Hoppa yfir valmynd
14. mars 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 8. - 14. mars 2003

Fréttapistill vikunnar
8. - 14. mars 2003



Tillögur nefndar um stefnumótun í málefnum aldraðra til framtíðar

Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra kynnti í dag skýrslu stýrihóps um stefnumótun í málefnum aldraðra til ársins 2015, ásamt Jóni Helgasyni, fyrrverandi ráðherra sem stýrði starfi hópsins. Tillögur hópsins taka til flestra þátta sem varða aldraða á einhvern hátt enda segir í skýrslu hópsins að samþætta þurfi málefni aldraðra stefnumótun á öllum sviðum samfélagsins. Skýrsla stýrihópsins verður birt í heild sinni á heimasíðu ráðuneytisins einhvern næstu daga en þegar er hægt að lesa á heimasíðunni formála að skýrslu hópsins ásamt helstu tillögum hans.
Nánar...

Viðbygging dvalarheimilisins Klausturhóla á Kirkjubæjarklaustri boðin út
Framkvæmdasýsla ríkisins, fyrir hönd heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytisins og Skaftárhrepps hafa óskað eftir tilboðum í byggingu hjúkrunardeildar við dvalar- og hjúkrunarheimilið Klausturhóla á Kirkjubæjarklaustri. Byggingin stendur sunnan við fyrri áfanga hjúkrunarheimilisins og er það í fullum rekstri. Í útboðsgögnum er tekið fram að við jarðvinnu og múrbrot beri að taka tillit til þessa og valda ekki truflun á starfseminni. Byggingin sjálf verður tvær hæðir og felur verkið í sér að steypa upp og fullgera viðbygginguna að utan. Fjölmargir hafa sýnt verkinu áhuga en því skal vera að fullu lokið eigi síðar en 1. júní 2004. Tilboð í verkið verða opnuð á skrifstofu Ríkiskaupa 19. mars næstkomandi að viðstöddum þeim bjóðendum sem þess óska.

Mikill áhugi á að ræsta nýjan Barnaspítala Hringsins
Í næstu viku verða opnuð tilboð í ræstingu og hreingerningu í húsnæði Barnaspítala Hringsins en Ríkiskaup sér um útboðið fyrir hönd Landsspítala háskólasjúkrahúss. Gríðarlegur áhugi er á útboðinu ef marka má fjölda þeirra sem sótt hafa gögn vegna tilboðsins og mætingu á kynningarfund vegna útboðsins sem haldinn var nýlega. Húsnæðið sem um ræðir er 5,2 þúsund fermetrar að stærð sem skiptast í 300 rými og ganga, 5 hæðir og þrjár álmur. Um umfang og tilhögun verksins segir í útboðsgögnum að vinnutími verksala skuli að jafnaði vera frá kl. 8-17 á daginn. Auk ræstingar og hreingerninga skal verksali sjá um að viðhalda áferð gólfa. Verksali skal leggja til allan búnað og tæki sem nauðsynleg verða.

Úrbætur í þjónustu við börn og unglinga með geðraskanir
Ríkisstjórnin samþykkti í vikunni tillögur Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til að auka þjónustu við börn og ungmenni sem stríða við geðraskanir. Að mati ráðherra var brýnt að grípa strax til aðgerða til að bæta þjónustu við börn og unglinga með geðraskanir og að hrinda jafnframt í framkvæmd tillögum sem stuðla að varanlegum umbótum í þjónustunni. Beinn kostnaður vegna tillagna sem þegar verrður hrundið í framkvæmd nemur um 25 milljónum króna. Meðal annars verður rýmum á barna- og unglingageðdeild Landspítala -háskólasjúkrahúss fjölgað og þjónusta við börn í bráðum vanda bætt. Auk þessa samþykkti ríkisstjórnin að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hæfi undirbúning að stofnun lokarðar deildar fyrir alvarlega geðsjúka en sakhæfa einstaklinga.
Nánar...

Nýjar reglugerðir
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur staðfest reglugerð nr. 162/2003 um skipan yfirlækna heilsugæslustöðva til að sinna sóttvörnum. Reglugerðin hefur tekið gildi og er eldri reglugerð nr. 451/2002 um skipan heilsugæslulækna til að sinna sóttvörnum fallin úr gildi. Staðfest hefur verið regluger nr. 145/2003 um veitingu sérfræðileyfa í sjúkraþjálfun og við gildistöku hennar er fallin úr gildi reglugerð nr. 318/2001. Reglugerð nr. 124/2003 um veitingu sérfræðileyfa í hjúkrun hefur tekið gildi og úr gildi er fallin eldri reglugerð nr. 426/1993.

Fjöldi fyrirspurna á Alþingi til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur tekið saman upplýsingar um fjölda fyrirspurna, munnlegra og skriflegra, sem beint er til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á Alþingi. Árið 2000 voru fyrirspurnir til ráðherra 49. Árið 2001 voru þær 62 og árið 2002 svaraði ráðherra 78 fyrirspurnum þingmanna á Alþingi. Það sem af er árinu 2003 eru fyrirspurnir á Alþingi til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 31. Fyrirspurnir til ráðherra og svör hans á yfirstandandi löggjafarþingi má nálgast á heimasíðu Alþingis.
Fyrirspurnir og svör, 128. löggjafarþing...

Aðalfundur Blóðgjafafélags Íslands - drög að nýjum lögum félagsins
Miðvikudaginn 2. apríl verður haldinn aðalfundur Blóðgjafafélags Íslands. Blóðgjafafélag Ísland er félagskapur allra blóðgjafa og annarra einstaklinga sem hafa áhuga á málefnum sem félagið lætur sig varða. Tilgangur félagsins er að fræða blóðgjafa, almenning og stjórnvöld um mikilvægi blóðs til lækninga. Einnig að fræða um blóðsöfnun, blóðbankastarfsemi og notkun blóðs á sjúkrahúsum hérlendis og erlendis. Nánar er sagt frá stofnfundinum á heimasíðu Landspítala - háskólasjúkrahúss og þar eru einnig birt drög að nýjum lögum félagsins.
Nánar...

Þróun verkjameðferðar við Landspítala -háskólasjúkrahús
Skipuð hefur verið nefnd um þróun verkjameðferðar á Landspítala - Háskólasjúkrahúsi (LSH). Þetta er í samræmi við tillögur nefndar framkvæmdastjóra lækninga og hjúkrunar um að stofnuð verði þverfagleg verkjamiðstöð á sjúkrahúsinu. Verkjamiðstöðinni hefur verið valinn staður á deild G-3 í fossvogi. Verkefni nefndarinnar eru m.a. að móta framtíðarsýn fyrir starfsemi tengdri verkjameðferð sjúklinga á LSH, vinna að auknu samstarfi þeirra sem annast verkjameðferð innan sjúkrahússins sem utan, vinna að bættu skipulagi og þjónustu verkjameðferðar og setja fram tillögur um kennslu- og rannsóknarhlutverk þessa sérsviðs innan sjúkrahússins. Nánar er sagt frá þessu á heimasíðu LSH.
Nánar...



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
14. mars 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum