Hoppa yfir valmynd
24. maí 2019 Innviðaráðuneytið

Sigurður Ingi flutti ávarp á aðalfundi alþjóðasamtaka samgönguráðherra

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á aðalfundi alþjóðasamtaka samgönguráðherra, ITF. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti í gær ávarp á aðalfundi alþjóðasamtaka samgönguráðherra (ITF) í Leipzig sem haldinn er dagana 22.-24. maí. Viðfangsefni fundarins er að fjalla um samþættingu samgöngugreina við ferðaþjónustu, upplýsingatækni og orkustefnu annars vegar og samgöngur og mikilvægi þeirra fyrir vöxt byggða og svæða hins vegar.

Fundurinn er stærsti sameiginlegi viðburður samgönguráðherra í heiminum og helsti vettvangur skoðanaskipta í stefnumótun á sviði samgangna. Auk ráðherra sækir fundinn áhrifafólk úr stjórnmálum, atvinnulífi, félagasamtaka auk háskóla- og rannsóknasamfélagsins.

Sigurður Ingi tók virkan þátt í nokkrum skipulögðum viðburðum aðalfundarins. Hann flutti ávarp á málstofu sem sérstaklega var helguð mikilvægi samgangna fyrir ferðaþjónustu og tók einnig þátt í pallborði.

Orkuskipti lykilatriði
Ráðherra sagði í ræðu sinni að ekki væri umhverfisvænt að framleiða rafmagn með kolum fyrir bíla og önnur samgöngutæki. Einstaka lönd eru í fararbroddi, en áskoruninni á heimsvísu verði ekki mætt nema með samvinnu allra. Íslendingar væru í kjöraðstæðum, ættum næga græna orku sem við stjórnum sjálf hvernig er nýtt. Spara mætti gjaldeyri fyrir og setja kraft í orkuskipti í samgöngum.

Ráðherra sagði að vöxtur í ferðaþjónustu á Íslandi væri fordæmalaus með tilheyrandi álagi á samgöngukerfið. Forgangsröðun í uppbyggingu hafi verið að tryggja umferðaröryggi en einnig að sinna endurbótum og auka þjónustu á vegum. Brýnt væri að samþætta ólíka samgöngumáta, nýta kosti hvers fyrir sig til að bæta samgöngur almennt, s.s. innanlandsflug, almenningsvagna, ferja í stað þess að stilla þeim upp á móti hver öðrum. Að því væri unnið í heildarstefnu um almannasamgöngur.

Sigurður Ingi sagði Íslendinga hafa lagt aukna áherslu að tryggja öryggi og umhverfislega sjálfbærni og styrkja grundvöll ferðaþjónustunnar. Sjálfbær þróun í samgöngum væri lykilþáttur í að ferðaþjónusta geti haldið áfram að vaxa. Með samþættingu samgöngugreina skapast mikil tækifæri fyrir jafnara aðgengi að þjónustu fyrir landsbyggðina og möguleikar til að nýta tækifæri sem felast í ferðaþjónustu. Bættar samgöngur auki möguleika svæða og byggða til þróunar ferðaþjónustu með tilheyrandi efnahagslegum ávinningi.

Áætlanir gera ráð fyrir fjórföldun í flugi fyrir árið 2050 og því mikilvægt að hraða þróun á umhverfisvænum samgöngumátum til að mæta þessari áskorun. Forsenda þess að ferðaþjónusta vaxi áfram sem atvinnugrein er að allir aðilar, hvort sem það eru stjórnvöld, fyrirtæki eða ferðafólkið sjálft, taki virkan þátt í að tryggja að umhverfisfótspor greinarinnar aukist ekki í takt við umsvif.

Sameiginleg yfirlýsing allra ráðherra
Sigurður Ingi ávarpaði loks sameiginlegan aðalfund samgönguráðherranna allra 60 aðildarríkjanna þar sem hann lýsti stuðningi við sameiginlega yfirlýsingu ráðherranna. Í ávarpi sínu lagði hann áherslu á mikilvægi þess að okkur auðnist að nýta til góðs þau miklu tækifæri sem felast í nýjum lausnum, m.a. deiliþjónustum og samþættingu allra samgöngugreina.

Samhljómur var meðal ráðherranna um að beisla neikvæð ytri áhrif samgangna á umhverfi, heilsu og samfélög. Baráttan gegn loftslagsbreytingum væri alþjóðleg áskorun og þarfnaðist samvinnu þvert á landamæri sem undirstrikar mikilvægi fundar sem þessa.

Alþjóðasamtök samgönguráðherra (ITF) eru stærstu alþjóðleg samtök innan OECD sem hafa það markmið að stuðla að samvinnu þjóða í málefnum samgangna. Samtökin standa að viðamiklum rannsóknum sem ætlað er að undirbyggja stefnumótun á öllum sviðum samgangna.

Samgönguráðherrar á aðalfundi alþjóðasamtaka samgönguráðherra í Leipzig.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 7 Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum