Hoppa yfir valmynd
23. desember 2006 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Alþjóðaflugmálastofnunin samþykkir viðbragðsáætlun Flugmálastjórnar Íslands

Flugmálastjórn Íslands hefur lagt fram aðgerðaáætlun sem gripið verður til ef til þess kemur að flugumferðarstjórar verði of fáir við störf þann 1. janúar þegar Flugstoðir ohf. taka við flugumferðarþjónustunni. Alþjóðaflugmálastofnunin í Montreal, ICAO, hefur samþykkt aðgerðaáætlunina.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra segir að í engu verði slakað á öryggiskröfum í flugi og segir mikilvægt að samgöngur Íslands við umheiminn séu tryggðar. Hann segir að með aðgerðaáætluninni séu bæði flugsamgöngur til og frá Íslandi tryggðar og sömuleiðis skuldbindingar gagnvar alþjóðlegu flugi um íslenska flugstjórnarsvæðið.

Tilkynning Flugmálastjórnar Íslands um aðgerðaáætlunina fer hér á eftir:

Flugmálastjóra hefur borist svar frá Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO) í Montreal, þar sem fram kemur að forseti fastaráðs ICAO samþykkir aðgerðaráætlun sem gripið verður til, ef skortur verður á íslenskum flugumferðarstjórum þann 1. janúar næstkomandi.

Viðbragðsáætlunin felur í sér breytingu á skipulagi flugumferðar á íslenska flugstjórnarsvæðinu sem mun að mestu leyti fylgja föstum fyrirfram ákveðnum ferlum og flughæðum. Fullt samstarf er við flugstjórnarmiðstöðvarnar í Prestwick í Skotlandi og Stavanger í Noregi um framkvæmd þessarar áætlunar og sama gildir um Flugstjórnarfélag Kanada (NAVCANADA). Þá mun flæðisstjórn flugumferðar í Brussel (Eurocontrol CFMU) gegna veigamiklu hlutverki í þessari viðbragðsáætlun.

Markmið viðbragðsáætlunarinnar er að flugumferð gangi greiðlega fyrir sig og að flugöryggi sé að fullu tryggt, þótt hugsanlega verði um tímabundinn skort á flugumferðarstjórum að ræða í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík.

Þegar hefur verið boðaður fundur með flugrekstraraðilum þar sem viðbragðsáætlunin verður kynnt og farið yfir framkvæmd hennar og samráð hefur verið haft við Alþjóðasamband flugfélaga (IATA) vegna áætlunarinnar.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira