Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 29. mars - 4. apríl 2003

Fréttapistill vikunnar
29. mars - 4. apríl 2003


Bráð lungnabólga tilkynningaskyld

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur undirritað reglugerð um skýrslugerð vegna smitsjúkdóma. Um er að ræða breytingu á reglugerð nr. 129/1999 og með breytingunni eru heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu felld í þann flokk sjúkdóma sem eru tilkynningaskyldir. Tilefnið er lungabólgutilvikin sem vart hefur orðið og sumir rekja til tiltekinna héraða í Kína, en lungnabólga þessi hefur stungið sér niður á nokkrum stöðum undanfarið. Regulgerðin er sett á grundvelli sóttvarnalaga frá 1997. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur gefið út tilkynningu (02. apríl 2003) með tilmælum um að allir ferðamenn fresti ferðum sínum til Hongk Kong og Guangdongshéraðs í Suður-Kína nema brýna ástæðu beri til ferða þangað. Þessi tímabundnu tilmæli verða endurmetin í ljósi þróunar faraldurs heilkennis alvarlegrar bráðrar lungnabólgu (HABL: á ensku SARS) á þessum svæðum. Á heimasíðu landlæknisembættisins er að finna nýjustu tilkynningar vegna veikinnar og er fólk hvatt til að kynna sér upplýsingar þar og fylgjast með þróun mála.
LANDLÆKNISEMBÆTTIÐ...

Alþjóðaheilbrigðisdagurinn 7. apríl
Fimm milljónir barna yngri en 14 ára deyja á ári hverju af völdum sjúkdóma sem beint og óbeint má rekja til ýmissa þátta í umhverfi þeirra. Algengustu ástæðurnar eru sjúkdómar í þriðja heiminum, s.s. niðurgangur, malaría og aðrir sjúkdómar sem berast með smitferjum t.d. skordýrum. Einnig verða mörg dauðsföll barna af völdum bráðasýkingar í öndunarfærum og meiðsl eða örkuml af völdum slysa. Alþjóðaheilbrigðisdagurinn 7. apríl er að þessu sinni helgaður börnum og þeim hættum sem ógna heilbrigið barna í nánasta umhverfi þeirra. Heilbrigðisyfirvöld í öllum aðildarlöndum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) þurfa að leita svara við því hvaða hættur það eru sem ógna öryggi barna í skólanum, í borg og bæ eða á heimilum og hvernig sé unnt koma í veg fyrir þær. Í ávarpi Gro Harlem Brundtlands, framkvæmdastjóra WHO, í tilefni alþjóðaheilbrigðisdagsins segir hún unnt að koma í veg fyrir dauðsföllin og að til séu áætlanir sem brýnt sé að hrinda í framkvæmd: ,,Alþjóðaheilbrigðisdagurinn er þess vegna helgaður því að tryggja börnum heilbrigt umhverfi. Við verðum öll að leggja okkur fram um að bregðast við þeim hættum sem börnum stafar af umhverfinu. Fjárhagsleg og félagsleg byrði þjóða vegna sjúkdóma sem rekja má til umhverfisþátta er þung og sú byrði kemur harðar niður á börnum en öðrum". Á heimasíðu WHO má skoða ýmsar upplýsingar sem tengjast viðfangsefni alþjóðaheilbrigðisdagsins 7. apríl. Einnig er þar aðgengilegur bæklingur sem gefinn hefur verið út í tilefni dagsins þar sem m.a. má lesa ávarp framkvæmdastjóra WHO.
BÆKLINGURINN... (pdf. skjal)

Heilbrigt umhverfi - heilbrigð börn verður umfjöllunarefni á mMorgunverðarfundi í tilefni alþjóðaheilbrigðisdagsins
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og landlæknisembættið boða til morgunverðarfundar mánudaginn 7. apríl í tilefni alþjóðaheilbrigðisdagsins. Fundurinn verður haldinn á Grand Hótel við Sigtún frá kl. 8:15 - 9:30. Fundurinn hefst með setningarávarpi Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Vilborg Ingólfsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur hjá landlæknisembættinu fjallar um áherslur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar varðandi heilbrigt umhverfi barna. Erla Kristjánsdóttir, lektor við Kennaraháskóla Íslands ræðir um heilbrigða sjálfsmynd grunnskólabarna og Sigríður Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Þróunarsviðs Reykjavíkurborgar fjallar um börn og fátækt. Fundarstjóri verður Ingimar Einarsson, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og stýrir hann umræðum í lok fundar. Ekki þarf að skrá þátttöku á fundinn fyrirfram. Morgunverður kostar 1000 krónur.

Allar barnadeildir LSH eru nú fluttar á Barnaspítala Hringsins
Öll starfsemi Barnaspítala Hringsins hófst á nýjum stað í dag, fimmtudag 3. apríl 2003. Allar barnadeildir sem voru á Hringbraut og í Fossvogi er nú komnar í nýja Barnaspítalann. Bráðamóttaka barna er á jarðhæð Barnaspítala Hringsins, 20D og er hún opin allan sólarhringinn. Í Fossvogi verða áfram nokkur legurými fyrir börn sem farið hafa í aðgerðir þar og börn sem lenda í slysum. Starfsfólk barnasviðs, læknar og hjúkrunarfræðingar verða áfram í Fossvogi til að þjónusta þessi börn. Á heimasíðu Landspítala - háskólasjúkrahús eru upplýsingar um deildir Barnaspítala Hringsins og helstu símanúmer.
NÁNAR...

Undirskriftir gegn lögleiðingu eiturlyfja
Um 24.000 Íslendingar skráðu sig gegn lögleiðingu eiturlyfja og staðfestu þannig Vínaryfirlýsingunni 2003: ,,Við lýsum því yfir og staðfestum þá skoðun okkar að sáttmálar Sameinuðu þjóðanna um eiturlyf (1961, 1971 og 1988) og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna (33. gr.) séu ómissandi verkfæri í því starfi að viðhalda mannúðlegri löggjöf sem kemur í veg fyrir neyslu eiturlyfja og má beita til að bregðast við tilraunum til að lögleiða eiturlyf". Undirskriftalistar hafa verið sendir til UNN í Svíþjóð en þeir verða afhentir Sameinuðu þjóðunum nú í apríl. Frá þessu er sagt á heimasíðu Áfengis- og vímuvarnarráðs.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
4. apríl 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira