Hoppa yfir valmynd
30.01.2014 Heilbrigðisráðuneytið

Kynningarfundur um verkefnið Betri heilbrigðisþjónusta 2013 – 2017

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra
Fundur í Norræna húsinu 30. janúar 2014

Góðir gestir.

Ég vil byrja á því að þakka ykkur öllum fyrir að gefa ykkur tíma til að koma hingað til fundar í dag.

Tilgangurinn er að kynna formlega upphaf vinnu við ýmsar mikilvægar og nauðsynlegar úrbætur í heilbrigðisþjónustunni. Ég segi formlegt upphaf – því þetta eru meira eða minna verkefni sem eiga sér langan aðdraganda, eru sum hver hafin fyrir nokkru – eða hafa jafnvel staðið yfir um margra ára skeið. Nú hefur starfið hins vegar verið formgert og sett í farveg undir formerkjum Betri heilbrigðisþjónustu 2013 – 2017 og markmiðið er að vinna verkin hratt og vel.

Verkefnin sem um ræðir eiga ekki að koma neinum á óvart. Þau eiga sér rætur í umfangsmikilli greiningarvinnu á styrkleikum og veikleikum íslenska heilbrigðiskerfisins á liðnum árum. Markvissasta greiningin sem verður þó stuðst við fyrst og fremst er sú umfangsmikla vinna sem unnin var í velferðarráðuneytinu á árunum 2011 -  2012 með aðstoð erlends ráðgjafafyrirtækis og aðkomu hátt í 100 sérfræðinga sem starfa á ýmsum sviðum íslenska heilbrigðiskerfisins sem unnu að tilteknum verkefnum á grundvelli greiningarinnar og skiluðu tillögum sínum til ráðherra undir lok árs 2012 .

Þótt heilbrigðisþjónusta á Íslandi sé um margt afar góð og skori jafnan hátt í alþjóðlegum samanburði er engu að síður margt sem má bæta og þarf að bæta. Við verðum líka að horfast í augu við þá staðreynd að útgjöld til heilbrigðismála fara ört vaxandi, ekki aðeins hér á landi heldur alls staðar í hinum vestræna heimi. Spár OECD gera ráð fyrir að útgjöld til heilbrigðisþjónustu muni margfaldast á næstu áratugum verði ekkert að gert. Þörf fyrir umræðu, nýja sýn og nýja nálgun er því alls ekki bundin við Ísland, heldur snýst um framtíð heilbrigðisþjónustu víða um lönd. Þarfir fjöldans fyrir þjónustu heilbrigðiskerfisins hafa breyst mikið á liðnum áratugum. Helstu heilsufarsógnir nútímans eru faraldur ósmitnæmra, langvinnra sjúkdóma sem margir hverjir teljast til svokallaðra lífsstílssjúkdóma. Það er ástæða til að ætla að breytingar á sjúkdómabyrðinni og aðrar lýðheilsuógnir en þær sem áður voru meginvandi heilbrigðiskerfisins kalli á endurskoðun, nýjar nálganir og nýjar lausnir.

En aftur að verkefnunum sem eru til umfjöllunar hér í dag. Í stuttu máli snúast þau um að hafa yfirsýn og stjórn á því hvernig heilbrigðisþjónustan er notuð þannig að ávallt séu valin rétt úrræði miðað við þjónustuþörf og að yfirsýn og samhæfð þjónusta tryggi samfellu og komi í veg fyrir tví- eða margverknað sem er augljóst vandamál og leiðir til sóunar. Sameining heilbrigðisstofnana snýst um að efla faglegan og fjárhagslegan styrk þeirra. Hreyfiseðlar og stórbætt upplýsingagjöf og ráðgjöf til notenda heilbrigðiskerfisins er hugsað til þess að efla möguleika fólks til að vera virkir þátttakendur í meðferð og að taka ábyrgð á eigin heilsu eftir því sem kostur er. Endurskoðun á greiðsluþátttöku sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu er fyrst og síðast spurning um sanngjarnt og réttlátt greiðslukerfi sem er jafnframt gegnsætt og auðskiljanlegt fólki. Ein samtengd Rafræn sjúkraskrá er gríðarlega stórt og mikilvægt mál fyrir svo margra hluta sakir. Og loks er það endurskoðun á fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar sem er raunar nokkuð flókið mál en snýst ekki síst um að byggja skynsamlega hvata inn í kerfið, meta árangur á nýjan hátt miðað við ávinning af þjónustunni og ákveða rekstrarframlög til heilbrigðisþjónustu út frá íbúafjölda á viðkomandi þjónustusvæði og ýmsum lýðfræðilegum og félagslegum þáttum. Fyrstu skref á þeirri leið eru greiðslukerfi heilsugæslunnar, en þau taka breytingum í takt við tilllögur um þjónustustýringu.

Þjónustustýring

Góðir gestir. Nú ætla ég að víkja aftur að niðurstöður greiningarvinnunar frá árinu 2011. Það sýndi sig að þær styrktu og staðfestu margt af því sem þegar hafði verið bent á - jafnvel árum saman - um þætti í heilbrigðiskerfinu þar sem úrbóta er þörf. Þjónustustýring er eitt þessara verkefna. Við eigum þá vafasömu sérstöðu meðal nágrannaþjóða að beita lítið sem ekkert markvissri stjórnun á því hvert fólk sækir sér heilbrigðisþjónustu. Þessu fylgja margvíslegir annmarkar. Þetta er ekki í þágu sjúklinga, þetta stuðlar að ómarkvissri þjónustu, þetta ýtir undir sóun og dregur úr skilvirkni. Þetta vitum við og höfum vitað lengi. Það hefur bara skort drifkraft, einurð og samstöðu til að breyta þessu. Nú verður þetta gert og komið á fót virkri þjónustustýringu þar sem heilsugæslan gegnir lykilhlutverki og sér til þess að þeir sem þangað leita fái skjóta, góða og samhæfða þjónustu og trausta leiðsögn um heilbrigðiskerfið þegar önnur úrræði en heilsugæslan ræður yfir eru nauðsynleg.

Ég ætla að leyfa mér að koma með örlítið innskot hér – um nokkuð fjölmennan fund sem ég átti fyrir skömmu í ráðuneytinu með sérfræðingum úr heilbrigðiskerfinu til að segja frá þeim úrbótaverkefnum sem hér eru til umfjöllunar. Til fróðleiks spurði ég hve margir úr hópnum hefðu á liðnum árum tekið þátt í vinnu á vegum ráðuneytisins til að undirbúa verkefni til að bæta og styrkja heilbrigðisþjónustuna. Nánast allir réttu upp hönd til marks um að svo væri – en þegar ég spurði hve margir hefðu séð þessi verkefni verða að veruleika voru sárafáar hendur sem hófust á loft. Nú segi ég: Við eigum góðar greiningar og gögn til að byggja á. Við vitum hvað þarf. Nú verðum við að láta verkin tala.

Markmiðið okkar er að nýta þá takmörkuðu fjármuni sem við höfum úr að spila vel, en tryggja um leið örugga og góða þjónustu. Þröngur fjárhagur kallar á slíkt og þó við höfum góðar vonir um að þar muni rætast úr á næstu árum, þurfum við halda vel á spöðunum.

Góðir fundarmenn.

Eins og ég benti á í upphafi máls þá stendur íslensk heilbrigðisþjónusta ágætlega í erlendum samanburði. Við skulum halda því sem vel er gert og styðja við góðan árangur en okkur ber líka skylda til að bæta úr augljósum ágöllum. Við þurfum að vera opin fyrir nýjungum og við eigum að vera óhrædd við breytingar þegar þörfin fyrir þær er studd gögnum og góðum rökum eins og hér um ræðir. Það er einnig mikilvægt fyrir fagfólk í heilbrigðiskerfinu að hittast, skiptast á skoðunum og hugmyndum og fræða hvert annað. Það er mikilvægt að skoða málin út frá heilbrigðiskerfinu sjálfu og innra skipulagi þess – en ekki síður út frá því hvernig kerfið skilar hlutverki sínu og þjónar notendunum sem allt á auðvitað að snúast um. Notendurnir og hvernig þeim vegnar er mælikvarðinn á skipulag, öryggi og gæði þjónustunnar.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta