Hoppa yfir valmynd
27.11.2013 Heilbrigðisráðuneytið

FRÆ - Forvarnir og fræðsla í 20 ár

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra
Afmælishátíð Félags áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu

Góðir gestir.

Það liggur beinast við þegar FRÆ; Félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, fagnar tímamótum eftir tuttugu ára ötult starf, að óska landsmönnum öllum til hamingju með áfangann. Það er ómetanlegt þegar einstaklingar og félagasamtök taka höndum saman um mikilvæg málefni, drifin áfram af eldmóði og sterkum vilja til þess að vinna samfélaginu gagn.

Forvarnarstarf krefst mikillar þrautseigju. Þeir sem að því koma þurfa að hafa sterka trú á verkefninu og sýna mikla þolinmæði, því uppskeran af erfiði hvers dags kemur jafnan ekki í ljós fyrr en löngu síðar. Við sjáum hins vegar æ betur að forvarnir skila árangri. Það sýna markvissar mælingar sem gerðar eru reglulega á vímuefnaneyslu ungmenna.

Rannsóknir og greining hafa um árabil sérhæft sig í rannsóknum á ungu fólki og býr yfir gagnagrunni um hagi og líðan ungs fólks allt aftur til ársins 1992. Embætti landlæknis er miðstöð vímuvarna í landinu og veitir faglega ráðgjöf um stefnumótun, rannsóknir og önnur málefni er varða áfengis- og vímuvarnir. Einnig stuðlar embættið að samvinnu og samræmingu starfa á meðal þeirra sem vinna að vímuvörnum. Á vegum embættisins er unnið fræðsluefni um áfengi og önnur vímuefni fyrir fagfólk og almenning og gerðar kannanir á áfengis- og vímuefnaneyslu landsmanna. Einnig er safnað öðrum tölfræðilegum upplýsingum sem gefa vísbendingar um stöðu þeirra mála í landinu og skaðvænlegar afleiðingar þeirrar neyslu.

Það skiptir geysilega miklu máli að hafa traust gögn að byggja á þegar mat er lagt á stöðu og þróun vímuefnaneyslu og á hvaða leið við erum í þessum efnum. Fyrir þá sem ötulast starfa á þessum vettvangi skiptir öllu máli að geta metið árangurinn. Þetta er ekki síður mikilvægt við stefnumótun á þessu sviði og þegar kemur að því að ákveða fjárveitingar til forvarna.

Það er alveg ljóst að forsenda fyrir góðum árangri forvarnarstarfs er breið samstaða með víðtækri þátttöku frjálsra félagasamtaka og aðkomu og tilstyrk stjórnvalda. Þegar börn og ungt fólk á í hlut skipta fyrirmyndirnar miklu máli og við skulum hafa það hugfast að ungt fólk endurspeglar almennar venjur og viðhorf samfélagsins. Ábyrgð fullorðinna er því augljós og mikil.

Góðir gestir.

Forvarnarstarfi lýkur aldrei heldur er það viðvarandi verkefni þar sem aldrei má slaka á eða sofna á verðinum. Mælingar sýna að forvarnarstarf á sviði áfengis- og vímuefnavarna í efstu bekkjum grunnaskóla hér á landi hefur skilað miklum árangri þannig að eftir því er tekið og er vímuefnaneysla meðal þessara ungmenna með því minnsta sem þekkist í hinum vestræna heimi. Það liggur jafnframt fyrir að ávinningurinn felst fyrst og fremst í að seinka því að börn neyti áfengis- og vímuefna. Í framhaldsskólum virðist nýr veruleiki blasa við og viðhorfin breytast, jafnt hjá ungmennunum sjálfum og ekki síður hjá foreldrunum sem virðast líta áfengisneyslu barna sinna öðrum augum þegar framhaldsskólaaldri er náð og af minni alvöru. Ég held að allir séu sammála um mikilvægi þess að beina þurfi forvarnarstarfi í auknum mæli að ungmennum á framhaldsskólaaldri og undir það tek ég heilshugar. Það er mikið í húfi og allir sem láta sig þessi mál varða geta litið svo á að hvert örstutt spor sem leiðir okkur í rétta átt sé líklegt til að bæta líf fólks, forða óhamingju og harmleikjum og bjarga mannslífum.

Ég færi aðstandendum FRÆ mínar bestu þakkir fyrir mikilvægt og gott starf í gegnum tíðina. Megi gæfan fylgja félaginu og störfum þess til allrar framtíðar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta