Hoppa yfir valmynd
28.11.2013 Heilbrigðisráðuneytið

Fundur Tannlæknafélags Íslands 28. nóvember 2013

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Ágætu fundarmenn.

Þakka ykkur fyrir að bjóða mér á fund ykkar. Það er alltaf gott að hittast, taka stöðuna og ræða um framtíðina. Eflaust er margt sem á ykkur brennur varðandi fagleg málefni og tannheilsu þjóðarinnar. Þið eruð fagfólk sem berið án efa metnað í brjósti, ekki aðeins hver fyrir sig og sitt leyti, heldur einnig faglegan metnað til þess að gera betur, vinna að bættri tannheilsu landsmanna og huga að lausnum í þeim málum sem betur þurfa að fara.

Það voru sannarlega tímamót þegar samið var um tannlækningar barna í vor og margt í þeim samningi sýnist mér gott og skynsamlegt. Ekki síst er ég ánægður með það fyrirkomulag heimilistannlækna sem verið er að byggja upp - í þeirri von að betur verði  haldið utan um málefni hvers og eins barns og að færri börn verði vanrækt á þessu sviði eins og hefur verið allt of algengt, því miður.

Eins og mál standa nú hafa tæplega 27.000 börn verið skráð með heimilistannlækni. Sjúkratryggingar Íslands annast útgreiðslur vegna tannlækninga á grundvelli samningsins frá því í vor. Að jafnaði nema greiðslurnar á bilinu 60 – 80 milljónum króna á mánuði og nema samningsbundnar greiðslur alls um 320 milljónum króna það sem liðið er af samningstímanum.

Tæknileg vinna sem gerir möguleg rafræn skil á reikningum er langt komin og tæknimenn Sjúkratrygginga Íslands reikna með að þeirra megin verði það mál tilbúið um áramótin og vonandi gengur þá eftir að rafræn skil verði möguleg, öllum til hagræðis og þæginda.

Ég þarf auðvitað ekki að rekja í smáatriðum samninginn um tannlækningar barna en eins og þið vitið er hann áfangaskiptur, tilteknir árgangar bætast við eftir því sem fram líður þar til öll börn frá 0 – 18 ára verða komin inn árið 2018. Fram að þeim tíma fá þau börn sem ekki falla undir samninginn greiðsluþátttöku í samræmi við endurgreiðslugjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands.

Ég nefni líka börn með bráðavanda sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður. Þau eiga rétt á fullri greiðsluþátttöku sjúkratrygginga og samkvæmt upplýsingum frá SÍ hafa 16 umsóknir sem uppfylla þessi skilyrði verið afgreiddar og samþykktar hingað til frá því að samningurinn var gerður. Engri umsókn hefur verið synjað að fullu en í einhverjum tilvikum hefur þátttöku í kostnaði verði hafnað vegna meðferðar sem telst ekki bráðavandi. Einhverjar brotalamir virðast fyrir hendi þarna sem nauðsynlegt er að skoða nánar.

Á liðnum árum og raunar áratugum hefur tannheilsa barna jafnan verið í forgrunni þegar rætt er um tannvernd og tannlækningar. Það er að flestu leyti mjög skiljanlegt, því það þarf vel að vanda sem lengi á að standa og segja má að í barnæsku sé lagður grunnurinn að því sem koma skal í þessum efnum. Niðurstöður Munnís-rannsóknarinnar frá 2005 sýndu svart á hvítu alvarlega stöðu hér á landi þar sem norrænn samanburður leiddi í ljós verra ástand hér en hjá hinum Norðurlandaþjóðunum og lét nærri að 12 ára íslensk börn hefðu að meðaltali um tvöfalt fleiri tannskemmdir en samanburðarhópar í Svíþjóð. Vonandi verður samningurinn um tannlækningar barna til þess að bæta þetta ástand þegar fram líða stundir.

Mér hefur reyndar alltaf þótt umræðan um tannheilsu hér á landi og áherslur í málaflokknum nokkuð einsleit. Áherslan hefur fyrst og fremst verið á tannlækningar – eða öllu heldur skort á tannlækningum – en minna hefur verið talað um tannvernd og gildi forvarna og fræðslu. Vissulega er ýmislegt gert í þeim efnum, en mig grunar samt að þar sé hægt að gera miklu betur.

Ég þykist vita að þið hafið mörg hver áhyggjur af stöðu tannlækninga hjá öryrkjum og öldruðum, þar sem við erum í nákvæmlega sömu stöðu og átti lengi við um tannlækningar barna. Þá á ég við að viðmiðunargjaldskráin sem endurgreiðslur sjúkratrygginga miðast við hefur ekki verið uppfærð mjög lengi. Kostnaðurinn sem lendir á einstaklingum er því í engu samræmi við þær hlutfallstölur endurgreiðslu sem gert var ráð fyrir í upphafi. Þetta er að sjálfsögðu mál sem brennur á mörgum og ég viðurkenni alveg að þetta er áhyggjuefni. Því miður er ekki svigrúm núna til að hækka gjaldskrána og við þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti. Ég velti því hins vegar fyrir mér – og bið ykkur um að gera það líka, hvort við getum ekki með einhverju móti sinnt fyrirbyggjandi starfi í auknum mæli gagnvart þessum hópum, til dæmis inni á öldrunarstofnunum og sambýlum og í samstarfi við þá sem koma að umönnun fatlaðs fólks.

 

 

Auðvitað er fagfólk best fallið til þess að leggja fram hugmyndir að nýjum leiðum og lausnum á sínu sviði. Þess vegna óska ég eftir því að þið, ágætu tannlæknar, verðið mér innan handar í þeim stóru verkefnum sem framundan eru. Ég óska eftir því að þið leggist með mér á árarnar og takið virkan þátt í umræðu og hugarflugi um leiðir og lausnir til að bæta varanlega tannheilsu Íslendinga á öllum aldri og til framtíðar. Og þá er ég ekki aðeins að tala um tannlækningar, heldur ekki síður hvernig við getum stuðlað að því að einstaklingarnir sjálfir verði sem færastir um að gera sitt til að viðhalda góðri tannheilsu frá vöggu til grafar.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta