifsdóttir, án tilnefningar, Þorbjörn Guðmundsson og Ingibjörg Broddadóttir.

Helga Ágústsdóttir, tannlæknir og sérfræðingur í heilbrigðisráðuneyti, Guðrún Edda Bentsdóttir, verkefnastjóri á Menntasviði Reykjavíkurborgar, og Hólmfríður Guðmundsdóttir, tannlæknir á Lýðheilsustöð, sátu einnig fundinn auk Guðrúnar Sigurjónsdóttur, skrifstofustjóra í heilbrigðisráðuneyti.

1. Fundargerðir

Fundargerðir 34. og 40. fundar voru samþykktar.

2. Tannvernd barna

Fjallað var um tannheilsu barna með inngangserindum Helgu Ágústsdóttur, Hólmfríðar Guðmundsdóttur og Guðrúnar Eddu Bentsdóttur.

Helga vakti meðal annars athygli á að hlutfall barna sem fá árlega tannheilbrigðisþjónustu er til muna lægra á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum og er meðaltal skemmdra, tapaðra eða fylltra fullorðinstanna hjá 12 ára börnum hæst á Íslandi. Hún ræddi um mögulegar lausnir sem gætu falist í að a) gera raunhæfa samninga við tannlækna, b) tryggja til að byrja með að yngstu börnin fái tannheilbrigðisþjónustu, c) nýir árgangar fari sjálfkrafa inn í kerfi tannverndar og d) stofna sjóð vegna barna sem ekki njóta tannheilbrigðisþjónustu, sökum fátæktar eða annarra félagslegra erfiðleika.*

Hólmfríður greindi frá dæmum úr raunveruleikanum um börn sem ekki fá tannheilbrigðisþjónustu þrátt fyrir mjög mikla þörf og svo virtist sem íslenska velferðarkerfið geti með engu móti komið til móts við þarfir barnanna, hvorki heilbrigðiskerfið né hið félagslega kerfi sveitarfélaganna. Hólmfríður lýsti einnig framtíðarsýn sinni um tannvernd í ung- og smábarnavernd og í leik- og grunnskólum. Hún nefndi að börn af erlendum uppruna þyrftu sérstaka athygli í þessu sambandi.**

Guðrún Edda fjallaði um skýrslu Leikskóla- og menntasviðs Reykjavíkurborgar sem ber nafnið Bætt tannheilsa leik- og grunnskólabarna. Helstu tillögur starfshópsins sem samdi skýrsluna eru:

  • Leik- og grunnskólar borgarinnar leggi áherslu á hollar neysluvenjur ásamt hollri og fjölbreyttri fæðu.
  • Leik- og grunnskólar borgarinnar verði hvattir til að auka fræðslu um tannvernd og tannhirðu.
  • Eflt verði samstarf heilsugæslu við leik- og grunnskóla í hverfum borgarinnar um tannvernd sem hluta af heilsuvernd og velferð.
  • Starfsfólk í leik- og grunnskólum borgarinnar og skólahjúkrunarfræðingar séu vakandi fyrir börnum í áhættuhópi vegna slæmrar tannhirðu.
  • Heilbrigðisyfirvöld verði hvött til að efla hlutverk og ábyrgðasvið ábyrgðatannlækna.

Stella K. Víðisdóttir upplýsti að í reglum borgarinnar um fjárhagsaðstoð sé að finna heimildir til að veita sérstaka fjárhagsaðstoð til handa fátæku fullorðnu fólki, en ekki sé heimild í reglunum til að aðstoða fátæka foreldra við að greiða kostnað vegna tannheilbrigðisþjónustu barna og ekki sé heldur um það að ræða hjá barnavernd. Þrátt fyrir það sé fjárhagsaðstoð vegna tannviðgerða barna veitt í einstaka tilvikum, en slík mál þurfi að fara fyrir áfrýjunarnefnd.

Gyða Hjartardóttir nefndi að mörg dæmi séu um að sveitarfélög veiti fjárhagsaðstoð vegna tannheilbrigðisþjónustu, ekki síst ef sérfræðingar mæla með því.

Í framhaldi urðu miklar umræður og var einhugur um að hópurinn sendi heilbrigðisráðherra ályktun um tannvernd barna. Rætt var um áherslur í ályktuninni og fyrir lægi að nálgast yrði vandann út frá fleiri en einu sjónarmiði. Í fyrsta lagi væri um bráðavanda að ræða hjá börnum sem ekki nytu tannheilbrigðisþjónustu vegna fátæktar eða annarra alvarlegra félagslegra aðstæðna á heimili, í öðru lagi þurfi að efla forvarnir gagnvart öllum börnum, það er allt frá tanntöku, og nauðsynlegt að fá foreldra, kennara, heilbrigðisstarfsfólk og ýmsa fleiri að því borði og í þriðja lagi sé hópur fátækra fullorðinna sem ekki hafi efni á að greiða fyrir tannheilbrigðisþjónustu. Brýnast væri þó að takast á við bráðavanda barna með mjög slæma tannheilsu. Niðurstaða fundarins var að Lára og Ingibjörg myndu setja saman ályktun til heilbrigðisráðherra í anda niðurstaðna fundarins með aðaláherslu á bráðavanda barna, en samhliða yrði brýnt fyrir stjórnvöldum að efla forvarnir og leita leiða til að aðstoða fátæka fullorðna við að sækja sér tannheilbrigðisþjónustu.

3. Viljayfirlýsing um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna

Síðasti liður á dagskrá fundarins var umfjöllun um Viljayfirlýsingu um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna.Því miður gafst ekki tími til að fjalla um þetta og var samþykkt að halda aukafund að viku liðinni þann 14. desember 2010 á sama tíma.

Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.

*   Tannvernd og kostnaður við tannlæknaþjónustu við börn
**  Tannvernd barna

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum