Hoppa yfir valmynd
18.02.2015 Dómsmálaráðuneytið

Lögregla og öryggismál í alþjóðasamhengi

Lögregla og öryggismál í alþjóðasamhengi

Ólöf Nordal innanríkisráðherra

Varðberg,

5. febrúar, 2015.

 

Góðir fundargestir.

Erindi mitt við ykkur í dag er að ræða lögreglu og öryggismál í alþjóðasamhengi. Ég er nýkomin af fundi innanríkis- og dómsmálaráðherra Evrópu sem haldinn var í Riga þar sem upp úr stóð tvennt, annars vegar það að við verðum að nota verkfæri Schengen samstarfsins og hins vegar var töluvert rætt um hvort þörf sé á að styrkja regluverk á þessu sviði. Þar var aðeins um mismunandi áherslur að ræða.

Í nágrannaríkjum okkar hefur öryggisstig verið hækkað vegna hryðjuverkaógnar öfgamanna. Við þekkjum öll atburðina í Frakklandi og Belgíu og vitum að umræðan um hryðjuverkaógn tengist umræðum um öfgahreyfingar og skipulagða innrætingu öfgahugmynda hjá einstaklingum (radikaliseringu), í þeim tilgangi að ýta undir hryðjuverk.  Atburðir og aðstæður í fjarlægðum löndum geta haft áhrif hér fyrirvaralaust, meðal annars fyrir tilstilli netsins eins og ég mun víkja að síðar. 

Ofbeldi og hryðjuverk endurspegla fjandskap gagnvart grundvallargildum lýðræðissamfélaga. Í þeim felast ógnir eins og nýleg dæmi sanna. Slíkar öfgar fela í sér hættur gagnvart samfélagi okkar sem við verðum hvert og eitt að taka alvarlega. Upplýst samræða mun bæta samfélag okkar og stemma stigu við því að öfgahugmyndir nái hér fótfestu. Fjarlægð Íslands frá öðrum löndum breytir ekki því að við höfum skyldum að gegna í þessum efnum.

Íslenskt samfélag og stjórnskipan byggir á virðingu okkar fyrir mannréttindum, frelsi einstaklingsins, trúfrelsi og jafnrétti. Þessi staðreynd gerir ekki eingöngu þá skýru kröfu til ríkisvaldsins að það virði þessi grundvallarréttindi einstaklinganna. Þetta er einnig krafa til okkar allra gagnvart hvert öðru.

Að sama skapi verðum við að horfast í augu við það sem ógnað getur öryggi almennings og öryggi og fullveldi ríkisins. Við verðum að vera í stakk búin og tilbúin til þess að bregðast við slíkum ógnum. Annað væri ábyrgðarleysi.

Hér vegast á órjúfanleg sjónarmið, jafnvægið milli frelsis og öryggis.

****

 Ytri ógnir vegna hernaðar ríkis gegn ríki hafa í okkar heimshluta vikið fyrir ógnum vegna náttúruhamfara, farsótta, hryðjuverka, alþjóðlegrar skipulagðrar glæpastarfsemi, umhverfisvár af margvíslegum toga, hættu á alheimsfarsóttum, hættu á kjarnorkuslysum, útbreiðslu kjarna- og efnavopna, röskunar eða eyðileggingar á grunn innviðum samfélaga eins og tölvu, fjarskipta-, orku- og fjármálakerfa, árekstrum menningarheima o.s.frv.  Stundum getur einnig verið erfitt að sýna fram á hvort ríki eða einhver hópur standi á bakvið ógn, til dæmis netárás eða hryðjuverkaárás, því ríki getur hvatt og stutt hóp til verksins þótt það komi ekki beint að framkvæmdinni.

Sameiginlegt einkenni þeirra ógna sem nefndar hafa verið hér að framan er að flesta ganga þær þvert á yfirráðasvæði einstakra ríkja og gerendur eru oftast ekki ríki heldur einstaklingar eða annars konar skipulagsheildir. Áhættuþættir eru oft flóknir og krefjast alþjóðlegs samstarfs sem gengur þvert á hefðbundin skipulagsform ríkja, bæði innanlands og í alþjóðlegum samskiptum. 

Umræðan á fundinum í Riga snérist að miklu leyti um mikilvægi samvinnu ríkja og aðgerðir í þá veru, eins og að:

i.        styrkja ytri landamæri Schengen og eftirlit þar. Að Schengen samstarfið sé hluti af lausninni til að berjast gegn hryðjuverkum, ekki vandanum

ii.      auka lögreglu- og dómsmálasamvinnu, nýta verkfæri slíkrar samvinnu betur og styrkja Europol og Eurojust

iii.    vinna gegn ólöglegum vopnaskiptum og vinna gegn peningaþvætti enda ljóst að fjárhagslegur ávinningur af þessari glæpastarfsemi er verulegur og mikilvægt að taka á því

iv.    vinna gegn aukinni öfgahyggju (radikalisering). Markmiðið er að vinna að rót vandans

v.      bregðast við trúarhatri og hatursræðu á netinu

vi.    og mikilvægi samstarfs Evrópuríkja við þriðju ríki.

Við búum við breytta heimsmynd.

****

Lögreglan og Landhelgisgæsla Íslands eru þær löggæslu- og öryggisstofnanir þjóðfélagsins sem hafa með höndum löggæslu í víðustu merkingu þess orðs og gegna lykilhlutverki í öryggis- og viðbragðskerfi þjóðarinnar.

Þær eru í miklu samstarfi við systurstofnanir sínar sínar erlendis, þar á meðal við gerð áhættuskoðunar og greiningar á þróun áhættuþátta.  Óhjákvæmilegt er að búa þeim innlendu stofnunum, sem að þessum öryggisþáttum koma, þann starfsgrundvöll að lögum að þær hafi lagalegt umboð og getu til þess að takast á við ógnir gagnvart borgaralegu og þjóðfélagslegu öryggi hér á landi og í íslenskri lögsögu í samstarfi við systurstofnanir sínar heima og erlendis.

Samstarf íslensku lögreglunnar við erlendar öryggis- og löggæslustofnanir fer einkum fram, eins og þið vitið, innan vébanda norrænnar samvinnu, Alþjóðalögreglunnar (Interpol), Evrópulögreglunnar (Europol) og Atlantshafsbandalagsins og við öryggisþjónustur einstakra ríkja. Einnig á lögreglan aðild að vinnuhópi evrópskra lögregluliða vegna hryðjuverkaógnar (e. Police Working Group on Terror). Jafnframt á greiningardeild samstarf við einstakar erlendar lögregludeildir og má þar nefna bandarísku alríkislögregluna (FBI), og CIA og Lundúnalögregluna (e. Metropolitan Police) sem halda úti formlegum tengslafulltrúum gagnvart Norðurlöndum. Þá á greiningardeild náið samstarf við lögregludeildir á Norðurlöndum.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins, sem og Schengen, er nú um stundir lögð áhersla á samstarf og alþjóðlegar aðgerðir til þess að sporna gegn hryðjuverkaógn.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun 24. september síðast liðinn þar sem kveðið er á um skyldur ríkja til ýmissa aðgerða sem miði að því m.a. að hindra ferðir erlendra bardagamanna, til dæmis með landamæraeftirliti og eftirliti með skilríkjum.  Þá eru umræður innan Evrópusambandsins með þátttöku Schengen ríkjanna, þar á meðal Íslands, um aðgerðir gegn erlendum bardagamönnum. Ég varð mjög vör við það sjónarmið á nýliðnum fundi í Riga.

Í samstarfi við Alþingi þurfa stjórnvöld að fara vandlega yfir hvaða lagabreytingar eru nauðsynlegar svo Ísland geti staðið undir þeim skuldbindingum sem kveðið er á um í framangreindri ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Með stofnun greiningardeildar ríkislögreglustjóra á árinu 2006 var tekið mið af þróun sem átt hafði sér stað hjá lögregluembættum nágrannalandanna. Tilgangurinn var að auðvelda íslenskum lögregluyfirvöldum samstarf við erlendar lögregludeildir sem gegna því hlutverki að greina og meta hættu á skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkum, afla og vinna úr upplýsingum og greina hættu sem tengist fíkniefnabrotum, skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkum eða öðru varðandi öryggi ríkisins. Rannsóknaraðferðir og starfsheimildir greiningardeildar fara samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála, en samkvæmt því hefur greiningardeildin ekki víðtækari úrræði en lögreglan almennt.

Á sínum tíma mælti allsherjarnefnd Alþingis  með stofnun greiningardeildar til þess að skjóta stoðum undir þá starfsemi lögreglu sem felst í því að greina hættu á alvarlegri glæpastarfsemi í tvennum tilgangi: Annars vegar að auðvelda lögreglu að upplýsa alvarleg afbrot og hins vegar að koma í veg fyrir að slík afbrot verði framin. Taldi nefndin að þessi þáttur í störfum lögreglu væri ekki síst mikilvægur í ljósi þeirrar hættu sem samfélaginu stafar af skipulagðri glæpastarfsemi, svo sem fíkniefnasmygli, mansali og hryðjuverkum. Slík forvarna- og greiningarvinna væri forsenda þess að hérlend yfirvöld gætu unnið með yfirvöldum í öðrum ríkjum að baráttu gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi. Taldi nefndin brýnt að skipulag lögreglu tæki mið af þessum veruleika.

Í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra 2013 þar sem lagt er mat á ógn af skipulagðri glæpastarfsemi og hættu á hryðjuverkum kemur fram að við hættumat vegna hugsanlegra aðgerða hryðjuverkamanna á Íslandi búi lögreglan ekki yfir sambærilegum forvirkum rannsóknarheimildum innan þessa málaflokks og tíðkast á Norðurlöndunum.  Sökum þessa sé  lögreglu ekki heimilt að hefja rannsókn eða afla upplýsinga um einstaklinga og lögaðila nema að fyrir liggi rökstuddur grunur um að þeir hafi framið afbrot. Vegna skorts á forvirkum rannsóknarheimildum hafi  lögregla ekki tök á þátttöku af fullum þunga í alþjóðlegu samstarfi þjóða til þess að sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Heimildir lögregluyfirvalda til rannsóknar mála miðast við rannsóknir á refsiverðri háttsemi, annað hvort á grundvelli kæru eða vegna þess að fyrir liggur rökstuddur grunur um afbrot eða rannsóknir eftir að afbrot hefur verið framið. Hins vegar hafa stjórnvöld á vettvangi löggæslu og öryggismála engar heimildir um beitingu sérstakra rannsóknarúrræða til þess að sporna gegn alvarlegum afbrotum áður en afbrot er framið eða rökstuddur grunur um brot hefur kviknað. Hafa heimildir í þessa veru verið lengi við lýði í flestum nágrannaríkjum og alþjóðasamningar um aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi, svo sem mansali, peningaþvætti og hryðjuverkum, hafa flestir að geyma ákvæði í þessa veru.

Við eins og aðrar þjóðir verðum að íhuga þessi mál fordómalaust án þess þó að leggja til hliðar þau gildi sem persónuvernd byggir á og friðhelgi einkalífs.  

Á árinu 2006 fékk þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra Björn Bjarnason hingað til lands sérfræðinga frá Evrópusambandinu er skiluðu matsskýrslu um hryðjuverkavarnir á Íslandi. Í skýrslunni er vakin athygli á því, að hér á landi séu engar reglur um beitingu sérstakra rannsóknarúrræða, einkum forvirkra, sem öryggisþjónustur annarra landa beiti venjulega áður en til opinberrar rannsóknar lögreglu eða á vegum dómstóla komi, og séu því forvirkar aðgerðir óheimilar að íslenskum lögum. Þá geti íslensk stjórnvöld ekki átt samskipti við evrópskar stofnanir, þar sem fulltrúar öryggisstofnana hittast til að ráða ráðum sínum, eða verið í tengslum við þá miðstöð Evrópusambandsins, sem greinir og miðlar upplýsingum um hættu á hryðjuverkum. Í lokaorðum skýrslunnar segir: Til baráttu gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi, og einnig til að njóta viðurkenningar sem jafngildur aðili að samfélagi öryggis- og löggæslustofnana innan Evrópusambandsins, er Ísland hvatt til að sjá fyrir fullnægjandi skipulagi, tilhögun og lagalegum grunni, eins og lögð er áhersla á í þeim tilmælum sem fram koma í skýrslu þessari."

Í þessum efnum þurfum við að íhuga sérstaklega þýðingu slíkra rannsóknaúrræða og hvernig þess verði gætt að beiting þeirra raski ekki grundvallarréttindindum þeirra er hér búa. Hvenær ætti stjórnvöldum  að vera heimilt að beita slíkum rannsóknarúrræðum? Með hvaða hætti má safna upplýsingum á grundvelli slíkra úrræða og á hvaða forsendum? Hvaða reglur ætti setja um nýtingu þeirra og  hvers  konar eftirlit ætti að vera með slíkri starfsemi og hvaða upplýsingasamskipti við önnur ríki ættu að vera heimil?   Allt eru þetta úrlausnarefni sem við verðum að velta fyrir okkur. 

Álitaefni varðandi nauðsynlegar lagaheimildir íslenskra stjórnvalda til þess tryggja þjóðaröryggi og virkja þátttöku í alþjóðlegu löggæslu- og öryggissamstarfi þurfa að vera í sífelldri skoðun hvort sem um er að ræða íslenska refsilöggjöf, heimildir við vörslu landamæra eða öflun, vinnslu og miðlun upplýsinga. Ég tel að við þurfum að kryfja til mergjar hvað skorti á heimildir lögreglu til forvarna og greininga á áhættuþáttum og hvort og þá hvað girði fyrir það að við getum tekið virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi. Við verðum að vera í stakk búin að vera virkir þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi sem miðar að því að tryggja öryggi í okkar heimshluta.  Þar megum við ekki vera veikasti hlekkurinn.

Í þessu samhengi tel ég Schengen samstarfið mjög mikilvægt. Við getum nýtt verkfæri Schengen betur en við gerum í dag. Við erum ekki byrjuð að nýta SIS II upplýsingakerfið sem er ný og betri útgáfa af gagnagrunnum evrópskrar lögreglusamvinnu, þannig erum við ekki að setja inn allar upplýsingar sem heimilt er að setja inn í kerfið og erum eina þjóðin innan Schengen  sem ekki gerir það. Ég hef nú mælt fyrir frumvarpi á Alþingi sem bætir úr þessu, verði það afgreitt sem lög frá Alþingi.

****

Innanríkisráðuneytið hefur, í samvinnu við fagstofnanir og hagsmunaaðila, unnið stefnu í málefnum landamæra til 12 ára. Í stefnunni eru sett fjögur markmið: Örugg landamæri og lögmæt umferð, skilvirkni og samhæfð framkvæmd við landamæravörslu, hagkvæmni og loks virkni í alþjóðlegu samstarfi. Til þess að stefnan nái fram að ganga hefur verið gerð aðgerðaáætlun í 16 liðum.

Áherslan í málefnum landamæra til langs tíma er að styrkja stjórnvöld til að takast á við þau verkefni sem landamærastjórn felur í sér, efla samstarf við erlend landamærayfirvöld í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og að nýta þau verkfæri sem erlent samstarf býður upp á.

Landamæraeftirlit (lofthelgi og landhelgi) á Íslandi er samvinnuverkefni nokkurra innlendra stofnana svo sem lögreglu, landhelgisgæslu og tollgæslu. Landamæraeftirlit er mikilvægur hlekkur í öryggi landsins og er það oft fyrsta varnarlínan þegar kemur að mansali, fíkniefna-innflutningi, smygli og skipulagðri glæpastarfsemi sem nær í ríkara mæli yfir landamæri.

Í umræðu um löggæslu og öryggismál hér á landi hafa þau sjónarmið farið hátt að nauðsynlegt sé að Íslendingar segi sig úr Schengen samstarfinu.  Því er til dæmis haldið fram að vegna aðildar okkar að Schengen geti glæpagengi rápað inn og út úr landinu án þess að vegabréfaeftirliti verði við komið og dæmdir útlendir sakborningar í farbanni sleppi ítrekað úr landi þrátt fyrir bann á pappírnum. Með þessu er gefið til kynna að við værum betur í stakk búin að sporna gegn starfsemi glæpasamtaka ef vegabréfaeftirlit væri tekið upp.

Það er eðlilegt og hollt að ræða þessi mál hér eins og annars staðar. Meðal Schengen ríkja er umræða um það hvort samstarfið fullnægi kröfum á hverjum tíma, til dæmis um viðbúnað gagnvart öryggisógn og hvort því þurfi að breyta. Í umræðum um aðild okkar að Schengen verðum við að gæta yfirvegunar og sanngirni rétt eins og um aðra þætti öryggismála. Sannleikurinn er sá að með Schengen samstarfinu höfum við aðgang að þjónustu og upplýsingum vegna landamæraeftirlits sem við hefðum annars ekki. Schengen er því hluti af lausninni, ekki vandanum. Verkfærin sem þar eru að finna eru öflug.

Schengen samstarfið er í raun þróun á reglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um frjálsa för fólks sem tryggja ríkisborgurum aðildarríkja EES, þar með talið íslenskum ríkisborgurum og aðstandendum þeirra, víðtækan rétt til að fara óhindrað milli EES-ríkjanna hvort heldur er til heimsóknar eða lengri dvalar. Heimildum aðildarríkjanna eru skorður settar að vísa EES-borgurum frá landi en þær heimildir eru tengdar sakarferli viðkomandi og framferði.  Þetta eru reglur samkvæmt EES-samningnum.

Schengen samningurinn kveður á um afnám persónueftirlits ríkisborgara EES-ríkja á innri landamærum Schengen-svæðisins til þess að tryggja frjálsa för fólks um svæðið í samræmi við ákvæði EES-samningsins. Afnám persónueftirlits á innri landamærum hefur þó hvorki áhrif á framkvæmd lögregluvalds þar til bærra yfirvalda í hverju ríki, samkvæmt löggjöf þess ríkis á gjörvöllu yfirráðasvæði þess, né þær skyldur sem kveðið er á um í löggjöf þess. Þetta felur m.a. í sér kröfu til útlendings um að eiga, hafa meðferðis og framvísa leyfum og persónuskilríkum innan lögsögunnar. Þessi áskilnaður samkvæmt Schengen samningnum um afnám persónueftirlits við för um innri landamæri tekur ekki til umferðar fólks um ytri landamæri inn á Schengensvæðið. Á ytri landamærum fer fram persónueftirlit með öllum sem koma og fara frá Schengen svæðinu, samkvæmt samræmdum reglum Schengen samstarfsins.

Jafnframt kveður Schengen samningurinn á um margvíslega samvinnu evrópskra lögregluliða til þess að tryggja öryggi innan Schengen svæðisins eða mótvægisaðgerðir til að koma í veg fyrir að afnám persónueftirlits á innri landamærum auðveldi til dæmis starfsemi skipulagðra glæpasamtaka. Á grundvelli Schengen samningsins er samvinna lögreglu- og dómsyfirvalda í Schengen ríkjunum aukin og einfölduð. Öll þátttökuríki Schengen nota SIS upplýsingakerfið sem er rafrænt gagnasafn tiltekinna upplýsinga, m.a. um eftirlýsta einstaklinga sem óskað er eftir að verði handteknir og framseldir og útlendinga sem meinað er landgöngu. Er upplýsingakerfinu ætlað að treysta eftirlit á ytri landamærum Schengen-svæðisins og auka samvinnu lögregluyfirvalda ríkjanna til að koma í veg fyrir og uppræta brotastarfsemi. Starfræskla kerfisins hér á landi er í höndum lögreglunnar á grundvelli laga nr. 16/2000.  Sameiginleg stefna í vegabréfsáritanamálum er innan Schengen og réttur borgara um að vera ekki saksóttir eða refsað tvívegis fyrir sama verknaðinn í sitthvoru Schengen ríkinu er viðurkenndur, en slíkur réttur ríkti áður fyrr einungis innan lögsögu hvers og eins ríkis. Samráð fer fram á vettvangi allra Schengen ríkjanna um öryggiskröfur, aðgerðir og útbúnað til vörslu á ytri landamærunum, til að fyllsta öryggis innan svæðisins sé gætt. Mikilvægur öryggishlekkur í þessu samhengi er aðild okkar á grundvelli Schengen að FRONTEX, Landamærastofnun Evrópu.

Þátttaka í Schengen veitir okkur rétt til aðgengis að viðamiklu og mikilvægu samstarfi við önnur Schengen ríki, þá sérstaklega í gegnum fyrrnefndar stuðningsaðgerðir sem ella væri okkur lokað. Þar fyrir utan hefur Schengen samstarfið greitt leið Íslands að fleiri samstarfssamningum um tengd efni, bæði við einstök ríki Evrópusambandsins, stofnanir þess eða ESB fyrir hönd aðildarríkja. Hér má nefna samstarfsamning við Europol og Cepol lögregluskóla Evrópu og samning um aðild að Eurojust. Þessir samningar eru allir liðir í að auka öryggi.

Ég tel vafalaust að Schengen hafi mikla þýðingu fyrir okkur og að mikilvægi Schengen samstarfsins muni aukast.

****

Þá verður sérstaklega að líta á netið og hvernig því er beitt í hryðjuverkavánni.

Mörg ríki leggja því áherslu á að verja mikilvæga netnotkun í samfélaginu gegn ógnum sem valdið geta fyrirtækjum og einstaklingum miklum skaða. Í fréttum undanfarinna vikna hefur komið fram að í mörgum löndum eru bættar varnir á þessu sviði taldar á meðal  brýnustu verkefna á sviði öryggismála. Á Íslandi hefur verið unnið að stefnumótun á sviði net- og upplýsingaöryggis og aðgerðaráætlunar á grunni stefnunnar.

Fyrirtæki, stofnanir og almenningur eru æ betur að gera sér grein fyrir að netinu fylgja ekki aðeins tækifæri, því fylgja einnig hættur sem þarf að takast á við. Meginmarkmið í drögum að stefnu um net- og upplýsingaöryggi eru fjögur: Bætt þekking, aukið áfallaþol, bætt löggjöf og traust löggæsla. Það þarf að bæta almenna þekkingu á netógnum, vörnum og hvernig bregðast skuli við áföllum. Ísland þarf fleiri vel menntaða sérfræðinga á þessu sviði. Fórnarlömb, hvort sem um fyrirtæki eða einstaklinga er að ræða, verða að geta leitað sér aðstoðar og löggæsla og dómskerfi verða að geta rannsakað brot og aflað sönnunargagna sem nægja til sakfellingar þegar við á. Sérstaklega þarf að huga að vörnum fjarskipta- og netkerfa, orku- og veitukerfa og fjármála- og greiðslumiðunar­kerfa. 

Vegna alþjóðlegs eðlis netsins reynir hér mikið á alþjóðlega samvinnu, til dæmis við mat á lögsögu varðandi brotið og að afla sönnunargagna þvert á landamæri. Alþjóðleg glæpasamtök hafa verið að nýta sér þetta, lögregluyfirvöld hafa hins vegar aukið samvinnu sín í milli til þess að sporna gegn glæpastarfsemi á netinu. Hér verður Ísland að fylgja með.

Hryðjuverkasamtökin ISIS hafa notað netið mikið í baráttu sinni, bæði til að dreifa áróðri og til netárasa. Vefur til stuðnings samtökunum var tímabundið á íslensku léni og hefur hann nú verið tekinn niður. 

Europol hefur einnig aukið samvinnu á sviði net- og upplýsingaöryggis  og Ísland er þar þátttakandi. 

Það skiptir máli að Ísland eflist í alþjóðlegu samstarfi á sviði net- og upplýsingaöryggis, það þarf að vera ljóst að þótt Íslendingar byggi eindregið á persónufrelsi og friðhelgi einkalífs þá njóti glæpa- og hryðjuverkastarfsemi ekki friðhelgi hér. Ísland sé ekki hentugur vettvangur óhæfuverka og að samvinna við grannríki okkar á þessu sviði sé traust.

****

Ég vil stuttlega víkja að öryggi á Norður-Atlantshafi. Íslendingar leggja sitt af mörkum í öryggisgæslu í okkar heimshluta. Í því efni miðast bjargir okkar við borgaralegar öryggisstofnanir en hlutur þeirra og samstarf þeirra við hliðstæðar stofnanir í nágrannalöndum okkar skiptir miklu, þegar litið er til þróunarinnar á Norður-Atlantshafi.

Þróunin á norðurslóðum felur í sér margþætt og aðkallandi viðfangsefni á sviði öryggismála. Þau snúast fyrst og fremst um vöktun og greiningu á svæðinu. Við höfum nú þegar bæði getu og þekkingu til að sinna því. Björgunarbúnaður og viðbragðsgeta er ekki síður mikilvæg.

Samkvæmt alþjóðþegum samningum er Ísland ábyrgt fyrir leit og björgun á svæði sem er meira en tvöfalt stærra en íslenska efnahagslögsagan.

Helstu hindranirnar í því að hafa hér á landi öfluga viðbragðsgetu er einkum fjármagn.  Ríkisstjórnin vinnur að því að kanna þá möguleika sem í boði eru þannig að ekki vantar viljann, en við vitum að það kann að verða kostnaðarsamt að koma okkur upp öflugri vörnun og björgunartækjum. Öryggi á norður slóðum mun auðvelda okkur að nýta þau tækifæri sem þarna eru til staðar.

Fyrir ríkisstjórninni liggur nú það verkefni að kanna möguleika þess að koma hér á fót alþjóðlegri björgunar- og viðbragðsmiðstöð. Vaxandi skipaumferð og opnun nýrra siglingaleiða á norðurslóðum kalla á öryggisviðbúnað hér á landi og náið samstarf við aðrar þjóðir á sviði öryggismála. Slíkt samstarf er mikilvægt og óhjákvæmilegt enda er ljóst að engin ein þjóð getur sinnt björgunaraðgerðum á þessum slóðum hlekkist til dæmis stóru skemmtiferðaskipi á. Til samstarfs margra þjóða þyrfti að koma. Á þessu byggja þeir alþjóðlegu samningar sem gerðir hafa verið á vegum Norðurskautsráðsins um leit og björgun á norðurslóðum og Ísland á aðild að.

Landhelgisgæsla Íslands ber ábyrgð á leitar og björgunarsvæði á norðuslóðum sem er nánast tvöfalt stærra en íslenska efnahagslögsagan. Landhelgisgæslan á náið samstarf við hliðstæðar stofnanir í nágrannaríkjum meðal annars á grundvelli samstarfssamninga. Á Íslandi er nú þegar gott viðbragðskerfi og eru viðbragðsaðilar vel samhæfðir á landsvísu. Komi til viðamikilla viðbragðs- og björgunaraðgerða sem krefjast þátttöku erlendra aðila er nauðsynlegt að hafa viðunandi aðstöðu til taks. Alþjóðlegar æfingar viðbragðsaðila við Grænland og víðar á svæðinu hafa sýnt fram á ákveðna veikleika í viðbragðskerfinu sem takast þarf á við. Alþjóðleg björgunar og viðbragðsmiðstöð getur verið mikilvægur þáttur í því verkefni.

Hlutverk alþjóðlegrar björgunar- og viðbragðsmiðstöðvar gæti falist í því að greiða fyrir viðveru og störfum björgunarliða með góðri aðstöðu til funda, samhæfingar og aðgerðarstjórnunar, eftir því sem við á. Þá gæti slík miðstöð komið að samhæfingu upplýsinga og bjarga sem og geymslu mikilvægs búnaðar erlendra samstarfsaðila til að senda á vettvang vegna björgunar og bráðamengunar. Árið um kring gæti svo miðstöðin sinnt upplýsingamiðlun og staðið fyrir námskeiðum, þjálfun og æfingum í samvinnu við innlenda sem erlenda aðila.  

Starfshópur undir sameiginlegri forystu innanríkisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins vinnur að því að útfæra tillögur um slíka miðstöð og stendur til að halda alþjóðlega fund með helstu samstarfsþjóðum okkar um þetta efni í mars. Við mótun og kynningu hugmyndarinnar um alþjóðlega björgunar- og viðbragðsmiðstöð á Íslandi hefur verið horft til aðstöðu Landhelgisgæslunnar í Keflavík en hafnir, flugvellir og innviðir á öðrum stöðum gætu einnig nýst vel. Slík miðstöð gæti samtímis verið, aðgerðastjórnstöð og þekkingarsetur með áherslu á æfingar og þjálfun enda býður Ísland upp á einstök tækifæri til þjálfunar í viðbrögðum við heimskautaaðstæður. Ég hef mikinn áhuga á þessu viðfangsefni og tel að tækifæri fyrir Ísland hvað þetta varðar séu mörg.

****

Ég hef hér gert að umtalsefni hversu mikilvægt það er fyrir okkur að vera í stakk búin að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði löggæslu og öryggismála. Öflugar löggæslu- og öryggisstofnanir hér á landi sem verða að geta brugðist við þörfum þjóðfelagsins á hverjum tíma, gott samstarf og samhæfing þeirra á milli og virk og áreiðanleg þátttaka þeirra í alþjóðlegu samstarfi er það sem við eigum að hafa að leiðarljósi í viðleitni okkar til þess að tryggja öryggi í samfélagi okkar og í okkar heimshluta. Viðbragðsgeta þjóðfélagsins til þess að takast á við hvers kyns hættur sem kunna að steðja að borgaralegu og þjóðfélagslegu öryggi verður að vera í stöðugri endurskoðun í nánu samstarfi við aðrar þjóðir. Samstarf íslenskra stofnana, sem falið hefur verið að gæta borgaralegs og þjóðfélagslegs öryggis við sambærilegar erlendar stofnanir er óhjákvæmilegt og mikilsvert að íslenskar stofnanir hafi burði til þess að vera virkir og trúverðugir samstarfsaðilar á alþjóðavettvangi. Ein af meginforsendum slíks samstarfs er að Ísland sem sjálfstætt ríki glati ekki trausti, sem trúverðugur samstarfsaðili.

Við eigum að sækja fram á okkar gildum, lýðræði og mannréttindum – þar er okkar styrkur og við verðum að varðveita þau grunngildi.

Á sama tíma þurfum við að horfast í augu við þær ógnir sem að okkur steðja sem ríki og borgurum og vinna þau verkefni af ábyrgð, með þeim verkfærum sem við þurfum.

Meginlærdómur atburða undanfarið er mikilvægi samvinnu milli ríkja. Sú samvinna skiptir var lykilatriði í aðgerðunum í Belgíu. Í slíku samstarfi viljum við ekki vera veikasti hlekkurinn.

 

Takk fyrir.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta