Hoppa yfir valmynd
31.10.2013 Heilbrigðisráðuneytið

Málþing heilbrigðis- og velferðarnefndar BSRB um heilbrigðisþjónustu, 31. október 2013

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Góðir gestir.

Ég þakka heilbrigðis- og velferðarnefnd fyrir að efna til málþings um mikilvægi öflugrar heilbrigðisþjónustu og mannauðinn sem þar starfar. Um mikilvægi málsins getum við öll verið sammála. Öflug heilbrigðisþjónusta er eitt af grundvallarréttindum okkar allra – óháð búsetu eða efnahag – og já, hún byggist að verulegu leyti á mannauðinum sem við hana starfar.

Heilbrigðismál hafa að undanförnu trúlega verið meira til umfjöllunar en nokkru sinni í opinberri umræðu og það hefur verið mikill stígandi í umræðunum síðustu misserin. En hvers vegna skyldi það vera? Það kann að hljóma þverstæðukennt en ég held að svarið liggi í því að á Íslandi ríkir almenn sátt og samhljómur í afstöðu manna til heilbrigðiskerfisins, hvernig það eigi að vera gott og hvernig það eigi að þjóna okkur. Allir eiga að njóta sem bestrar heilbrigðisþjónustu.

Í þrengingum liðinna ára, þar sem óhjákvæmilegt hefur verið að draga úr útgjöldum á öllum sviðum samfélagsins, sjáum við nú heilbrigðiskerfi sem virðist komið að þolmörkum ef ekkert er að gert. Af þessu höfum við áhyggjur öll sem eitt, en erum jafnframt, virðist mér, á einu máli um að heilbrigðiskerfið eigi að vera öllum aðgengilegt og að allir geti notið öruggrar heilbrigðisþjónustu eftir þörfum. Umræðan snýst því ekki um að hverfa frá þeirri grundvallarhugsun sem liggur að baki íslenska heilbrigðiskerfisins heldur miklu fremur um að viðurkenna vandann og finna bestu leiðirnar til úrbóta.

Ég ræddi þessi mál á aðalfundi Læknafélags Íslands fyrir skömmu og eins og ég sagði þar geri ég síst manna lítið úr þeim vanda sem við er að fást. Aftur á móti óska ég eftir málefnalegri umfjöllun og legg áherslu á að við tökumst á við þessi viðfangsefni af skynsemi með lausnir að leiðarljósi. Stóryrði og upphrópanir sem því miður eru allt of algeng innlegg í umræðuna skila engu en geta í versta falli valdið tjóni sem erfitt er að bæta. Ef heilbrigðiskerfið er sífellt talað niður með því að einblína eingöngu á það sem miður fer en látið kyrrt liggja það sem vel er gert og vel gengur þá segir sig sjálft að við steytum á skeri. Svona umræða grefur undan þessum starfsvettvangi, hann verður fráhrindandi og ekki fýsilegt fyrir fólk að ráða sig þar til starfa.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að íslenskt heilbrigðiskerfi verði að vera samkeppnisfært við nágrannalönd um tækjakost, aðbúnað sjúklinga og aðstæður starfsmanna. Landsmenn eigi allir að njóta aðgengis að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og enn fremur er áhersla lögð á að efla þurfi heilsugæsluna og tryggja stöðu hennar sem fyrsta viðkomustað sjúklinga. Þetta eru áherslur stjórnvalda og eftir þeim er unnið.

Við framlagningu fjárlagafrumvarpsins upphófst mikil og hörð gagnrýni á það að ekkert væri áætlað í aukin framlög til tækjakaupa á Landspítala. Þar blöskraði mér umræðan, því þeir sáu þá sem vildu sjá að í frumvarpinu var sérstaklega tekið fram að gerð yrði áætlun um tækjakaup á Landspítala og sjúkrahúsinu á Akureyri til ársins 2017. Það sem meira var, það var tekið fram að þessi áætlun yrði unnin í samráði við starfsfólk sjúkrahúsanna og kynnt ríkisstjórn og fjárlaganefnd fyrir aðra umræðu fjárlagafrumvarpsins.

Annað varðandi fjárlagafrumvarpið sem ég vil nefna eru áform sem þar koma fram um gjöld sjúklinga fyrir innlögn á sjúkrahús eða heilbrigðisstofnun.  Þetta vakti sterk viðbrögð og hefur mikið verið gagnrýnt. Nú get ég sagt sem er að þessi gjöld eru mér ekkert hjartans mál í sjálfu sér. Það sem ég og fleiri höfum aftur á  móti bent á er það hróplega ósamræmi sem er í gjaldtöku fyrir heilbrigðis­þjónustu. Æ stærri hluti heilbrigðisþjónustu er veittur á göngudeildum og þá tekur fólk þátt í greiðslu kostnaðar eftir ákveðnum reglum. Komi til innlagnar greiðir fólk hins vegar ekkert, hvorki fyrir lyf, rannsóknir, læknisþjónustu né annað. Það er þessi fráleita mismunun sem ég vil breyta. Ekki með það að markmiði að heimta meiri greiðsluþátttöku fólks fyrir heilbrigðisþjónustu heldur að jafna kostnað sjúklinga og sjá til þess að sett verið þak á heildarútgjöld fólks sem vantar alveg í dag.

Ég vil réttlátara kerfi í þágu sjúklinga og því skipaði ég nefnd sem vinnur nú að gerð tillagna um að fella læknis-, lyfja-, rannsóknar-, sjúkraþjálfunar- og annan heilbrigðiskostnað undir eitt niðurgreiðslu- og afsláttar- fyrirkomulag þannig að þátttaka borgarans í heilbrigðiskostnaði verði takmörkuð hvort sem kostnaður fellur til utan eða innan heilbrigðisstofnana og hver sem þörf hans er fyrir heilbrigðisþjónustu.

Góðir gestir.

Við vitum að heilbrigðiskerfið er í erfiðri stöðu. Við vitum að ríkissjóði er þröngur stakkur skorinn. Við vitum að það er ekki hægt að reka ríkissjóð með halla ár eftir ár og taka lán fyrir auknum útgjöldum þegar við eigum ekki fyrir þeim. Slíkt eykur aðeins á vandann og vaxtagjöldin hækka þá ár frá ári. Við vitum að vaxtagjöld einfaldlega draga úr möguleikum okkar til að rétta úr kútnum í framtíðinni og er stærsta ógn dagsins við öflugt heilbrigðiskerfi.

Í ljósi þessa alls vitum við líka að við verðum að bregðast við og grípa til aðgerða sem bæta stöðu heilbrigðiskerfisins. Þá er jafnframt mikilvægt að við stöndum saman að slíkum aðgerðum og reynum að hrinda þeim í framkvæmd með samvinnu. Við náum engum árangri ef allar hugmyndir og tillögur til breytinga og úrbóta eru kæfðar í fæðingu. Það gengur ekki að mála skrattann á veggin og æpa úlfur, úlfur, í hvert sinn sem einhverjar breytingar ber á góma eins og mér finnst því miður vera allt of algengt.

Síðsumars kom út skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um efnahagsmál á Íslandi þar sem því var haldið fram að ríkið gæti lækkað kostnað vegna heilbrigðiskerfisins um 42% án þess að draga úr afköstum þjónustunnar ef miðað væri við skilvirkustu heilbrigðiskerfi annarra landa. Ég get vel skilið að fólki bregði við svona yfirlýsingar. Þessu svaraði ég strax og vísaði fullyrðingunum á bug, því nálgun AGS samræmist ekki hugmyndum okkar Íslendinga um heilbrigðiskerfið og það vil ég að komi skýrt fram hér. Okkar heilbrigðiskerfi var borið saman við heilbrigðiskerfi Japana en Japan er einfaldlega ekki það ríki sem við ætlum eða viljum að bera okkur saman við í þessum efnum. Við horfum jafnan til hinna Norðurlandaþjóðanna og í þeim samanburði er heilbrigðiskostnaður á Íslandi næstlægstur.

Við eigum orðið góðar og vel mótaðar tillögur um úrbætur í heilbrigðiskerfinu og nú þurfum við að hrinda þeim í framkvæmd. Markmiðið er ekki að umbylta kerfinu heldur að bæta skipulag og auka skilvirkni. Eitt þessara verkefna er sameining heilbrigðisstofnana sem ég er fullviss um að muni styrkja og bæta heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og auka öryggi hennar. Markmið sameiningar er að auka möguleika á samstarfi og samnýtingu, kennslu heilbrigðisstétta og öflugri og stöðugri mönnun. Sameining minnkar álag vegna vaktabindingar og einangrunar, rekstrar- og stjórnunareiningar verða sterkari, innkaup verða hagkvæmari og færi skapast fyrir öfluga starfsmannaþjónustu og aukna möguleika á menntun heilbrigðisstarfsfólks sem síðar gæti orðið lykillinn að nauðsynlegri nýliðun í dreifbýlinu.

Úrbætur eru einnig nauðsynlegar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þetta er stór og mikil stjórnsýslueining með mörgum starfsstöðvum og sumum frekar litlum. Það hefur vakið athygli hve mikill munur er á afköstum hjá þessum stöðvum. Hann verður ekki skýrður með ólíkri íbúasamsetningu á upptökusvæðum þeirra. Einnig er athyglisvert hve mikill munur er á kostnaði að baki hverrar heimsóknar sjúklings. Vandinn virðist liggja í skipulaginu en ekki ytri þáttum og því vil ég endurskoða innviðina og einfalda stjórnkerfið. Fjölbreyttari rekstrarform koma einnig til greina þar sem við sjáum að rekstur einkarekinna heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið góða raun, sömuleiðis starfsemi sjálfstætt starfandi heimilislækna og eins virðist vel hafa tekist til með rekstur þessarar þjónustu í höndum sveitarfélaga líkt og á Akureyri og á Hornafirði.

Í flestum löndum sem við berum okkur saman við tíðkast einhvers konar þjónustustýring innan heilabrigðiskerfisins og þykir bæði nauðsynlegt og sjálfsagt stjórntæki. Hér á landi hefur árum saman verið rætt um þjónustustýringu en lengra hefur málið ekki komist. Ég tel þetta nú fullrætt og rökin með þjónustustýringu yfirgnæfandi. Því mun ég samhliða endurskoðun á skipulagi heilsugæslunnar hefja vinnu sem miðar að því að stýra flæði sjúklinga milli heilsugæslu, sérfræðinga og sjúkrahúsa.

Ágætu þinggestir.

Ég ítreka þakkir mínar til heilbrigðis- og velferðarnefndar BSRB fyrir að efna til þessa málþings um heilbrigðismál. Þetta er viðamikið málefni og einstaklega mikilvægt. Umræðan er nauðsynleg og aðgerðir til úrbóta eru brýnar.

Ég hef ekki mikið rætt um þá hlið málsins sem snýr að mannauðinum, um starfsfólkið sem starfar í heilbrigðiskerfinu og er í raun drifkrafturinn í gangverkinu. Að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því að mannauðurinn er grundvöllurinn sem allt byggist á og því mikið í húfi að starfsfólkið starfi við góðar aðstæður og búi við mannsæmandi kjör. Þær breytingar og úrbætur á skipulagi heilbrigðiskerfisins sem ég hef rætt um hér verða liður í því að styrkja stöðu okkar og ná vindi í seglin. Þess vegna er mikilvægt að starfsfólk heilbrigðiskerfisins taki virkan þátt í þeim verkefnum sem framundan eru og óttist ekki breytingarnar, heldur vinni með þeim. Þannig munum við ná árangri.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta