Hvað er framundan?
Góðir gestir
„Hvað er framundan“ er yfirskrift þessa Rannsóknarþings. Svarið við þeirri spurningu ræðst ekki síst af því hvernig okkur tekst til við meginverkefni líðandi stundar sem er hin efnahagslega og hve góðri samstöðu við náum um uppbyggingu og stefnumótun meðal þjóðarinnar, þ.e. framtíðarsýnina.
Þess vegna vil ég einkum staldra við tvennt: Verkefnið sem við blasir til skemmri tíma og þá stefnumótun sem fram fer og lýtur að uppbyggingu til lengri tíma.
Endurreisnarstarfið snertir í raun alla þætti samfélagsins. Veigamesti þátturinn er að tryggja eðlilegan rekstrargrundvöll fyrir atvinnulífið því sú verðmæta- og atvinnusköpun sem þar á sér stað er jafnframt undirstaðan að bættri afkomu heimilanna, tekjum ríkis og sveitarfélaga til samfélagslegra verkefna og gjaldeyrisöflunar til að ráða við skuldir þjóðarbúsins. Ef við fáum stundum að heyra að við hugsum bara um hagsmuni banka og fyrirtækja þá er skýringin sumsé þessi. Ef undirstöðurnar eru ekki í lagi þá byggjum við allt annað á sandi.
Nú í sumar erum við að ná stórum áföngum í þessu verkefni:
- Aðskilnaði gömlu og nýju bankanna með samningum við erlenda kröfuhafa og endurfjármögnun nýju bankanna,
- samkomulagi um ábyrgðir vegna innstæðutrygginga,
- stöðugleikasáttmála um frið, samráð og atvinnuátak á vinnumarkaði,
- áætlun um jafnvægi í ríkisfjármálum á aðeins fjórum árum,
- samningum við vinaþjóðir um gjaldeyrislán,
- stofnun eigna- og bankasýslufélaga, mótun eigendastefnu gagnvart bönkunum og meðferð þeirra á skuldavanda fyrirtækja og heimila
- áfangamati og útgreiðslu vegna annars áfanga efnahagsáætlunarinnar sem unnin var í samráði við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn
- og vonandi sem breiðust pólitísk samstaða um umsókn um aðild að ESB og upptöku evru sem myndi um leið svara þeirri brennandi spurningu hvert við stefnum í peningamálum til framtíðar.
Andspænis erfiðleikum fyrirtækja og heimila er eðlilegt að óþols gæti og ýmsir komi fram með ýmsar tillögur að því hvernig við getum stytt okkur leið. En sá veruleiki sem við okkur blasir býður ekki upp á neinar slíkar töfralausnir sem ekki koma okkur í koll að skömmum tíma liðnum.
Alvarleg gjaldeyriskreppa með krónuna studda bæði víðtækum höftum og háum vöxtum auk mikillar skuldsetningar ríkissjóðs vegna hallarekstrar og endurreisnar fjármálakerfisins takmarkar svigrúm okkar til hefðbundinna örvunaraðgerða í efnahagslífinu. Varla þarf að útskýra fyrir neinum hverjar afleiðingar frekara hruns gjaldmiðilsins gætu orðið.
En við vitum hvert markmiðið er og stefnum stystu færu leiðina út úr erfiðleikunum.
Markmiðið er að skapa forsendur fyrir hraðari lækkun stýrivaxta í takt við minnkandi verðbólgu, auknum stöðugleika í gengismálum og fyrstu skrefunum í afnámi gjaldeyrishaftanna. Til lengri tíma litið er markmiðið að endurreisa opið hagkerfi þar sem íslensk fyrirtæki geta átt hindrunarlaus viðskipti og njóta sambærilegra vaxtar- og samkeppnisskilyrða og best gerist. Við þurfum að vera virkir þátttakendur í samfélagi þjóðanna enda sjáum við til dæmis ávöxt Evrópusamstarfsins í því kröftuga þekkingar- og vísindasamstarfi sem við höfum nú aðgang að í gegnum EES samninginn.
En samhliða vinnu við efnahagsáætlunina setti ríkisstjórnin á sínum tíma fram metnaðarfulla áætlun um hvernig fjölga mætti störfum með markvissum hætti án verulegs kostnaðarauka. Þessi áætlun var unnin í iðnaðarráðuneytinu og miðaði að því að með ýmsum aðgerðum væri unnt að skapa allt að 6.000 störf. Nú í júní var kannað hvernig fyrstu skrefin í þessari vinnu hafi tekist. Miðað við þær upplýsingar sem aflað hefur verið er áætlað að nú þegar hafi skapast rúmlega þriðjungur þessara starfa eða um 2.000 til 2500 störf.
Engin leið er að gera grein fyrir öllum þessum nýju störfum, en meðal þeirra eru 130 störf hjá 55 nýsköpunarfyrirtækjum sem orðið hafa til í gegnum samstarfsverkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Vinnumálastofnunar, sem nefnist Starfsorka. Verkefnið byggir á því að Vinnumálastofnun greiði fyrirtæki upphæð sem samsvarar atvinnuleysisbótum og fyrirtækið skuldbindur sig á móti til að ráða atvinnuleitanda til starfa við þróun nýrrar viðskiptahugmyndar tímabundið, á launum skv. gildandi kjarasamningum.
Kröftug viðbrögð Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands við hruninu hafa vakið verðskuldaða athygli. Nýsköpunarmiðstöð hefur opnað þrjú ný frumkvöðlasetur í Reykjavík, en áður var eitt slíkt rekið í höfuðstöðvunum í Keldnaholti. Alls hafa 140 ný störf skapast í þessum frumkvöðlasetrum eftir kollsteypuna sl. haust og væntanlega verða flestir frumkvöðlarnir sem þar eru farsælir atvinnurekendur í framtíðinni.
Ráðist hefur verið í fjölbreytt þróunarverkefni í ferðaþjónustu: Þau eru á sviði nýsköpunar; menningartengdrar ferðaþjónustu; fræðslu og þróunar heimavinnslu matvæla; endurbótum á aðstöðu fyrir skemmtiferðaskip; og úrbóta á ferðamannastöðum. Ekki eru öll verkefnin komin af stað en reiknað er með að þau skapi tæplega 80 störf á þessu ári og fleiri síðar.
Málaflokkar iðnaðarráðuneytis og menntamálaráðuneytis eiga víða snertifleti. Auk vísinda, rannsókna og nýsköpunar eru það einkum hinar skapandi greinar sem njóta stuðnings beggja ráðuneyta. Því verkefni munum við halda áfram. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um hækkun endurgreiðslu kostnaðar við kvikmyndagerð úr 14 í 20 % hefur hleypt nýju blóði í kvikmyndaiðnaðinn og eru nú þegar 7 verkefni sem hlotið hafa vilyrði fyrir endurgreiðslu. Áætlað er að tæplega 500 manns þurfi vegna þeirra – til lengri og skemmri tíma.
Menntun, rannsóknir og nýsköpun eru þeir grunnþættir sem atvinnuþróunin byggir á og þeir þættir sem fyrst og fremst tengir okkur öll saman á þessu Rannsóknaþingi. Við þær aðstæður sem nú ríkja í samfélaginu er mikilvægt að verja þessa grunnþætti og byggja á þeim í nýrri sókn. Það er þó engan veginn auðvelt.
Eins og fram hefur komið þarf að bæta afkomu ríkissjóðs um 22 milljarða kr. á síðari hluta þessa árs og á næsta ári þarf að gera enn betur því þá þarf að bæta stöðuna um 63 milljarða kr. Niðurskurður ríkisútgjalda er sásaukafullur fyrir marga og margar og ólíkar skoðanir um það hvar helst eigi að beita hnífnum.
Ég hef lagt áherslu á við niðurskurð útgjalda málaflokka iðnaðarráðuneytisins - að ekki verði beitt flötum niðurskurði heldur verði til þess horft hvar störf og raunveruleg verðmætasköpun getur orðið til - og á hvern hátt sé unnt að efla samkeppnisstöðu atvinnulífsins. Auðvitað þýðir þetta að ef einum er hlíft verður niðurskurðurinn þeim mun meiri á einhverjum öðrum stað. Þetta eru erfiðar aðhaldsaðgerðir en í þessum breytingum felast líka tækifæri auk þess sem við í iðnaðarráðuneytinu skynjum að fjölmargir aðilar vilja nýta sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar. Við vísum stundum til iðnaðarráðuneytisins sem ráðuneytis tækifæranna.
Ég veit að málefni samkeppnissjóðanna eru okkur ofarlega í huga og margir hafa áhyggjur af því hvernig þeir fara út úr boðuðum samdrætti í útgjöldum ríkisins á þessu og næsta ári.
Hlutverk Tækniþróunarsjóðs er að styðja þróunarstarf og rannsóknir sem miða að nýsköpun í atvinnulífi. Sjóðurinn var stofnaður árið 2004 og hefur framlag til hans hækkað jafnt og þétt úr 200 milljónum upp í 690 milljónir á þessu ári. Nú er nýlokið fyrri úthlutun þessa árs og bárust samtals 180 umsóknir, sem er ríflega þreföldun á umsóknafjölda frá fyrra ári. Vegna mikils fjölda umsókna var aðeins unnt að veita 28% þeirra sem sóttu um verkefnastyrki, sem er lægsta hlutfall frá upphafi. Þessi niðurstaða er sérstaklega bagaleg þar sem ekki reyndist unnt að styrkja mjög margar álitlegar umsóknir, sem vafalítið hefðu getað leitt til áhugaverðra afurða og nýrra starfa.
Þegar við stöndum frammi fyrir svo veigamiklum samdrætti í ríkisútgjöldum er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að forgangsröðun verkefna sé byggð á skýrri framtíðarsýn og stefnumótun. Iðnaðarráðuneytið vill ekki aðeins verja fjárveitingar til Tækniþróunarsjóðs á þessu ári heldur er stefnt að því að á árinu 2010 verði fjárveitingar til hans auknar um 90 m.kr. og verði þá 780 m.kr. Á móti verða almennir rekstrarliðir ráðuneytisins og tengdra aðila lækkaðir. Þessi aukning í fjárveitingum til Tækniþróunarsjóðs er ætlað að verða innspýting í nýsköpunarstarfið og mun ég biðja stjórn sjóðsins að meta hvort ástæða sé til þess að leggja sérstaka áherslu á verkefni sem eru komin nokkuð á leið í þróuninni svo þau geti orðið atvinnu- og tekjusakapandi sem fyrst.
Önnur mikilvæg aðgerð sem er í vinnslu um þessar mundir eru tillögur um bætta samkeppnisstöðu nýsköpunarfyrirtækja. Þær eru hluti af tillögum iðnaðarráðuneytis frá því í mars sl. en þar var bent á að hagfelldari skattaleg skilyrði hérlendis gætu leitt til þess að störfum í rannsóknum og þróun íslenskra fyrirtækja gæti fjölgað talsvert. Nefnd hefur verið að störfum til að meta leiðirnar
Á tímum endurmats og endurreisnar er tækifæri til að byggja á nýjum gildum og kanna ný sóknarfæri. Í því ljósi hefur ríkisstjórnin hafið vinnu við mótun heildstæðrar atvinnustefnu fyrir Ísland sem byggi á jafnræði atvinnugreina, jafnrétti kynjanna, heilbrigðum viðskiptaháttum og grænni atvinnuuppbyggingu í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Jafnframt verði hugað að samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs í alþjóðlegum samanburði. Í þessari vinnu verður iðnaðarráðuneytið leiðandi og við leggjum áherslu á að nýsköpunin fái sinn sess.
Þá munum við efna til víðtæks samráðs um sóknaráætlanir fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og lífsgæða til framtíðar. Markmiðið er að kalla fram sameiginlega framtíðarsýn og að samþættar verði áætlanir í samgöngumálum, fjarskiptamálum, ferðamálum og byggðaáætlanir auk áætlana um eflingu sveitarstjórnarstigsins og ýmsa vaxtarsamninga og aðra opinbera stefnumótun og framkvæmdaáætlanir sem ætla má að komi til endurskoðunar í kjölfar efnahagshrunsins.
Ferðaþjónustan er okkur gífurlega verðmæt, ekki bara sem málsvari og áhrifavaldur í viðhorfum til Íslands erlendis, heldur sem útflutningsgrein. Ferðaþjónustan býr yfir öllum innviðum sem gera henni kleift að auka tekjur með tiltölulega lítilli fjárfestingu. Þess vegna bindum við nokkrar vonir við boðað Íslandsstofu auk áherslu á frekari uppbyggingu ferðamannastaða og heilsársferðaþjónustu. Rannsóknir, þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu og skapandi greinum eru okkur mjög mikilvægar. Við þurfum að bjóða upplifanir og verðmæti fyrir ferðamanninn og þar gæti ferðaþjónustu byggð á heilsueflingu, lífsstíl og menningu gegnt lykilhlutverki. Nú erum við að láta skoða hvað er í boði í heilsutengdri ferðaþjónustu og hvaða möguleikar eru til enn frekari uppbyggingar. Með samstarfi aðila mætti skapa ákveðið íslenskt vörumerki á þessu sviði sem myndi nýtast allri ferðaþjónustu.
Sumarið hefur byrjað mjög vel fyrir ferðaþjónustuna og sýnir hve mikill styrkur þessi grein getur verið okkur á erfiðum tímum.
Iðnaðarráðuneytið er einnig að hrinda af stað mótun heildstæðrar orkustefnu. Því verki viljum við áfangaskipta þannig að í fyrstu verði horft til þeirra tækifæra sem hér eru til að nýta okkar endurnýjanlegu auðlindir til atvinnu- og verðmætasköpunar á næstu misserum. Þrátt fyrir fjármálahrunið mikill áhugi erlendra aðila á orkufrekum iðnaði á Íslandi og aldrei hafa fleiri verkefni verið til umfjöllunar í iðnaðarráðuneytinu. Um mjög fjölbreytt verkefni er að ræða og augljóst að margt af því fellur ekki alveg að hefðbundnum hugmyndum okkar um „stóriðju“ og myndi bæði auka fjölbreytni í íslenskum útflutningi og flytja inn nýja þekkingu.
Stjórnvöld verða að stuðla að því að svona verkefni verði að veruleika á næstunni. Þegar við horfum til samkeppnislanda okkur sjáum við að jafnvel við bestu aðstæður á fjármálamörkuðum undanfarin ár beittu þau ýmsum ívilnunum til að laða til sín fjárfestingarverkefni. Að mínu mati er löngu tímabært að við setjum lagalegan ramma utan um þær ívilnanir sem við getum boðið í stað sérsniðinna fjárfestingarsamninga. Í kjölfar ítarlegrar skýrslu starfshóps um heildarávinning af beitingu ívilnana er stefnt að því að drög að rammalöggjöf verði tilbúin fyrir árslok. Slíkt verður stórt skref í að bæta samkeppnishæfni landsins um fjárfestingar og gerir allt kynningarstarf mikilvægra aðila á borð við Fjárfestingarstofu markvissara.
Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það hér hvílík lyftistöng það yrði íslensku atvinnu- og efnahagslífi ef okkur tekst að fá hingað erlendar nýfjárfestingar við núverandi aðstæður til viðbótar við þau verkefni sem þegar eru langt komin í vinnslu.
Til lengri tíma litið er markmiðið með orkustefnunni að efla rannsóknir, þróun og framleiðslu á innlendu vistvænu eldsneyti og fjölga fjölorkustöðvum. Nú í sumar er unnið að úttekt á leiðum til að stuðla að því að bílaflotinn skipti úr innfluttu kolefnaeldsneyti og yfir í innlenda orkugjafa. Hugmyndin er að ýta undir þróunin með markvissum aðgerðum en reyna ekki að miðstýra því hvaða lausn verður ofan á heldur láta innlenda og erlenda tækniþróun og markaðinn sjálfan ráða því.
Stefnt verði að því að Ísland geti á komandi árum orðið leiðandi í tilraunum og framleiðslu á vistvænum orkugjöfum, m.a. með stuðningi við rannsóknir, þróun og uppbyggingu innviða.
Stuðlað verði að betri orkunýtingu, svo sem með uppbyggingu iðngarða og iðjuvera, garðyrkjustöðva, endurvinnslu og annarrar starfsemi sem nýtir gufuafl sjálfbærra jarðvarmavirkjana.
Við höfum sett metnaðarfull markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og það mun krefjast nýsköpunar að ná þeim.
Rannsóknir og nýsköpun er lykilatriði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem vörður til framtíðar. Ef við ætlum að komast hratt yfir þá efnahagserfiðleika sem nú steðja að skiptir mestu að hafa skarpa framtíðars