Afmælishátíð Sjúkrahússins á Akureyri
Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra
Góðir gestir.
Innilega til hamingju með daginn og tímamótin, þegar haldið er upp á það að 60 ár eru liðin frá því að starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri fluttist í nýtt húsnæði á núverandi stað, þótt húsakynnin og starfsemin hafi auðvitað tekið miklum breytingum frá þeim tíma.
Annars eru tímamótin tvöföld, því nú eru 140 ár liðin frá því að sjúkrahús var fyrst stofnað á Akureyri í húsinu Gumdmanns Minde– nánar tiltekið í Aðalstræti 14. Húsið ber í sér nafn gefandans, Friðriks C.M. Guðdmann sem færði Akureyrarbæ húsið að gjöf árið 1873. Þess má til gamans geta að í því sama húsi fór fram fyrsta skurðaðgerðin hér á landi þar sem sjúklingurinn var svæfður meðan á aðgerð stóð, fyrir 157 árum, hvorki meira né minna. Það er því ekki að sökum að spyrja, Norðlendingar hafa löngum verið í fararbroddi á svo mörgum sviðum.
Mikið vatn er til sjávar runnið frá því að fyrsta sjúkrahúsið var stofnað á Akureyri – og margt hefur breyst frá því að sjúkrahúsið tók til starfa á þeim stað sem það stendur núna. Í upphafi voru hér 8 sjúkrarúm, í dag eru þjónusturýmin 133.
Og af því ég leyfi mér við þetta tækifæri að vera svolítið montinn fyrir hönd Norðlendinga þá liggur beint við hjá mér að lýsa því hve stoltur ég er af Sjúkrahúsinu á Akureyri og starfseminni sem hér fer fram. Þetta sjúkrahús er, og hefur lengi verið, rekið af miklum metnaði, með öflugu og framsýnu starfsfólki sem setur markið hátt. Þrátt fyrir aðhald og erfiðleika vegna þröngrar rekstrarstöðu og niðurskurðar á liðnum árum hefur merkið ekki verið látið síga. Mikil vinna hefur verið lögð í að móta framtíðarsýn og bæta stjórnskipulag með þá skýru sýn að leiðarljósi að ná enn betri árangri, auka þjónustu, bæta öryggi og gæði og efla skilvirkni. Eftir því sem ég kemst næst hefur þetta gengið vel. Það má til dæmis sjá þegar rýnt er í ársrit sjúkrahússins árið 2012 þar sem fram kemur að þótt fjárveitingar hafi þá verið skornar niður um 3% á milli ára og fækkun stöðugilda varð töluverð aukning í starfseminni.
Nú liggja fyrir Alþingi, tillögur um aukin framlög til sjúkrahússins. Ég geri mér vonir um að framlög til reksturs sjúkrahússins hækki um 200 m.kr., framlög til viðhaldsframkvæmda um 144 m.kr. og að fjárveiting til tækjakaupa hækki um 200 m.kr.
Sjúkrahúsið á Akureyri er annað tveggja sérgreinasjúkrahúsa landsins og gegnir því afar mikilvægu hlutverki. það er kennslusjúkrahús og þekkingarstofnun og það er miðstöð sjúkraflugs fyrir landið allt.
Sjúkrahúsið hefur sett sér það markmið til ársins 2017 að verða miðstöð sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu á Norður- og Austurlandi – og síðast en ekki síst að fá alþjóðlega vottun á starfsemi sína.
Ég er ekki í nokkrum vafa um að Sjúkrahúsið á Akureyri með sínu góða starfsfólki mun ná þeim markmiðum sem að er stefnt þannig að sómi verður af fyrir okkur öll.
Ég hef mikla trú á ykkur öllum sem hér starfið – og ég deili með ykkur metnaði fyrir hönd Sjúkrahússins – fyrir hönd sjúklinga og fyrir hönd okkar sem viljum trausta, góða, örugga og öfluga heilbrigðisþjónustu á Íslandi.