Hoppa yfir valmynd
15. desember 2021 Innviðaráðuneytið

Mál nr. 89/2021 - Úrskurður

.

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 15. desember 2021

í máli nr. 89/2021

 

A

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Valtýr Sigurðsson lögfræðingur og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A.

Varnaraðili: B.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að endurgreiða tryggingarfé að fjárhæð 550 evrur.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

Með kæru, dags. 18. og 24. september 2021, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 29. september 2021, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð varnaraðila, dags. 9. nóvember 2021, ásamt fylgiskjölum barst kærunefnd 9. nóvember 2021. Kærunefnd sendi sóknaraðila greinargerð og gögn varnaraðila með bréfi, dags. 12. nóvember 2021, til upplýsingar og var sóknaraðila veittur frestur til að koma að athugasemdum. Athugasemdir sóknaraðila bárust kærunefnd með bréfi, mótteknu 14. nóvember 2021, og voru þær sendar varnaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 15. nóvember 2021. Athugasemdir varnaraðila bárust kærunefnd með tölvupósti, dags. 15. nóvember 2021, og voru þær sendar sóknaraðila með bréfi kærunefndar, dagsettu sama dag. Viðbótargögn bárust frá sóknaraðila og voru þau send varnaraðila með tölvupósti kærunefndar, dags. 29. nóvember 2021. Frekari athugasemdir bárust frá varnaraðila með bréfi, dags. 1. desember 2021, og voru þær sendar sóknaraðila 9. desember 2021.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 20. ágúst 2020 til 31. maí 2021 um leigu sóknaraðila á herbergi í íbúð varnaraðila að C. Ágreiningur er um endurgreiðslu tryggingarfjár.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili segir að varnaraðili hafi kvartað yfir ástandi hins leigða við lok leigutíma sem hafi að mati sóknaraðila verið í fullkomnu ástandi og sameiginlega rými íbúðarinnar í góðu ástandi. Varnaraðili hafi ekki viljað fara yfir hið leigða með sóknaraðila og neitað að senda myndir af því sam hann hafi kvartað yfir. Þær athugasemdir sem varnaraðili hafi gert hafi verið vegna atriða sem sóknaraðili geti ekki borið ábyrgð á.

III. Sjónarmið varnaraðila

Varnaraðili segir að sóknaraðili hafi ekki verið ábyrgur fyrir öllum skemmdum á íbúðinni, en hann og herbergisfélagi hans hafi verið forsprakkar í sóðaskapnum sem hafi viðgengist. Varnaraðili hafi þurft að láta djúphreinsa rúmin þeirra og kaupa yfirdýnur vegna sóðaskaparins í herberginu. Samt hafi næstu gestir á eftir kvartað yfir ólykt í herberginu. Ýmislegt annað hafi verið eyðilagt í íbúðinni sem allir leigjendur hafi verið ábyrgir fyrir. Nýleg skolpdæla á öðru baðherberginu hafi verið eyðilögð með því að sturta einhverju niður sem hafi ekki mátt gera og hurðir á eldhúsinnréttingu hafi þurft að gera upp og sprauta vegna raka við eldamennsku. Varnaraðli eigi eftir að fá reikninga frá hreingerningafyrirtækinu sem hafi þrifið eftir leigjendurna og djúphreinsað rúmin.

Heildarupphæð þeirra reikninga sem þegar liggi fyrir hljóði upp á 593.348 kr. og sé þá talið með að vegna raka og sóðaskapar við eldamennsku hafi þurft að setja útloftun á eldhúsviftuna. Trygging sú sem hver leigjandi hafi greitt sé rúmlega 80.000 kr. og varnaraðili sé í fullum rétti samkvæmt samningi að endurgreiða ekki tryggingarféð, enda dugi það ekki fyrir kostnaði.

IV. Athugasemdir sóknaraðila

Í athugasemdum sóknaraðila er ítrekað að varnaraðili hafi upplýst að tryggingarféð yrði endurgreitt.

V. Athugasemdir varnaraðila

Í athugasemdum varnaraðila segir að það sé rétt að hann hafi sagt að tryggingarféð yrði endurgreitt en hann hafi skipt um skoðun þegar hann hafi tekið saman kostnaðinn og fyrirhöfnina.

VI. Niðurstaða            

Sóknaraðili greiddi tryggingarfé sem nam 550 evrum til tryggingar á réttum efndum á leigusamningi aðila. Varnaraðili hefur ekki endurgreitt tryggingarféð þar sem skemmdir hafi orðið á hinu leigða á leigutíma af völdum sóknaraðila.

Í 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að leigusali megi ekki ráðstafa tryggingarfé eða taka af því án samþykkis leigjanda nema fyrir liggi endanleg niðurstaða um bótaskyldu leigjanda. Þó sé leigusala jafnan heimilt að ráðstafa tryggingarfénu til greiðslu á vangoldinni leigu, bæði á leigutímanum og við lok hans.

Í 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga segir að leigusali skuli svo fljótt sem verða megi og eigi síðar en innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðis gera leigjanda skriflega grein fyrir því hvort hann geri kröfu í tryggingarfé samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. eða hafi uppi áskilnað um það, sbr. einnig 1. mgr. 64. gr. Hafi leigusali ekki gert kröfu samkvæmt 1. málsl. skuli hann skila leigjanda tryggingarfénu ásamt vöxtum án ástæðulauss dráttar og skal hann greiða leigjanda dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá þeim degi er fjórar vikur eru liðnar frá skilum leiguhúsnæðis til þess dags er hann skilar tryggingarfénu.

Óumdeilt er að sóknaraðili skilaði hinu leigða 15. maí 2021. Ekki liggja fyrir gögn sem sýna að varnaraðili hafi gert skriflega kröfu í tryggingarféð innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðisins. Aðilar eru sammála um að varnaraðili hafi sagt að hann myndi endurgreiða tryggingaféð. Í greinargerð sinni í málinu segir hann aftur á móti að hann hafi hætt við það eftir að hafa tekið saman kostnað vegna skemmda sem hafi orðið á hinu leigða. Virðist hann þó ekki hafa gert skriflega kröfu þar um fyrr en í greinargerð í máli þessu. Liggur þannig ekki fyrir að skrifleg krafa í tryggingarféð hafi borist sóknaraðila innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga. Þegar af þeirri ástæðu ber varnaraðila að endurgreiða tryggingarféð að fjárhæð 550 evrur ásamt vöxtum, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, frá þeim degi sem tryggingarféð var lagt fram en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi er fjórar vikur voru liðnar frá skilum leiguhúsnæðis til þess dags er hann skilar tryggingarfénu, sbr. 2. málsl. 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga. Þar sem sóknaraðili skilaði varnaraðila hinu leigða 15. maí 2021 reiknast dráttarvextir frá 13. júní 2021.

Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur. Samkvæmt 7. mgr. 85. gr. laganna eru úrskurðir kærunefndar aðfararhæfir án undangengins dóms.

 


 

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðila ber að endurgreiða sóknaraðila tryggingarfé að fjárhæð 550 evrur ásamt vöxtum samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, frá þeim degi sem tryggingarféð var lagt fram til 13. júní 2021 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.

 

 

Reykjavík, 15. desember 2021

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                          Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum