Nr. 601/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 7. nóvember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 601/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU23040050
Kæra [...]
á ákvörðun Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 16. apríl 2023 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. apríl 2023, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 23. desember 2022. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 15. febrúar 2023 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 13. apríl 2023, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 16. apríl 2023. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 28. apríl 2023. Endurviðtökubeiðni barst frá þýskum stjórnvöldum 29. júní 2023 og var beiðnin samþykkt af Útlendingastofnun 3. júlí 2023. Ekki liggja fyrir upplýsingar um að kærandi hafi verið fluttur hingað til lands af þýskum stjórnvöldum.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í meintu heimaríki sínu, Sómalíu, af hálfu fjölskyldu unnustu sinnar.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Kæranda var veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið. Fram kom að yfirgæfi kærandi landið sjálfviljugur innan frestsins yrði endurkomubannið fellt niður.
Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda er á því byggt að trúverðugleikamat Útlendingastofnunar sé haldið annmörkum og að kærandi hafi sannað að hann sé frá Sómalíu. Þá telur kærandi að Útlendingastofnun hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína við meðferð máls hans.
Þá gagnrýnir kærandi að ekki hafi farið fram frekari rannsókn á því hvort hann sé frá Sómalíu en staðháttarpróf hafi ekki verið framkvæmt en látið nægja að spyrja hann í viðtali hjá stofnuninni um staðhætti í Sómalíu sem kærandi hafi svarað með réttum hætti.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Í 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. sömu laga sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hafi samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Þá kemur fram í 1. mgr. 74. gr. laganna að heimilt sé að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins. Af athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga verður jafnframt ráðið að rétturinn til alþjóðlegrar verndar nái ekki til flóttamanna sem eru utan marka landsins. Verða ákvæðin ekki skilin öðruvísi en svo að réttur umsækjenda til alþjóðlegrar verndar og dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða sé háður því ófrávíkjanlega skilyrði að umsækjandi sé utan heimaríkis og staddur hér á landi eða komi hér að landi.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda kom fram að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar. Ljóst er því að kæranda var heimilt að dvelja á landinu á meðan mál hans var til meðferðar hjá kærunefnd.
Í gögnum máls kæranda liggur fyrir afrit úr málaskrá Útlendingastofnunar, Erlendi, vegna máls kæranda hjá stofnuninni. Í málaskránni er skráð 3. júlí 2023 að beiðni um viðtöku hafi borist frá þýskum stjórnvöldum og hafi hún verið samþykkt af Útlendingastofnun. Með tölvubréfi 16. október 2023 sem sent var til Útlendingastofnunar óskaði kærunefnd eftir upplýsingum um hvort kærandi hefði snúið aftur til landsins. Í svörum Útlendingastofnunar sem bárust samdægurs kom fram að samkvæmt upplýsingakerfi stofnunarinnar hefði ekki borist ný beiðni frá kæranda um alþjóðlega vernd. Þá var tekið fram að þrátt fyrir að beiðni um viðtöku frá þýskum stjórnvöldum hefði verið samþykkt þá þýddi það ekki endilega að kærandi kæmi aftur hingað til lands. Af þessari ástæðu hafði kærunefnd hinn 17. október 2023 samband við talsmann kæranda og greindi honum frá því að nefndinni hefði borist þær upplýsingar að kærandi hefði farið til Þýskalands og hefðu þýsk stjórnvöld sent Útlendingastofnun beiðni 3. júlí sl. um að taka við kæranda. Óskaði kærunefnd eftir upplýsingum um hvort kærandi væri staddur hér á landi og ef svo væri að hann legði fram staðfestingu á því. Í svari talsmanns kæranda sem barst kærunefnd samdægurs kom fram að sími kæranda virtist ekki vera í sambandi og hann gæti ekki náð í hann. Kæranda var þá veittur frestur til 19. október 2023 til að leggja fram staðfestingu um að hann væri staddur á landinu. Engin svör bárust frá kæranda. Þar sem kærandi hefur ekki sýnt fram á að hann sé staddur hér á landi verður, með vísan til framangreindra upplýsinga, lagt til grundvallar að kærandi hafi yfirgefið landið.
Líkt og að framan er rakið nær rétturinn til alþjóðlegrar verndar ekki til umsækjanda sem er utan marka landsins. Ekkert bendir til annars en að brottför kæranda af landinu hafi verið sjálfviljug en eins og áður hefur komið fram frestaði kæra til kærunefndar réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar. Það er því niðurstaða kærunefndar að vísa beri kæru kæranda frá nefndinni þar sem hann hefur yfirgefið landið og er samkvæmt gögnum málsins staddur utan marka landsins.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er kæru kæranda vísað frá.
Úrskurðarorð:
Kæru kæranda er vísað frá.
The Appeal is dismissed.
Þorsteinn Gunnarsson
Sindri M. Stephensen Þorbjörg I. Jónsdóttir