Velferðarráðuneytið

Velferðarstyrkir til félagasamtaka vegna verkefna á sviði félags- og heilbrigðismála

Velferðarráðuneytið auglýsir árlega eftir umsóknum um velferðarstyrki til félagasamtaka vegna verkefna á sviði félags- og heilbrigðismála. Styrkirnir, sem áður voru veittir af Alþingi en fluttust árið 2012 til ráðuneyta, eru veittir til verkefna sem ekki hljóta styrki á fjárlögum eða falla undir sjóði ráðuneytisins eða samninga sem gerðir hafa verið við ráðuneytið.

Styrkirnir eru veittir í samræmi við fjárheimildir sem ákveðnar eru á fjárlögum hverju sinni og reglur velferðarráðuneytisins um úthlutanir.

Með forsetaúrskurði nr. 72/2013, um skiptingu starfa ráðherra, er málaflokkum velferðarráðuneytisins skipt á milli heilbrigðisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra. Hvor ráðherra um sig úthlutar styrkjum í samræmi við stjórnarmálefni, eins og þau eru ákvörðuð í forsetaúrskurðum nr. 71/2013 og 72/2013.

Veittir eru styrkir til afmarkaðra verkefna sem miða að því að veita einstaklingum eða hópum stuðning, fræðslu og ráðgjöf samkvæmt áherslum ráðherra hverju sinni. Styrkir eru ekki veittir til lengri tíma en eins árs í senn. Styrki má m.a. veita til verkefna sem felast í því að:

 1. Útbúa fræðsluefni og standa fyrir fræðslustarfsemi,
 2. vera málsvari og standa vörð um hagsmuni félagsmanna,
 3. bjóða félagsmönnum upp á stuðning og ráðgjöf.

Ekki eru veittir styrkir eingöngu til reksturs.

Styrkir á sviði félagsmála

Auk verkefnastyrkja eru veittir styrkir til félagasamtaka sem starfa á sviði endurhæfingar, málefna fatlaðs fólks, forvarna og fræðslu og fjölskyldu- og jafréttismála. Að þessu sinni er einkum lögð áhersla á fjölskyldur og þá sérstaklega börn, húsnæðismál og jafnréttismál.

Styrkir á sviði heilbrigðismála

Auk verkefnastyrkja eru veittir styrkir til félagasamtaka er starfa á sviði forvarna og fræðslu og endurhæfingar. Að þessu sinni verður lögð áhersla á verkefni sem tengjast geðheilsu ungs fólks með sérstakri áherslu á forvarnir gegn sjálfsvígum.

Mat á umsóknum

Starfshópur metur styrkhæfi umsókna og gildi þeirra fyrir verkefnasvið ráðuneytisins. Mat á umsóknum skal einkum byggjast á eftirtöldum sjónarmiðum eftir því sem við á, svo sem:

 1. gildi og mikilvægi verkefnis fyrir viðkomandi málaflokk,
 2. að umsækjanda muni takast að ná þeim markmiðum sem að er stefnt,
 3. að verkefnið sé byggt á faglegum grunni,
 4. fjárhagsgrundvelli verkefnis og/eða hvort umsækjandi hafi hlotið aðra styrki til sama verkefnis.

Minnt er á að hafi umsækjandi áður fengið styrk til verkefnis þarf að liggja fyrir greinargerð um framkvæmd fyrra verkefnis og ráðstöfun styrkfjárins til að ný umsókn komi til greina.

Umsókn sem berst eftir að umsóknarfresti er lokið verður ekki tekin til umfjöllunar.

- Umsóknarfrestur er til kl. 16:00 þriðjudaginn 10. nóvember 2015

 • Auglýsing um styrk til félagasamtaka vegna verkefna á sviði félagsmála 2015
 • Umsóknareyðublað

Vakin er sérstök athygli á að umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi á umsóknarvef Stjórnarráðsins (http://minarsidur.stjr.is)

Innskráning á mínar síður - þrjár leiðir:

 1. Auðkenning með rafrænum skilríkjum á vef Island.is
 2. Auðkenning með Íslykli á vef Island.is
 3. Notandi velur flipann Nýskráning og skráir sig á vefinn á kennitölu sinni, gefur upp fullt nafn, heimilisfang og netfang og ákveður síðan lykilorð.

Hafi notandi sótt um áður á Mínum síðum velur hann flipann Innskráning og skráir sig inn með einhverri ofangreindra aðferða.

Undir flipanum Eyðublöð eru eyðublöð flokkuð eftir ráðuneytum og stofnunum og þar undir velferðarráðuneyti er umsóknareyðublaðið Umsókn um velferðarstyrk 2016.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn