Hoppa yfir valmynd
31. maí 2021 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 22/2020 - Úrskurður

 

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni

 

Ráðning í starf. Stjórnvald. Mismunun á grundvelli kyns. Sératkvæði.

Kærð var ákvörðun L um að ráða konu í 50% starf á myndastofu. Í málinu var upplýst að kyn lá til grundvallar einum matsþætti á matsblaði og nutu konur samkvæmt því ákveðins forgangs fram yfir karla við ákvörðun L um val í viðtöl. Þar sem ólögmætt og þar með óheimilt væri að byggja á slíkum matsþætti við málsmeðferðina lá fyrir mismunun á grundvelli kyns í ráðningarferlinu. Skipti í því sambandi ekki máli hversu stór þáttur í heildarmatinu þessi matsþáttur væri. Var talið að L hefði ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hefðu legið til grundvallar ákvörðun þess. Varð af þeirri ástæðu ekki hjá því komist að telja að ráðningarferlið hafi verið andstætt lögum nr. 10/2008. Í ljósi þess að sambærileg matsblöð með umræddum matsþætti væru almennt notuð við ráðningar hjá L beindi kærunefndin því til L með heimild í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020 að gera breytingar á matsblöðunum í samræmi við forsendur úrskurðarins.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 31. maí 2021 er tekið fyrir mál nr. 22/2020 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með kæru, dags. 6. nóvember 2020, kærði A ákvörðun Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns um að ráða konu í 50% starf á myndastofu safnsins. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi kærunefndar, dags. 10. nóvember 2020. Greinargerð kærða barst með bréfi, dags. 23. nóvember 2020, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 27. nóvember 2020.
 4. Kærunefndinni barst bréf kæranda 10. desember 2020 með athugasemdum við greinargerð kærða sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dags. 15. desember 2020. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dags. 5. janúar 2021, og voru þær kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dags. sama dag. Með sama bréfi var kærandi upplýstur um að málið væri tekið til úrlausnar og var kærði jafnframt upplýstur um það með bréfi sama dag.
 5. Með bréfi, dags. 12. febrúar 2021, óskaði kærunefndin eftir frekari skýringum frá kærða sem bárust með bréfi hans 16. febrúar 2021. Í tilefni af þessu svari kærða óskaði kærunefndin eftir tilteknum upplýsingum frá honum með bréfi, dags. 18. febrúar 2021. Þær upplýsingar bárust með tölvubréfi 20. febrúar 2021 og voru sendar kæranda 2. mars 2021. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni degi síðar og voru þær sendar kærða til kynningar með bréfi, dags. 8. mars 2021.
 6. Þess ber að geta að lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla voru felld úr gildi með nýjum lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem tóku gildi 6. janúar 2021 ásamt lögum nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála. Í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 151/2020 féll niður umboð skipaðra nefndarmanna í kærunefnd jafnréttismála og skipaði ráðherra nýja nefndarmenn í nefndina samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar 12. janúar 2021. Þar sem atvik í máli þessu áttu sér stað í tíð eldri laga gilda lög nr. 10/2008 um efnislegan ágreining fyrir nefndinni en um málsmeðferðina fer samkvæmt lögum nr. 151/2020.

   

   

  MÁLAVEXTIR

 7. Kærði auglýsti laust til umsóknar 50% starf við myndun safnefnis á myndastofu 24. september 2020. Í auglýsingunni kom m.a. fram að myndastofa væri á varðveislusviði safnsins og sæi um almenna myndaþjónustu fyrir safngesti og stafræna myndatöku safnefnis vegna þróunar- og varðveisluverkefna þess. Helstu verkefni og ábyrgð voru tiltekin sem: „Stafræn myndataka vegna varðveisluverkefna. Eftirlit með gæðum við framleiðslu stafrænna mynda. Aðföng og skráning til myndunar. Frágangur á efni að myndun lokinni.“ Þá voru gerðar eftirfarandi hæfnikröfur: „Vandvirkni og nákvæmni. Góð almenn tölvukunnátta og ritfærni. Sjálfstæð og öguð vinnubrögð. Rík þjónustulund og lipurð í mannlegum samskiptum.“ Tekið var fram að við ráðningar væri tekið mið af jafnréttisáætlun kærða.
 8. Alls bárust 65 umsóknir um starfið, 39 frá konum og 26 frá körlum. Þrjár konur voru boðaðar í starfsviðtal og var í framhaldinu ákveðið að bjóða einni þeirra starfið, sem hún þáði.
 9. Með tölvubréfi 3. nóvember 2020 fór kærandi fram á rökstuðning kærða vegna ráðningarinnar með vísan til 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Rökstuðningurinn var sendur kæranda með tölvubréfi 4. nóvember 2020.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA

 10. Kærandi heldur því fram að ráðningin hafi farið gegn jafnréttislögum þar sem sú sem var ráðin hafi verið mun minna hæf en kærandi.
 11. Telur kærandi að miðað við efni auglýsingarinnar og starfslýsingu hafi verið nokkuð ljóst að þörf hafi verið á ljósmyndamenntuðum einstaklingi með töluverða reynslu á myndvinnslusviði þótt ekki hafi verið farið fram á þá menntun í auglýsingunni. Að mati kæranda sé það ekki í samræmi við lýsingu á verkefnum starfsins.
 12. Kærandi sé ljósmyndari til margra ára með sveinspróf í ljósmyndun og reynslu af stafrænni vinnu fyrir fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga. Söfnun, vinnsla, skipulag og skráning gagna hafi verið þar á meðal. Þá hafi hann starfað á ljósmyndasafni í Noregi við ljósmyndavinnslu á gömlum myndum og á Norska þjóðbókasafninu við skráningu og skönnun gagna.
 13. Bendir kærandi á að sem ljósmyndari hafi hann skipulagt gagnasöfnun og séð um ljósmyndun, innskönnun og skráningu fyrir félagasamtök og í mörg ár hafi hann séð um ljósmyndun ýmissa listmuna fyrir tiltekið happdrætti. Þar fyrir utan hafi hann unnið með og fyrir listamenn og fyrirtæki að ýmiss konar ljósmyndun og verið leiðandi í litgreiningu og stafrænni fullvinnslu ljósmynda enda einn fyrsti íslenski ljósmyndarinn til að útskrifast með séráherslu á stafrænar myndatökur.
 14. Telur kærandi því ljóst að eitthvað annað en faglegur metnaður og val á hæfasta einstaklingnum hafi ráðið för við umrædda ráðningu.
 15. Að mati kæranda hefði kærða borið að boða hann í viðtal og gefa honum tækifæri til að svara spurningum kærða en ekki hafi verið gefið færi á því. Ef kærði hefði farið að lögum og reglum um að ávallt skuli velja þann hæfasta hefði kærandi verið boðaður í viðtal á þeim grundvelli. Hefði hann í viðtali getað tjáð sig um áhuga sinn á starfinu og að ekki hefði annað komið til greina en að rækja starfið eftir bestu getu fram að starfslokum.
 16. Við ráðningarferlið hafi verið gerð mistök og skautað fram hjá þeirri staðreynd að ráða beri ljósmyndara til starfsins og þann hæfasta með reynslu af safnaljósmyndun og störfum fyrir söfn. Í þessu tilviki hafi það ekki verið gert og að því látið liggja að hæfni og þekking til ljósmyndunar sé eitthvað sem hægt sé að kenna á staðnum. Með því sé lítið gert úr menntun þeirra einstaklinga sem leggi á sig fjögurra ára háskólanám til að fullkomna fag sitt og margra ára endurmenntun og viðbótarmenntun.
 17. Þá hafi sú hæfnitafla sem sett hafi verið upp við mat á umsækjendum ekkert vægi enda byggð á rangri forskrift og forsendu þar sem sú sem ráðin hafi verið hafi hvorki reynslu né kunnáttu í ljósmyndun. Slík kunnátta og reynsla fáist ekki á nokkrum dögum undir handleiðslu þess ljósmyndara sem starfi hjá kærða enda megi gera því skóna að sú handleiðsla feli í sér brot á lögum nema sá ljósmyndari sé með meistararéttindi og ráðinn sé sveinn.
 18. Að mati kæranda sé það því ljóst að jafnréttislög hafi verið brotin við ráðninguna.

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA

 19. Kærði tekur fram að um starf ófagmenntaðs starfsmanns sé að ræða og í auglýsingunni hafi ekki verið gerðar kröfur um menntun eða reynslu á ákveðnu starfssviði. Með ráðningunni hafi ætlunin verið að auka afköst á myndastofunni í stafrænni myndun safnefnis. Fyrir væru þar tveir starfsmenn, ljósmyndari sem færi fyrir myndastofunni og einn ófaglærður starfsmaður, en báðir væru þeir karlar í 100% starfi. Bendir kærði á að ófaglærði starfsmaðurinn ynni eftir sömu starfslýsingu og væri með sömu grunnröðun til launa og í boði voru fyrir nýja starfsmanninn.
 20. Tekur kærði fram að ekki hafi verið þörf á einstaklingi með menntun á sviði ljósmyndunar í starfið. Viðkomandi starfsmaður ynni undir stjórn ljósmyndara og öll handtök væru lærð á vinnustað. Ekki væri unnið með eða gerð krafa um þekkingu á myndvinnslu- eða myndbandaforritum. Bendir kærði á að starfið feli í sér rútínu við skönnun og skráningu og þurfi starfsfólk myndastofu að vera sjálfu sér nægt en vinnusamt.
 21. Kærði tekur fram að þau sjónarmið sem hann studdist við við mat á umsækjendum og val í viðtöl hafi verið: „Almenn hæfisskilyrði. Vísbendingar í umsókn um að starfsmaður sé stöðugur/stabíll og líklegur til að una sér í almennu starfi til næstu framtíðar. Vísbendingar í umsókn um að umsækjandi væri sérstaklega að leitast eftir hlutastarfi. Jafnréttisáætlun safnsins. Fyrir starfa tveir karlar á myndastofu og því leitast safnið við að velja frekar konu úr hópi jafn hæfra umsækjenda.“ Tekur kærði fram að farið hafi verið yfir umsóknir í töflureikni þar sem umsóknum voru gefin stig en þeir þrír umsækjendur sem fengu flest stig voru boðaðir í viðtal.
 22. Kærði tekur fram að ef tveir umsækjendur hvor af sínu kyni séu metnir jafn hæfir skuli líta til þess við val á starfsmanni hvort kynið er í minnihluta á umræddu starfssviði. Þannig séu stigin 0-1 í dálkinum Jafnréttisstefna á matsblaðinu tilkomin. Það kyn sem er í meirihluta fyrir á starfssviðinu fær 0 stig og það kyn sem er í minnihluta á starfssviðinu fær 1 stig.
 23. Bendir kærði á að í auglýsingum um störf á safninu komi fram að við ráðningar sé tekið mið af jafnréttisstefnu sem sé aðgengileg á vef safnsins og fjalli um ráðningar. Stefnan sé endurskoðuð reglulega og núverandi útgáfa samþykkt í framkvæmdaráði safnsins í júní 2020 og send Jafnréttisstofu.
 24. Að loknum viðtölum hafi það verið mat kærða að sú sem hafi verið ráðin hafi komið best út af þeim þremur sem var boðið í viðtöl. Hafi hún þótt best uppfylla þau skilyrði sem gerð var krafa um í auglýsingu um starfið. Telur kærði að ráðinn hafi verið hæfasti einstaklingurinn úr hópi umsækjenda að teknu tilliti til krafna um hæfi, jafnréttisstefnu safnsins og verkefna starfsins.

  NIÐURSTAÐA

 25. Mál þetta beinist að því hvort kærði hafi brotið gegn 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. núgildandi 19. gr. laga nr. 150/2020, með ráðningu konu í starf á myndastofu kærða.
 26. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 er markmið laganna að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Í 1. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála er tekið fram að lögin gildi um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint eftir því sem mælt er fyrir um í lögum um jafnréttismál og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði þeirra laga hafi verið brotin.
 27. Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 er tekið fram að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 26. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á ráðningu í starfið sem um ræðir í málinu hjá kærða.
 28. Í matsreglu 5. mgr. 26. gr. laganna er tekið fram að við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. 26. gr. hafi verið brotið skuli taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálfstæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. til hliðsjónar athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
 29. Í auglýsingu um starfið kom fram að helstu verkefni starfsmanns á myndastofu væru stafræn myndataka vegna varðveisluverkefna, eftirlit með gæðum við framleiðslu stafrænna mynda, aðföng og skráning til myndunar og frágangur á efni að myndun lokinni. Engar sérstakar menntunarkröfur voru gerðar í auglýsingunni en þær kröfur sem voru gerðar lutu að vandvirkni og nákvæmni, góðri almennri tölvukunnáttu og ritfærni, sjálfstæðum og öguðum vinnubrögðum, ríkri þjónustulund og lipurð í mannlegum samskiptum.
 30. Kærunefndin bendir á að þar sem ekki er mælt fyrir um þessar kröfur til starfsins í lögum sé það kærða að ákveða þær í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegar til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir með hagsmuni stofnunarinnar að leiðarljósi. Er kærði bundinn af því að þær séu málefnalegar.
 31. Af hálfu kærða er tekið fram að við mat á umsækjendum og val í viðtöl hafi verið byggt á fjórum matsþáttum, þ.e. almennum hæfisskilyrðum í auglýsingu, vísbendingum um að starfsmaður væri stöðugur og líklegur til að una sér í almennu starfi til næstu framtíðar, vísbendingum í umsókn um að umsækjandi væri sérstaklega að leitast eftir hlutastarfi auk jafnréttisáætlunar safnsins. Varðandi síðastgreinda þáttinn bendir kærði á að fyrir starfi tveir karlar á myndastofu og því hafi verið leitast við að velja frekar konu úr hópi jafn hæfra umsækjenda.
 32. Af gögnum málsins má ráða að framangreindir fjórir matsþættir ásamt tveimur öðrum matsþáttum, þ.e. gæðum umsóknar og því hvort uppgefnir meðmælendur væru fyrrverandi yfirmenn eða vinnuveitendur umsækjenda, hafi verið settir upp í dálka í töflureikni á þar til gerðu matsblaði. Við hvern dálk eða matsþátt var gert ráð fyrir að umsækjendum væru gefin tiltekin stig, allt frá 0 stigum og upp í 4 stig.
 33. Kærði hefur lýst því að við yfirferð á umsóknum hafi hverri umsókn verið gefin stig en þeir þrír umsækjendur sem hafi fengið samanlögð flest stig hafi verið boðaðir í viðtöl.
 34. Varðandi dálkinn Jafnréttisstefna sem gaf 0 til 1 stig á matsblaði gaf kærði þá skýringu á stigagjöfinni að umsækjandi sem væri af því kyni sem er í meirihluta á viðkomandi starfssviði fengi 0 stig og umsækjandi sem væri af því kyni sem er í minnihluta á starfssviðinu fengi 1 stig. Af þessu verður ekki dregin önnur ályktun en að kyn umsækjenda hafi skipt máli við val á umsækjendum í viðtöl og þar með að kyn umsækjanda hafi skipt máli við ráðningarferlið. Að auki liggur fyrir að kærandi fékk ekkert stig í þessum dálki en þær þrjár konur sem boðaðar voru í viðtöl fengu 1 stig hver.
 35. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 10/2008 skal starf sem laust er til umsóknar standa opið jafnt konum og körlum. Tekið er fram í 1. mgr. 24. gr. laganna að hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, sé óheimil. Samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laganna er um að ræða beina mismunun þegar einstaklingur fær óhagstæðari meðferð en annar einstaklingur af gagnstæðu kyni fær, hefur fengið eða mundi fá við sambærilegar aðstæður. Þá er, eins og áður segir, atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna.
 36. Af framangreindu leiðir að almennt er óheimilt að leggja til grundvallar sjónarmið sem eru byggð á mismunun á grundvelli kyns við ráðningu í starf, þ.m.t. við val í viðtöl. Telst slíkt til beinnar mismununar sem er óheimil og þar með ólögmæt.
 37. Eins og áður segir var kyn umsækjanda einn matsþáttur á matsblaði sem lagður var til grundvallar við val á umsækjendum í viðtöl. Þá liggur fyrir að við stigagjöfina á matsblaðinu hafi konum verið gert hærra undir höfði á kostnað kæranda og annarra karla með vísan til þess að það hallaði á konur á myndastofu kærða. Með vísan til þess verður fallist á að kærandi hafi leitt líkur að því að mismunun á grundvelli kyns hafi átt sér stað við málsmeðferðina, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Samkvæmt því kemur það í hlut kærða að sýna fram á að aðrar aðstæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.
 38. Kærði hefur lýst því að þar sem tveir karlar hafi starfað fyrir á myndastofu hafi hann við val í viðtöl leitast við að velja frekar konur úr hópi jafn hæfra umsækjenda. Hafi það verið í samræmi við jafnréttisáætlun kærða sem sé birt á heimasíðu stofnunarinnar. Í henni segi um ráðningar: „Í auglýsingum um störf kemur fram að við ráðningar sé tekið mið af jafnréttisstefnu safnsins. Jafnrétti ríkir við ráðningar starfsmanna og laus störf eru opin jafnt konum sem körlum. Verði tveir eða fleiri umsækjendur um starf metnir jafn hæfir, verði umsækjandi valinn af því kyni sem er í minnihluta á umræddu starfssviði. Stefna skal að jöfnu hlutfalli kvenna og karla innan stofnunarinnar. Störf flokkast ekki í sérstök kvenna- eða karlastörf.“ Af framangreindu má ráða að um sé að ræða sértækar aðgerðir til að rétta hlut annars hvors kynsins innan stofnunarinnar við ráðningar.
 39. Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 10/2008 teljast sértækar aðgerðir ekki ganga gegn lögunum. Með sértækum aðgerðum er átt við sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem á annað kynið hallar. Þar getur þurft tímabundið að veita öðru kyninu forgang til að ná jafnvægi, sbr. 7. tölul. 2. gr. laganna. Ljóst er að eingöngu er heimilt að beita slíkum sértækum aðgerðum eftir að heildstætt mat á öllum umsækjendum hefur farið fram á grundvelli lögmætra og málefnalegra sjónarmiða og þegar um tvo eða fleiri jafn hæfa umsækjendur er um að ræða.
 40. Af framangreindri jafnréttisáætlun kærða má ráða að eftir að mat á umsækjendum hefur farið fram og fyrir liggur að tveir eða fleiri eru metnir jafn hæfir sé litið svo á að heimilt sé að byggja á kyni við val á umsækjanda í starfið í þeim tilgangi að bæta hlutfall annars hvors kynsins innan stofnunarinnar. Samkvæmt því er gengið út frá því í jafnréttisáætluninni að heimilt sé við ráðningar að byggja á kyni til að komast að niðurstöðu um hvern eigi að ráða þegar valið stendur á milli tveggja eða fleiri jafn hæfra umsækjenda og sem hafa að loknu mati verið metnir hæfastir. Þessi regla jafnréttisáætlunarinnar á hins vegar samkvæmt orðalagi sínu ekki við áður en komist er að niðurstöðu um það hvaða umsækjendur, einn eða fleiri, eru hæfastir til að gegna starfinu. Á þessi regla því ekki við þegar verið er að leggja mat á umsækjendur heldur eftir að endanlegt mat á þeim liggur fyrir. Er því ekki hægt að beita henni við val á umsækjendum í viðtöl enda eðli málsins samkvæmt ekki búið að komast að niðurstöðu um það hver eða hverjir séu hæfastir til að gegna starfinu. Samkvæmt því verður ekki betur séð en að kærði hafi ekki farið eftir eigin jafnréttisáætlun við ráðningarferlið. Í þessu máli er hins vegar ekki þörf á því að nefndin taki að öðru leyti afstöðu til inntaks þeirra sértæku aðgerða sem mælt er fyrir um í jafnréttisáætlun kærða.
 41. Eins og áður er rakið nutu konur ákveðins forgangs fram yfir karla við ráðningarferlið hjá kærða. Liggur því fyrir að kærði mismunaði umsækjendum í ráðningarferlinu með því að byggja mat á hæfni umsækjenda á kyni en eins og áður segir er það ólögmætt og þar með óheimilt að byggja á slíkum matsþætti við málsmeðferðina. Skiptir í því sambandi ekki máli hversu stór þáttur í heildarmatinu hann var. Verður af þeirri ástæðu ekki hjá því komist að telja að málsmeðferðin sem lá til grundvallar ákvörðun kærða hafi verið andstæð lögum nr. 10/2008. Samkvæmt því verður að telja að kærða hafi ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008.
 42. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að kærði hafi mismunað umsækjendum um starf á grundvelli kyns, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008.
 43. Af svörum kærða til kærunefndar má ráða að kærði notist almennt við sambærilegar aðferðir við ráðningar í störf hjá kærða, þ.m.t. sambærilegt matsblað með þeim matsþætti sem komist hefur verið að niðurstöðu um hér að framan að sé ómálefnalegur og því óheimilt að byggja á honum við málsmeðferðina. Af því tilefni og með heimild í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020 beinir kærunefndin því til kærða að gera breytingar á matsblöðum í samræmi við framangreint.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, braut gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla við ráðningu í starf á myndastofu sem auglýst var 24. september 2020.

Með heimild í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020 beinir kærunefnd jafnréttismála því til kærða að gera breytingar á matsblöðum í samræmi við forsendur úrskurðarins.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Sératkvæði Andra Árnasonar

Ég er sammála meðnefndarmönnum um það sem fram kemur fram að málslið 41 og því sem fram kemur í málslið 43. Í gögnum sem kærði hefur lagt fram í málinu kemur fram að í ráðningarferlinu hafi umsækjendum verið gefin stig þar sem litið var til nokkurra þátta, þ.m.t. gæða umsókna og hvernig umsækjendur töldust uppfylla umsóknarskilyrði. Þá var og lagt mat á hvort umsækjendur teldust hafa hug á hlutastarfi og hvort viðkomandi yrði stöðugur í starfinu og fyrir það gefin stig, auk þess sem gefin voru stig með vísan til þess hvort meðmælendur umsækjenda væru fyrrverandi yfirmenn. Til viðbótar framangreindu voru og gefin stig fyrir kyn, svo sem rakið er hér að framan, þ.e. konur fengu 1 stig, þar sem talið var að hallaði á það kyn á starfssviðinu, en kærandi, sem karl, ekkert. Í skýringum kærða kemur fram að umsækjendur sem flest stig fengu, þ.e. þrír efstu af umsækjendum, hafi verið boðaðir í viðtal. Tvær af þeim þremur konum sem í viðtal voru boðaðar höfðu fengið 17 stig hvor, en sú þriðja 15 stig. Kæranda höfðu verið gefin 11 stig í nefndri töflu. Af þessu má ljóst vera að hin kynbundna einkunnagjöf, sem var 1 stig, hafði ekki afdráttarlaust áhrif við val á því hvaða umsækjendur voru valdir til viðtals og áttu þannig raunhæfan möguleika á að hljóta starfið.

Í kæru sinni til nefndarinnar teflir kærandi því fram að nefnd ráðning í stöðu í ljósmyndun á safnadeild hafi farið gegn jafnréttislögum þar sem hæfi konu þeirrar sem ráðin var hafi verið minna en kæranda. Taldi kærandi að miðað við efni auglýsingar um starfið og starfslýsingu hafi verið þörf á ljósmyndamenntuðum einstaklingi með töluverða reynslu á myndvinnslusviði.

Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka til meðferðar og gefa rökstutt álit um hvort ákvæði jafnréttislaga hafi verið brotin. Einstaklingar sem telja að ákvæði laganna hafi verið brotin á sér geta beint erindum til nefndarinnar. Í 26. gr. laga nr. 10/2008, sem hér eiga við, er kveðið á um að við ráðningu í starf sé atvinnurekanda óheimilt að mismuna umsækjendum á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis við ráðningu skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Skilja verður 26. gr. laganna svo að með ákvörðun, sem vísað er til, sé átt við þá ákvörðun atvinnurekanda að ráða tiltekinn einstakling af hinu kyninu til starfs frekar en kæranda. Talið er að um þetta gildi almennar sönnunarreglur sambærilegar við þær sem gilda fyrir dómstólunum. Skal atvinnurekandi sanna að meginreglan um jafnrétti kynjanna hafi ekki verið brotin við ákvörðun hans.

Ég er sammála þeirri niðurstöðu meðnefndarmanna að það fari gegn ákvæðum jafnréttislaga nr. 10/2008 að gefa konum í ráðningarferlinu sérstaka einkunn fyrir kyn umfram karla, auk þess sem ekki verður séð að það fyrirkomulag hafi samrýmst jafnréttisáætlun kærða. Hins vegar virðist af skýringum kærða mega ráða að sú einkunn sem gefin var fyrir kyn hafi ekki skipt sköpum um hverja skyldi boða til viðtals og sem áttu þá raunhæfa möguleika á ráðningu. Skilja verður því afstöðu kærða svo að önnur atriði hafi í reynd ráðið ákvörðun um ráðningu í starfið og að þau atriði hafi ekki tengst kyni umsækjenda sérstaklega. Fyrrnefnd einkunnagjöf byggði, svo sem að framan er rakið, m.a. á vísbendingum í umsókn um hug umsækjenda til 50% starfs, vísbendingum um hvort umsækjendur væri stöðugir í starfi og til stöðu meðmælenda umsækjenda. Við ákvörðun um það hvort kærði hafi brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga við undirbúning og ákvörðun um ráðningu í nefnt starf þyrfti að mínu mati að taka afstöðu til þess hvort síðastgreind atriði, svo og mat kærða á þeim, hafi verið forsvaranleg og málefnaleg. Með vísan til afstöðu meðnefndarmanna tel ég hins vegar ekki ástæðu til að fjalla um það sérstaklega.

 

 

Andri Árnason

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira