Hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands 40 ára
Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra
Góðir gestir.
Til hamingju með daginn. Það er virkilega ánægjulegt að fá tækifæri til að fagna með ykkur því að fjörutíu ár eru liðin frá því að nám í hjúkrunarfræði hófst fyrst við Háskóla Íslands. Við þetta tilefni er við hæfi að rifja upp staðreyndir um merkilega stétt sem staðið hefur vörð um heilbrigði landsmanna í gegnum langa tíð og unnið margvísleg þrekvirki án þess að uppskera endilega alltaf verðskuldaðar þakkir eða athygli.
Allt frá stofnun Félags íslenskra hjúkrunarkvenna árið 1919 var barátta fyrir menntunarmálum stéttarinnar á oddinum. Stofnun Hjúkrunarskólans var auðvitað mikill áfangi í baráttu hjúkrunarfræðinga fyrir aukinni menntun og betri menntunarskilyrðum, en tímamótin áttu eftir að verða mörg til viðbótar og menntuninni gert æ hærra undir höfði.
Nám í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands hófst árið 1973 og við þann áfanga miðast afmælishátíðin sem við fögnum í dag. Til að gera langa sögu stutta má geta þess að frá árinu 1986 hefur nám í hjúkrunarfræði á Íslandi einvörðungu verið kennt á háskólastigi. Grunnámið er nú fjögur ár en einnig er boðið upp á margvíslegt framhaldsnám, meðal annars meistara- og doktorsnám, sem æ fleiri nýta sér og er afar mikils virði þar sem það eflir jafnt fagið og stéttina.
Árið 2010 kom út bók Margrétar Guðmundsdóttur; Saga hjúkrunar á Íslandi á 20. öld sem gerir vel grein fyrir merkilegri framvindu í lífi og störfum hjúkrunarfræðinga, starfsaðstæðum þeirra og viðhorfum til stéttarinnar. Þetta er að mörgu leyti kvennasaga sem kemur ekki á óvart. Þar er rakið hvernig ljósmæðranám og hjúkrun voru meðal fyrstu námsgreina sem konur áttu kost á að stunda og þóttu við þeirra hæfi. Sú skoðun var ríkjandi að konur ættu að fórna sér í þágu sjúkra og aldraðra og fyrir það áttu þær að fá lágmarkslaun. Höfundur bókarinnar bendir jafnframt á að almennt hafi verið gert ráð fyrir að ljósmæður væru giftar konur sem þyrftu því nánast engin laun. Hjúkrunarkonur áttu hins vegar að vera ógiftar og þurftu því fæði, húsnæði, vinnuklæðnað og smáræði fyrir fötum og öðrum nauðsynjum.
Þegar allt kemur til alls hafa konur verið í forystunni fyrir stórum verkefnum á sviði heilbrigðismála hér á landi og mörg dæmin sem benda má á því til sönnunar. Þær reistu Kópavogshælið, Kristneshælið og Hvítabandið og hafa í gegnum árin lagt gríðarlegt fé til byggingar Landspítalans. Síðast en ekki síst verður að geta um Hjúkrunarfélagið Líkn sem stofnað var í Reykjavík árið 1915 og hafði frumkvæði að því að veita og skipuleggja hjúkrun í heimahúsum og var í raun grundvöllurinn að víðtæku heilsuverndarstarfi. Félagið var formlega lagt niður árið 1956 þegar Heilsuverndarráð Reykjavíkur tók til starfa.
Góðir gestir.
Við Háskóla Íslands hefur verið byggt upp vandað nám í hjúkrunarfræði sem við getum verið stolt af. Það skiptir líka miklu máli að þessi stóra burðarstétt heilbrigðiskerfisins sé vel menntuð í samræmi við bestu þekkingu á hverjum tíma.
Ég hef átt góðar viðræður við fulltrúa Hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þar sem farið hefur verið yfir ýmis tækifæri til að efla þjónustu heilsugæslunnar og því tengt hefur verið rætt um eflingu náms og rannsókna við Háskóla Íslands. Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands hefur kynnt í velferðarráðuneytinu athyglisverðar tillögur um eflingu menntunar og rannsókna á ýmsum sviðum hjúkrunar og viðræður eru að hefjast milli velferðarráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins um samstarf varðandi menntun og rannsóknir í heilbrigðisvísindum. Ég er fullviss um að með góðri samvinnu yfirvalda heilbrigðismála, menntamála, heilbrigðisþjónustunnar og háskóla getum við náð miklum árangri og stuðlað að enn öflugri menntun sem nýtist á þeim sviðum þar sem aukinnar sérþekkingar er helst þörf til að bæta þjónustu, svo sem í heilsugæsluhjúkrun, heimahjúkrun, við hjúkrun aldraðra og langveikra og á sviði ljósmæðraþjónustu.
Heilbrigðisvísindi eru flókin og fræðigrein í stöðugum vexti. Framfarir eru örar og því verulega krefjandi fyrir fagfólkið að halda í við breytingar og bæta við sig nýrri þekkingu. Þá varðar miklu að hafa sterkan grunn að byggja á og sá grunnur er einmitt lagður hér við Hjúkrunarfræðideildina.
Enn og aftur, til hamingju með daginn.

