Hoppa yfir valmynd
22. maí 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 14/2009. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 18. maí 2009

í máli nr. 14/2009:

Ingileifur Jónsson ehf.

gegn

Vegagerðinni

           

Með bréfi, dags. 24. apríl 2009, kærði Ingileifur Jónsson ehf. ákvörðun kærða, Vegagerðarinnar, um að krefjast þess að  kærandi legði fram verktryggingu í ­útboðinu „Norðausturvegur (85) Bunguflói - Vopnafjörður“. Með tölvupósti, dags. 6. maí 2009, var kæranda gefinn kostur á að skýra kröfugerð sína. Með bréfi., dags. 8. maí 2009, voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„Þess er hér með krafist að innkaupaferli vegna umrædds verks, Norðausturvegur (85), Bunguflói – Bakkafjörður verði tafarlaust stöðvað. Hafi þegar verið tekin ákvörðun um verkið af hálfu kaupanda, er þess krafist að nefndin felli ákvörðun kaupanda úr gildi. Þá er þess jafnframt krafist að nefndin staðfesti skaðabótaskyldu kaupanda gagnvart umbj. mínum.“

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á innkaupaferli. Með bréfi kærða, dags. 14. maí 2009, var þess krafist að öllum kröfum kæranda yrði hafnað.

 

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva gerð samnings.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.

 

I.

Í febrúar 2009 auglýsti kærði útboðið „Norðausturvegur (85) Bunguflói - Vopnafjörður”. Kærandi var einn bjóðenda í útboðinu. Með bréfi, dags. 24. mars 2009, óskaði kærði eftir frekari upplýsingum frá þeim sjö bjóðendum sem lægst buðu. Í bréfinu var m.a. óskað eftir yfirlýsingu frá veitanda verktryggingar. Með bréfi, dags. 17. apríl 2009, tilkynnti kærði að ákveðið hefði verið að semja við KNH ehf. verktakafyrirtæki. Endanlegur samningur kærða og KNH ehf. var gerður hinn 30. apríl 2009.

II.

Kærandi telur að krafa kærða um verktryggingu sé hvorki í samræmi við útboðsgögn né almenna útboðsskilmála. Þá hafnar kærandi því, sem kemur fram í bréfi kærða til Samtaka atvinnulífsins, að fjárhagsstaða kæranda sé slæm og verkefnastaða með þeim hætti að kæranda muni reynast erfitt að takast á hendur umrætt verkefni. Kærandi vekur einnig athygli á því að hann hafi ekki fengið að koma að sínum sjónarmiðum eða skýringum við þessa afstöðu kærða.

 

III.

Kærði lýsir því yfir að tilboð hafi verið endanlega samþykkt og þar með sé kominn á bindandi samningur. Gögn málsins staðfesta þetta.

 

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, getur kærunefnd útboðsmála stöðvað innkaupaferli þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Eftir að bindandi samningur skv. 76. gr. laganna er kominn á verður hann þó ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt, sbr. 1. mgr. 100. gr. laganna. Frá því að ákvörðun um val tilboðs var tilkynnt og þangað til tilboðið var endanlega samþykkt liðu meira en tíu dagar. Í þeim innkaupum sem mál þetta lýtur að hefur þannig komist á bindandi samningur samkvæmt 76. gr. laga nr. 84/2007 og þegar af þeirri ástæður er ekki heimilt, lögum samkvæmt, að stöðva innkaupaferlið.

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Ingileifs Jónssonar ehf., um að innkaupaferli verði stöðvað á meðan leyst er úr kæru vegna útboðsins „Norðausturvegur (85) Bunguflói – Vopnafjörður“, er hafnað.

 

 

Reykjavík, 18. maí 2009.

Páll Sigurðsson

Sigfús Jónsson

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 22. maí 2009.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum