Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2010 Innviðaráðuneytið

Ræddu samskipti ríkis og sveitarfélaga og stöðuna í fjármálum

Samráðsfundur fulltrúa ríkis og sveitarfélaga var haldinn í gær í Reykjavík þar sem rætt var um stöðu og horfur í fjármálum ríkis og sveitarfélaga og samskipti þessara aðila. Einnig var fjallað um undirbúning á flutningi málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga um næstu áramót.

Samráðsfundur ríkis og sveitarfélaga var haldinn 11. nóvember.
Samráðsfundur ríkis og sveitarfélaga var haldinn 11. nóvember.

Af hálfu ríkisins sátu fundinn meðal annars Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra ásamt helstu samstarfsmönnum sínum. Af hálfu sveitarfélaga voru meðal fundarmanna Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Karl Björnsson framkvæmdastjóri auk nokkurra stjórnarmanna og sviðsstjóra.

Samráðsfundur ríkis og sveitarfélaga var haldinn 11. nóvember.Ögmundur Jónasson setti fundinn og fór yfir helstu mál sem unnið hefur verið að í ráðuneytinu er varða fjármál og samráð ríkis og sveitarfélaga. Ráðherra sagði samráð enn brýnna en áður eftir að efnahagskreppan skall á og að með öflugu samráði gætu ríki og sveitarfélög stillt saman aðgerðir sínar til að bregðast við ástandinu. Á það hafi sveitarstjórnarmenn bent og þrýst á um aukið samráð.

Um tekjustofna sveitarfélaga sagði Ögmundur að unnar hefðu verið tillögur um breytingu á þeim og fram kæmi bókun fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga í nefndinni þar sem lýst væri áhyggjum vegna framlaga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Þá sagði hann áhugaverða þá tillögu nefndarinnar að sveitarfélög fái hlutdeild í hækkun á kolsefnisgjaldi sem lagt verður á næsta ár og að þær tekjur rynnu til að styrkja vistvænar almenningssamgöngur sveitarfélaga.

Ögmundur gerði einnig að umtalsefni þær breytingar á tekjustofnalögunum sem gera þarf vegna flutnings á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Frumvarp sem snerti þær breytingar hefði verið unnið í ráðuneytinu og yrði hluti af bandormi fjármálaráðherra vegna málsins. Einnig vék hann að fyrirhuguðum breytingum á reglum um Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og kvaðst hafa beðið starfsfólk Jöfnunarsjóðs að útfæra breytingar á reglugerð sem fyrsta skref og tækju gildi í byrjun næsta árs. Einnig hefur ráðherra ákveðið að setja á stofn starfshóp til að þróa kerfi til að mæla útgjaldaþörf sveitarfélaga sem yrðu grundvöllur að frekari breytingum á regluverki sjóðsins.

Í lok máls síns vék ráðherra að setningu fjármálareglna fyrir sveitarfélög og breytingar á sveitarstjórnarlögum en stefnt er að því að frumvarp um þær liggi fyrir í næstu viku.

Samráðsfundur ríkis og sveitarfélaga var haldinn 11. nóvember.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, tók næstur til máls og lýsti áhuggjum sambandsins vegna fjárlagafrumvarps næsta árs sem hann sagði að gerði ráð fyrir um 3,9 milljarða króna lækkun á framlögum til sveitarfélaga. Stærsti liðurinn væri vegna niðurfellingar á aukaframlagi til Jöfnunarsjóðs og lækkunar á endurgreiðslu vegna hækkunar á tryggingagjaldi.

Steingrímur J. Sigfússon fór þessu næst yfir ýmis atriði um ríkisfjármálin og minnti á þá stöðu ríkissjóðs að þurfa að lækka útgjöld um 44 milljarða á næsta ári. Því yrði náð með aukinni skattheimtu og niðurskurði. Þá ræddi Gunnar Björnsson um aukið samstarf ríkis og sveitarfélaga og fleiri aðila á sviði kjara- og atvinnumála.

Undir lok fundar greindi Guðbjartur Hannesson frá stöðu mála varðandi undirbúning á flutningi málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga sem verður í byrjun næsta árs.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum