Hoppa yfir valmynd
2. júní 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nýtt skipulag í mennta- og barnamálaráðuneyti

Nýtt skipurit mennta- og barnamálaráðuneytis - mynd

Nýtt skipulag mennta- og barnamálaráðuneytis tók gildi í dag, 2. júní 2022, þegar ráðherra staðfesti ákvörðun um skipulag ráðuneytisins, sbr. 17. gr. laga um Stjórnarráð Íslands nr. 115 frá 23. september 2011 með síðari breytingum.

Ákvörðun um breytingar á skipulagi ráðuneytisins má rekja til þeirra miklu breytinga sem gerðar voru á Stjórnarráði Íslands og flutningi stjórnarmálefna milli ráðuneyta, sem tóku gildi 1. febrúar síðastliðinn. Þá var málefnum mennta- og menningarmálaráðuneytisins skipt milli nokkurra ráðuneyta, auk þess sem málefni barna- og fjölskyldumála voru færð til ráðuneytisins sem fékk við það tækifæri nafnið mennta- og barnamálaráðuneyti.

Markmiðið með nýju skipulagi er að efla skilvirkni, teymisvinnu og árangur innan mennta- og barnamálaráðuneytisins þannig að sá mannauður og þekking sem þar er til staðar fái notið sín sem best, meðal annars við að tryggja að menntun, aðbúnaður og réttindi barna á Íslandi séu ávallt í fyrirrúmi og í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar um að tryggja farsæld allra barna.

Um er að ræða mikla breytingu á skipulagi ráðuneytisins og verða allar núverandi skrifstofur þess lagðar niður. Samkvæmt ákvörðun mennta- og barnamálaráðherra um skipulag ráðuneytisins skiptist starfsemi þess nú í eftirfarandi fjórar skrifstofur:

  • skrifstofa stefnumótunar og innleiðingar,
  • skrifstofa greininga og fjármála,
  • skrifstofa gæða og eftirlits og
  • skrifstofa ráðuneytisstjóra og innri þjónustu.

Mennta- og barnamálaráðherra hefur ákveðið að auglýsa allar stöður skrifstofustjóra lausar til umsóknar fljótlega.

Þá hefur ráðherra skipað Ernu Kristínu Blöndal, skrifstofustjóra, í embætti ráðuneytisstjóra frá og með deginum í dag. Erna Kristín tekur við af Páli Magnússyni, sem fer til starfa hjá fastanefnd Íslands í Genf og mun þar starfa á sviði málefna barna m.a. við að efla alþjóðlegt samstarf íslenskra stjórnvalda hvað varðar velferð og réttindi barna en einnig á sviði alþjóðavinnumála og alþjóðaheilbrigðismála m.a. með eflingu tengsla við Alþjóðavinnumálastofnunina (ILO) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO).

Erna Kristín Blöndal
Erna Kristín Blöndal

Erna er með BA- og meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands, býr yfir mikilli reynslu af störfum innan Stjórnarráðsins og íslenskrar stjórnsýslu og hefur haldið utan um stór verkefni á vegum íslenskra stjórnvalda. Hún hefur gegnt emb­ætti skrifstofustjóra síðan 2019, fyrst á skrifstofu barna- og fjölskyldumála hjá félagsmálaráðuneytinu (nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti) og nú síðast skrifstofu barnamála í mennta- og barnamálaráðuneyti. Áður var Erna verkefnastjóri hjá félagsmálaráðuneytinu 2018-2019 þar sem hún leiddi vinnu um endurskoðun á málefnum barna, framkvæmdastjóri norrænnar stofnunar um fólksflutninga 2016-2018 og lögfræðingur og verkefnastjóri hjá innanríkisráðuneytinu (nú dómsmálaráðuneytinu) frá 2009-2016, m.a. sem sérfræðingur þverpólitískrar þingmannanefndar um endurskoðun útlendingalaga. Auk þessa hefur hún sinnt ýmsum nefndar- og stjórnarstörfum og m.a. setið í stjórn og verið stjórnarformaður UNICEF á Íslandi.

Nánar er fjallað um starfsemi og nýtt skipulag ráðuneytisins á vef mennta- og barnamálaráðuneytisins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum