Hoppa yfir valmynd
29. desember 2006 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Ernir hefja áætlunarflug innanlands í byrjun janúar

Flugfélagið Ernir hefur tekið nýja vél í þjónustu sína, Jetstream Super 32, 19 farþega vél sem notuð verður bæði í áætlunarflugi félagsins innanlands sem hefst í byrjun janúar og leiguflugi innanlands og utan. Kaupverð vélarinnar er liðlega 100 milljónir króna að meðtöldum varahlutum.

Ernir
Hörður Guðmundsson er hér við nýju Jetstream flugvélina sem kom til landsins í gær og hefur einkennisstafina TF-ORA.

Ernir hefur áætlunarflug til fjögurra staða frá Reykjavík 2. janúar: Hafnar í Hornafirði, Sauðárkróks, Gjögurs og Bíldudals. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og forráðamenn félagsins skrifuðu í október undir samning um að annast flugið næstu þrjú árin. Hörður Guðmundsson, aðaleigandi og forstjóri félagsins, segir undirbúning hafa staðið yfir síðan en hann fólst meðal annars í kaupum á vélinni, ráðningu fleiri starfsmanna og í því að bæta aðstöðu í farþegaafgreiðslu félagsins á Reykjavíkurflugvelli.

Auk nýju vélarinnar hafa Ernir til umráða tvær 9 manna tveggja hreyfla vélar, Cessna 406 Caravan II og Cessna 441 Conquest II sem einnig verða notaðar í áætlunarflugið og önnur verkefni félagsins. Einnig á félagið tvær einshreyfils vélar sem einkum eru notaðar í útsýnisflug með ferðamenn.

Jetstream vélin hefur fengið einkennisstafina TF-ORA en hún kom til landsins í gærkvöld. Erlendur þjálfunarflugstjóri er að ljúka þjálfun flugmanna félagsins til starfa á nýju vélinni. Alls verða 12 til 14 flugmenn hjá félaginu en fimm flugmenn voru nýlega ráðnir vegna aukinna verkefna.

Hörður segir ástæðuna fyrir vali á þessari tegund einkum þá að farþegarými hennar sé rúmgott, flestir geti gengið um það uppréttir, vélin sé búin salerni og hún sé hraðfleyg. Flugtími frá Reykjavík til Sauðárkróks er um 30 mínútur og um 50 mínútur til Hafnar. Vélin er búin jafnþrýstibúnaði og getur hún því flogið ofar veðrum. Vélin verður einkum notuð á þeim leiðum en unnt væri einnig að nota hana til flugs á Bíldudal ef flugbrautin þar yrði lengd um 250 metra. Aðrar vélar félagsins verða því notaðar í flugið á Gjögur og Bíldudal.

Vélin er smíðuð í Bretlandi árið 1991 og segir Hörður hana hafa verið í eigu Japan Airlines þar til fyrir þremur árum og hún sé mjög vel með farin.

Eins og fyrr segir verður nýja flugvélin notuð í leiguflug ásamt áætlunarfluginu og segir Hörður hana þegar bókaða í nokkur verkefni bæði í flug til Grænlands og Færeyja. Segir Hörður áætlunarflugið renna styrkari stoðum undir starfsemi félagsins sem mörg undanfarin ár hefur sinnt margs konar leigu- og verkefnaflugi innanlands og utan.


Nánari upplýsingar um flugáætlun er að finna á vefsíðunni ernir.is.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira