Hoppa yfir valmynd
29. desember 2006 Innviðaráðuneytið

Samgönguráðuneytið og Flugstoðir ohf. skrifa undir þjónustusamning

Opinbera hlutafélagið Flugstoðir og samgönguráðuneytið gengu í dag frá þjónustusamningi um starfsemi félagsins næstu tvö árin. Tekur hann til kaupa ráðuneytisins á þjónustu Flugstoða ohf. á sviði reksturs flugvalla og flugleiðsöguþjónustu. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Ólafur Sveinsson, formaður stjórnar Flugstoða, skrifuðu undir samninginn ásamt Baldri Guðlaugssyni, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis.

Samningur v. Flugst.
Í dag skrifaði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra undir þjónustu-samninginn ásamt Ólafi Sveinssyni, formanni stjórnar Flugstoða, og Baldri Guðlaugssyni, ráðuneytis-stjóra í fjármálaráðuneytinu.

Flugstoðir ohf. taka sem kunnugt er við rekstri flugvalla og flugleiðsöguþjónustu 1. janúar af Flugmálastjórn Íslands en hún sinnir áfram stjórnsýslu og eftirliti flugmála. Gert er ráð fyrir að starfsmenn Flugstoða verði um 230. Í samningnum eru skilgreindar kröfur um þjónustu sem Flugstoðum ohf. ber að veita og nær hann yfir árin 2007 og 2008.

Samkvæmt þjónustusamningnum er félaginu falið að reka áætlunarflugvelli landsmanna sem eru 14 að tölu (12 í grunnneti og tveir utan grunnnetsins), sjúkraflugvelli og lendingarstaði. Einnig eru í samningnum ákvæði um uppbyggingu á flugvöllunum og lendingarstöðunum. Á sama hátt er lýst í samningnum þeim verkefnum sem Flugstoðir ohf. taka að sér varðandi flugleiðsöguþjónustu, bæði hvað varðar flug innanlands og til og frá landinu, svo og varðandi alþjóðlegt flug um íslenska flugstjórnarsvæðið sem unnið er samkvæmt samningi við Alþjóða flugmálastofnunina, ICAO.

Í viðaukum samningsins er meðal annars fjallað um viðhald og stofnframkvæmdir á flugvöllum eignaskiptingu og fleira.

Samningsupphæðin er um 1,7 milljarðar króna fyrir hvort ár og eru í samningnum endurskoðunarákvæði ef kemur til þess að breyta þurfi umfangi verkefna sem samningurinn tekur til. Þjónustusamningurinn er sá umfangsmesti sem gerður er milli ríkisins og hlutafélags í samræmi við nýjar reglur um slíka samninga. Auk fulltrúa samgönguráðuneytis, fjármálaráðuneytisins og Flugmálastjórnar/Flugstoða hafa fulltrúar Ríkiskaupa veitt ráðgjöf við samningsgerðina.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum