Hoppa yfir valmynd
25.10.2013 Heilbrigðisráðuneytið

Gagnkvæm vinátta SÍBS og þjóðarinnar

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Grein Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Birt í afmælisriti SÍBS (SÍBS 75 ára 1938-2013), 29. árgangur: 3. tölublað, okt. 2013

Kæru lesendur.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherraÞað gladdi mig virkilega þegar ég var beðinn um að skrifa nokkur orð í afmælisrit SÍBS þegar þetta merka félag fagnar tímamótum þar sem 75 ár eru liðin frá stofnun þess.

Saga SÍBS er einstaklega merkileg og félagið hefur frá upphafi verið mikill áhrifavaldur í lífi fjölmargra landsmanna. Upphafið að stofnun SÍBS þekkja flestir enda ber félagið enn í nafni sínu heiti þess skæða sjúkdóms sem Samband íslenskra berklasjúklinga sagði stríð á hendur á sínum tíma. Forvarnir og endurhæfing var frá upphafi meginmarkmið félagsins. Þörfin var brýn enda féllu þær hugsjónir sem stofnendur félagsins settu á oddinn í frjóan jarðveg. Það sýndi sig í góðum viðtökum við fjársöfnuninni haustið 1939 sem gerði kleift að byggja Reykjalund og hefja þá starfsemi sem átti fljótt eftir að verða landsþekkt og síðar órjúfanlegur þáttur í íslenskri heilbrigðisþjónustu á sviði endurhæfingar.

Það er margt hægt að læra af sögu SÍBS og starfsemi félagsins frá upphafi. Í þeirri sögu sést hve miklu einstaklingar geta áorkað ef áhuginn er brennandi og málefnin mikilvæg. Þessi saga sýnir hvernig hægt er að virkja almenning til góðra verka og hún segir mikið um samtakamáttinn og kraftinn sem býr í samfélaginu þegar mikið er í húfi og eining um málstaðinn.

Með tilkomu berklalyfjanna 1947 og næstu árin fór berklasjúklingum fækkandi og áherslur í starfi SÍBS tóku að breytast í samræmi við það með aukinni áherslu á stuðning og endurhæfingu fyrir fleiri sjúklingahópa. Innan vébanda félagsins eru nú sjúklingar með hjarta- og lungnasjúkdóma og skyld vandamál. Starfsemi SÍBS er sem fyrr geysilega mikilvæg, jafnt á sviði endurhæfingar en ekki síður fyrir þrotlaust forvarnar- og fræðslustarf félagsins til að vinna gegn lífsstílstengdum sjúkdómum, hvetja fólk til heilbrigðra lífshátta og stuðla að bættri lýðheilsu landsmanna.

Traustur vinur

Happdrætti SÍBS þarf ekki að kynna og allir þekkja reglubundnar auglýsingaherferðir þess undir kjörorðinu Ert þú vinur? Það ríkir gott og gagnkvæmt vinasamband milli SÍBS og landsmanna, enda eru þeir ófáir sem upplifað hafa á eigin skinni hvers virði það er að eiga vin í raun þegar fólk verður fyrir áfalli vegna sjúkdóma og afleiðinga þeirra. Sá er jafnframt vinur sem til vamms segir og þannig má svo sannarlega líta á forvarnarstarf SÍBS þar sem byggt er á staðreyndum um gildi hreyfingar, heilnæms mataræðis og almennt heilsusamlegra lifnaðarhátta. Það liggur fyrir að smitsjúkdómar eru ekki lengur helsta heilsufarsógnin sem að okkur steðjar. Þyngsta sjúkdómabyrðin í vestrænum samfélögum og stærstur hluti ótímabærra dauðsfalla eru vegna hjarta- og æðasjúkdóma, krabbameina, lungnateppu og sykursýki þar sem stórir áhættuþættir felast í offitu, hreyfingarleysi og óhollu mataræði, tóbaksneyslu og ofneyslu áfengis.

Forvarnir og lýðheilsa

Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt berum við hvert og eitt stærsta ábyrgð á eigin heilbrigði og því mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því hvað við getum gert til að bæta lífslíkur okkar og auka lífsgæði. Sannarlega þurfum við að hafa gott og öflugt heilbrigðiskerfi sem er fært um að greina og meðhöndla sjúkdóma og veita sjúklingum bestu mögulega þjónustu þegar á reynir. Aftur á móti eigum við líka að róa öllum árum að því að draga úr þörfinni fyrir þjónustu heilbrigðiskerfisins með áherslu á forvarnir og bætta lýðheilsu. Ávinningurinn er augljós, jafnt fyrir einstaklinga og samfélagið í heild og möguleikarnir eru fyrir hendi.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að bætt lýðheilsa og forvarnarstarf verði eitt af forgangsverkefnum hennar til að auka lífsgæði landsmanna og draga úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið allt til framtíðar. Þar kemur líka fram vilji stjórnvalda til að viðurkenna í auknum mæli og í verki mikilvægi frjálsra félagasamtaka, meðal annars forvarnar- og hjálparsamtaka sem efla og bæta íslenskt samfélag. Ég er einlægur talsmaður fyrir þessum áherslum og vil leggja mitt af mörkum til að gera þessi orð að veruleika.

Hreyfing í forvarnar- og meðferðarskyni

Í velferðarráðuneytinu er unnið að stefnumörkun á sviði lýðheilsu og forvarna til að stuðla að auknum lífsgæðum landsmanna. Víðtæk innleiðing hreyfiseðla í heilbrigðiskerfinu hefst eftir áramót og verður þeim beitt í forvarnar- og meðferðarskyni. Sérstök áhersla verður lögð á aðgerðir til að sporna við offitu og sjúkdómum henni tengdri, áfengis- og vímuvarnir eru ofarlega á forgangslistanum og unnið verður að því að sporna gegn of- og misnotkun ávanabindandi lyfja og annarra lyfja sem valda fíkn.

Við eigum samleið

Saga SÍBS er orðin löng en engu að síður er félagið ávallt nýtt þar sem það breytir áherslum sínum í takt við nýja tíma og tekst á við þau málefni sem brýnast er að fást við í ljósi aðstæðna. Landsmenn eiga öflugan vin í SÍBS sem er málsvari sjúklingahópa sem eiga mikið undir öflugri endurhæfingu og stuðningi til betra lífs eftir erfið áföll. Heilbrigðisyfirvöld í landinu eiga sömuleiðis sterka stoð í starfi SÍBS sem ber að meta að verðleikum og styðja við eftir því sem kostur er. Við sem viljum efla og bæta lýðheilsu í landinu eigum samleið og getum áorkað miklu með samvinnu og góðum vilja.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta