Hoppa yfir valmynd
21. mars 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 15. - 21. mars 2003

Fréttapistill vikunnar
15. - 21. mars 2003
Ráðning deildarstjóra byggingadeildar við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið

Leifur Benediktsson verkfræðingur hefur verið ráðinn deildarstjóri byggingadeildar á skrifstofu heilsugæslu-, sjúkrahúsa- og öldrunarmála í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Leifur lauk verkfærðiprófi frá verkfræðiháskólanum í Kaupmannahöfn árið 1972. Hann hefur starfað víða, bæði á vegum opinberra aðila og hjá einkaaðilum en undanfarin 10 ár hefur hann starfað sem sjálfstæður ráðgjafi. Staðan var auglýst þann 9. febrúar sl. og var Leifur valinn úr hópi sautján umsækjenda. Starf deildarstjóra byggingadeildar felur meðal annars í sér að fylgjast með öllum fasteignum sem heyra undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, fylgjast með tækniþróun á sviði heilbrigðisvísinda og hafa umsjón með uppbyggingu og stefnumótun á þeim sviðum sem undir starfið falla.

Nefnd falinn undirbúningur rammasamnings um viðbyggingu við dvalarheimilið Hlíð á Akureyri
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað nefnd til að sjá um undirbúning verks samkvæmt 1. gr. rammasamnings um viðbyggingu við Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri. Formaður nefndarinnar er Magnús Skúlason, deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, tilnefndur af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Af hálfu Akureyrarbæjar eiga sæti í nefndinni Brit Bieldvedt, framkvæmdastjóri öldrunardeildar og Þóra Ákadóttir, forseti bæjarstjórnar. Samkvæmt samningnum verður hjúkrunarrýmum við dvalarheimilið fjölgað um 60 til ársins 2006. Fyrsta áfanga verksins á að ljúka í árslok 2004 og á byggingu húsnæðisins að vera lokið í byrjun árs 2006.

Skerðingarhlutfall tekjutryggingarauka lífeyrisþega lækkað úr 67% í 45% með lagabreytingu á Alþingi
Alþingi hefur samþykkt frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum, um lækkun skerðingarhlutfalls tekjutryggingarauka lífeyrisþega. Í nefndaráliti heilbrigðis- og tryggingamálanefndar með frumvarpinu segir meðal annars: ,,Frumvarpið byggist á tillögum sem settar voru fram í skýrslu sem samráðshópur um mál efni eldri borgara vann nú í vetur. Í frumvarpinu er lagt til að skerðingarhlutfall tekjutrygg ingarauka lífeyrisþega vegna annarra tekna verði lækkað úr 67% í 45% og nær tillagan bæði til aldraðra og öryrkja. Starfshópurinn gerði einnig tillögur um hækkun á tekjutryggingu og tekjutryggingarauka. Þeirri tillögu hefur verið hrint í framkvæmd með samþykkt reglugerðar nr. 823/2002. Nefndin aflaði upplýsinga um kostnað ríkissjóðs af setningu framangreindrar reglugerðar. Kom þar fram að kostnaður af henni árið 2003 nemur um 1.350 millj. kr. og 1.090 millj. kr. árið 2004. Samtals eru þetta um 2.440 millj. kr. Heildarkostnaður af laga breytingunni sem hér er lögð til er um 250 millj. kr. Alls verður því kostnaður ríkissjóðs af þessum breytingum 2.690 millj. kr." Gildistaka laganna er 1. janúar 2003.
Lögin...

Ríkið yfirtekur 15% hlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa
Alþingi hefur samþykkt frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum. Samkomulagið felur í sér að ríkið yfirtekur 15% hlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði og meiri háttar viðhaldi og tækjakaupum heilsugæslustöðva, svæðissjúkrahúsa, deildarsjúkrahúsa og al mennra sjúkrahúsa. Sveitarfélögin munu áfram láta í té lóðir undir slíkar heilbrigðisstofnanir ríkissjóði að kostnaðarlausu og án greiðslu gatnagerðargjalds í samræmi við gildandi lög um heilbrigðisþjónustu. Stjórnir umræddra stofnana eru lagðar niður samkvæmt lögunum en við þær skulu starfa framkvæmdastjórnir undir yfirstjórn framkvæmdastjóra. Sérstaklega er kveðið á um að framkvæmdastjórnir skuli boða til upplýsinga- og samráðsfunda með sveitarstjórn eða sveitarstjórnum á starfssvæði viðkomandi stofnunar a.m.k. tvisvar á ári. Einnig skal framkvæmdastjórn boða til upplýsinga- og samráðsfunda með starfsmannaráði a.m.k. fjórum sinnum á ári.
Lögin...

Lög um lýðheilsustöð, breyting á lögum um tóbaksvarnir og breyting á lyfja- og læknalögum
Á síðustu dögum þingsins urðu jafnframt að lögum eftirtalin frumvörp: Frumvarp til laga um lýðheilsustöð, frumvarp til laga um breytingar á lögum um tóbaksvarnir nr. 6/2002 og frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum nr. 93/1994 og læknalögum, nr. 53/1998.
Skoða lögin á heimasíðu Alþingis...

Evrópusambandi auglýsir styrki til verkefna í þágu bættrar lýðheilsu
Nýlega auglýsti Evrópusambandið styrki til verkefna sem ætlað er að efla lýðheilsu þjóða. Evrópusambandið hefur gert áætlun í þessu skyni og nemur heildarfjárveiting vegna hennar um 312 milljónum evra. Veittir verða styrkir til samstarfsverkefna þjóða sem miða að því að bæta heilsufar almennings í Evrópu. Styrkjunum er ætlað að standa undir allt að 80% kostnaðar einstakra verkefna. Íslendingar eiga líkt og aðrar EFTA-þjóðir rétt á þátttöku í lýðheilsuverkefni Evrópusambandsins.
Nánar á vef landlæknisembættisins...Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
21. mars 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira