Hoppa yfir valmynd
19. júní 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 10/2003

Mál nr. 10/2003

Fimmtudaginn, 19. júní 2003

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, Jóhanna Jónasdóttir og Hanna S. Gunnsteinsdóttir.

Þann 18. febrúar 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra frá B f.h. A, dags. 17. febrúar 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 5. febrúar 2003 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Tildrög þessa eru þau að A sótti um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði um mánaðarmótin nóvember, desember 2002 hjá Tryggingarstofnun ríkisins. Á þessum tíma var A óvinnufær vegna afleiðinga vinnuslyss sem hann varð fyrir þann 14. nóvember 2001, og naut greiðslna frá lífeyrissjóðnum D auk þess sem hann hafði fengið greiddar bætur frá tryggingafélaginu E. Um þessar mundir var A á þeim tímamótum að uppgjöri bótamáls gagnvart tryggingafélaginu E var nýlokið og lífeyrissjóðurinn D mat það svo að A væri hæfur til léttra starfa í landi, þó hann væri ekki fær um að leggja stund á sjómannsstörf. A gerði Tryggingastofnun grein fyrir þessum staðreyndum og innti jafnframt eftir því hvort eitthvað væri rétti hans til fæðingarorlofs til fyrirstöðu af þessum sökum. Þjónustufulltrúi Tryggingastofnunar kvað svo ekki vera þar sem greiðslur frá lífeyrissjóði jafngiltu launagreiðslum hvað varðaði rétt til fæðingarorlofs. Í ljósi þessa svars og þar sem fyrirhugað fæðingarorlof átti að hefjast 1. febrúar 2003 hafðist A ekki frekar að enda næsta útilokað að einhver atvinnurekandi myndi ráða hann til starfa á nýjum starfsvettvangi í desember og janúar þegar fyrirsjáanlegt væri að hann yrði svo frá störfum vegna fæðingarorlofs strax 1. febrúar. 

Er líða tók á janúar 2003 hafði A síðan samband við Tryggingastofnun í tilefni af því að styttast færi í nefnt fæðingarorlof. Þá var hins vegar annað hljóð komið í strokkinn hjá stofnuninni en formlegt svar barst síðan loks þann 5. febrúar 2003 en þar var umsókninni hafnað og synjað um greiðslur þar sem A uppfyllti ekki skilyrði laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Var þar vísað til þess að hann hefði ekki verið á vinnumarkaði í desember 2002 og janúar 2003.

Þessu vill A ekki una og telur brotið á rétti sínum. Samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1997 ber stjórnvaldi að veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Verður ekki séð að regla sú hafi verið virt af starfsmanni Tryggingastofnunar er A snéri sér til. Samkvæmt 9. gr. sömu laga skal taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er, en A fékk ekki niðurstöðu varðandi umsókn sína fyrr en rúmum tveimur mánuðum eftir að hann lagði umsókn inn til stofnunarinnar. Jafnframt sýnir það í hnotskurn að Tryggingastofnun ríkisins hafi brugðist leiðbeiningarskyldu sinni að þau atvik sem leiða til synjunar stofnunarinnar gerast eftir að umsókn A kom fram og á meðan stofnunin var að afgreiða málið. Það hefði verið vandalaust fyrir A að skrá sig atvinnulausan ef hann hefði verið upplýstur um að slík skráning á meðan málið væri til afgreiðslu hjá stofnuninni væri formlegt skilyrði fyrir því að hann gæti átt rétt á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði. Ljóst má vera að um brýna hagsmuni er að ræða hjá A sem reiddi sig á greiðslur úr fæðingarorlofssjóði sér og sínum til framfærslu og var Tryggingastofnun rétt og skylt að taka mið af því. Þegar A lagði umsókn sína fram fullnægði hann öllum skilyrðum til að njóta þeirra greiðslna og því verður hann ekki sviptur þeim rétti sem lög veita honum með svo fjarstæðri ákvörðun eins og hér er um að véla.

Í ljósi ofanritaðs er ótvírætt að afgreiðsla Tryggingastofnunar styðst ekki við málefnaleg rök og er þess því krafist að niðurstöðu stofnunarinnar verði hnekkt og réttur A til greiðslna úr fæðingarorlofssjóði verði viðurkenndur. Er þess því farið á leit við úrskurðarnefndina að hún taki mál A til endurskoðunar í ljósi þessa og taki umsókn hans til greina.“

Með bréfi, dags. 5. mars 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 10. apríl 2003. Í greinargerðinni segir:

„F kærir f.h. A synjun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með ódagsettri umsókn sem var móttekin 21. nóvember 2002 sótti A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði frá 7. febrúar 2003 vegna væntanlegrar fæðingar barns sama dag. Með umsókninni fylgdi ekki útfyllt tilkynning um fæðingarorlof heldur bréf tryggingafélagsins E dags. 20. nóvember þar sem fram kom hvaða bætur úr slysatryggingu sjómanna félagið væri tilbúið að greiða vegna slyss sem hann varð fyrir þann 14. nóvember 2001 þar sem fram kom að vegna tímabundins atvinnutjóns væri tryggingafélagið E búið að greiða X kr. vegna og til viðbótar yrðu greiddar Y kr. eða samtals Z kr. Í greiðsluyfirliti dags. sama dag komu fram greiðslur fyrir tímabundið atvinnutjón tímabilin 23. janúar – 21. febrúar 2002, 24. febrúar – 16. mars 2002, 17. – 30. mars 2002 og 31. mars – 26. apríl 2002, samtals X kr., auk annarra greiðslna tengdu slysinu.

Þar sem í bréfinu kom ekki fram fyrir hvaða tímabil greiðslurnar væru, greiðslur skv. greiðsluyfirlitinu náðu einungis til 26. apríl 2002 og greiðslur frá tryggingafélaginu E í staðgreiðsluskrá RSK á árinu 2002 voru hærri en kom fram í bréfinu að væri verið að bjóða (samtals R kr. í stað Z kr.) auk þess sem sú fjárhæð sem tilgreind var sem eftirstöðvar bóta vegna tímabundins atvinnutjóns var skv. staðgreiðsluskrá RSK greidd í nóvember 2002 var 24. janúar 2003 óskað eftir upplýsingum frá tryggingafélaginu E um hvaða tímabil hann hefði fengið greiddar slysabætur fyrir og hver væri ástæða mismunarins. Fengust þær upplýsingar að fjárhæðin Z kr. væri rétt og mismunurinn skýrðist af mistökum í staðgreiðsluskilum í apríl sem yrðu leiðrétt. Sama dags barst yfirlit frá tryggingafélaginu E vegna greiðslna til A þar sem auk áðurgreindra greiðslna fyrir tímabundið atvinnutjón kom fram að 21. nóvember hefðu verið greiddar Y kr. vegna tímabundins atvinnutjóns fyrir tímabilið 14. nóvember 2001 – 14. nóvember 2002.

A fékk einnig greidda slysadagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins tímabilið 23. nóvember 2001 – 30. nóvember 2002.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 5. febrúar 2003 var A synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem hann uppfyllti ekki það skilyrði 1. mgr. 13. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000(ffl.) fyrir þeim greiðslum að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingardag barns.). Af gögnum sem hann hafi lagt fram og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK sjáist að hann hafi ekki verið á vinnumarkaði í desember 2002 og janúar 2003.

Skv. 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs/fæðingu barns skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Skv. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 telst m.a. til samfells starfs sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum og sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.

Greiðslur úr lífeyrissjóðum eru ekki ígildi þátttöku á vinnumarkaði og teljast ekki til samfells starfs skv. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Eftir lok greiðslna frá tryggingafélaginu E vegna tímabundins atvinnutjóns og slysadagpeninga frá TR var A ekki á vinnumarkaði, þ.e. frá 1. desember 2002. Hann uppfyllti því ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um samfellt starf í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs/fæðingu barns 7. febrúar 2003.

Varðandi það að A hafi fengið þær upplýsingar að greiðslur úr lífeyrissjóði jafngiltu launagreiðslum hvað varðaði rétt til fæðingarorlofs þá er ómögulegt að staðreyna nákvæmlega hvaða upplýsingar voru veittar, við hvaða forsendur þær miðuðust eða hvaða skilningur var lagður í þær af hálfu kæranda. Ekki verður heldur séð að gefnar upplýsingar, réttar eða rangar, hafi áhrif á réttindi til greiðslna. Réttindin og skilyrði þeirra eru bundin í lögum og lagatúlkun. Einnig skal í þessu sambandi bent á það að hann hvorki tók fram í umsókninni né lagði fram neinar upplýsingar með henni um að hann væri að fá greiðslur úr lífeyrissjóði eins og eðlilegt hefði verið að hann gerði ef hann stæði í þeirri trú að þær veittu rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 14. apríl 2003, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 25. apríl 2003, þar sem kröfur og röksemdir kæranda eru áréttaðar.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Krafa um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði verður eigi byggð á því að foreldri hafi fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rétt sinn. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) er það hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Það fellur hins vegar utan valdsviðs nefndarinnar að úrskurða um hugsanlegan bótarétt þeirra sem telja sig hafa fengið ófullnægjandi upplýsingar hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Foreldri öðlast rétt samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er með samfelldu starfi átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Á þeim tíma sem um ræðir í máli þessu taldist enn fremur til samfellds starfs, sbr. þágildandi 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar:

„a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.“

Barn kæranda fæddist 7. febrúar 2003. Sex mánaða tímabil samkvæmt framangreindu er því frá 7. ágúst 2002 til fæðingardags barns. Kærandi hafði fengið greidda slysadagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins frá 23. nóvember 2001 vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir í þeim mánuði, en þær féllu niður þann 30. nóvember 2002, þar sem metið var að kærandi gæti frá þeim tíma unnið létt störf í landi. Þá fékk hann bætur frá vátryggingafélagi fyrir tímabundið atvinnutjón vegna slyssins tímabilið 14. nóvember 2001 til 14. nóvember 2002. Lífeyrisgreiðslur sem kærandi fékk greiddar úr lífeyrissjóðnum D vegna sama slyss voru m.a. greiddar á framangreindu sex mánaða tímabili fyrir fæðingu barns, en slíkar greiðslur falla ekki undir upptalningu 2. mgr. 4. gr. framangreindrar reglugerðar. Með hliðsjón af því uppfyllir kærandi ekki það skilyrði að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, þar sem hann starfaði ekki á vinnumarkaði í desember 2002 og janúar 2003 né ávann sér rétt á annan hátt, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslur til A er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Hanna S. Gunnsteinsdóttir

Jóhanna Jónasdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum