Hoppa yfir valmynd
12.05.2016 Dómsmálaráðuneytið

Málþing Lögmannafélags Íslands 12. maí

Skyldur lögmanna gagnvart samfélaginu

Erindi Ólafar Nordal innanríkisráðherra


Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, góðir fundargestir

Ég vil byrja á að þakka Lögmannafélagi Íslands fyrir að bjóða mér að taka þátt í þessu málþingi um skyldur lögmanna gagnvart samfélaginu.

Það er engum blöðum um það að fletta að lögmenn gegna mikilvægu hlutverki í réttarkerfinu. Ég, sem ráðherra á málefnasviðum réttarkerfisins, læt mig það miklu varða hvort umgjörð réttarkerfisins tryggi virkni þess í samræmi við kröfur réttarríkisins – einn af hornsteinum samfélags okkar og forsenda réttinda okkar og frelsis.

Hlutverk lögmanna í samfélaginu er margþætt. Ráðgjöf lögmanna veitir einstaklingum og atvinnulífinu mikilvæga leiðbeiningu um efni laga og stuðlar með því að lögum sé fylgt. Mikilvægur þáttur í ráðgjafarhlutverki lögmanna er líka sáttamiðlun – að leysa lagadeilur utan dómstóla. Dómsmál eru almennt séð dýr samfélaginu og þungbær aðilum máls. Það er því til mikils að vinna að lögmenn ræki þetta hlutverk vel. Ákveðin mál verða hins vegar aðeins leyst fyrir dómstólum. Lögmenn sækja og verja rétt umbjóðenda sinna fyrir dómi og er í lögum tryggð sérstök réttindi til þeirra starfa. Gæði málsmeðferðar og þar með réttarkerfisins ræðst ekki síst af því hvernig lögmenn reka málin að formi og efni til. Síðast en ekki síst eru lögmenn og Lögmannafélagið virkir þátttakendur í samfélagslegri umræðu um lög og rétt. Í því hlutverki geta lögmenn og Lögmannafélagið haft veruleg áhrif og veitt bæði stjórnvöldum og dómstólum aðhald.

Þrátt fyrir að skyldur lögmanna séu fyrst og fremst gagnvart umbjóðendum þeirra hafa þeir í störfum sínum áhrif á samfélagið. Hlutverki þeirra fylgir því mikil ábyrgð. Það hefur verulega þýðingu fyrir réttarkerfið og þar með samfélagið hvernig lögmenn halda á hlutverki sínu. Það er eðlilegt að stjórnvöld á hverjum tíma vakti hvort lögin styðji við hlutverk lögmanna og hvort aðhald með störfum þeirra sé nægilegt.

Lögmenn geta því aðeins gegnt hlutverki sínu að þeir njóti trausts. Til þess þurfa þeir faglegan styrkleika – vera lögfróðir. En þeir þurfa líka að vera heiðarlegir í störfum sínum.

Ef eitthvað er að marka fjölda tilvitnana í fólk af ýmsum sviðum og þjóðernum síðustu aldirnar um störf lögmanna og samvisku þeirra má ætla að lögmönnum sé hreint ekki treystandi. Í tilvísununum birtist viðtekin og aldagömul hugmynd að lögmenn – og raunar lögfræðingar almennt – séu flokkur samviskulausra og fjárgírugra manna. Það eru helst pólitíkusar sem fá verri útreið. Þetta er auðvitað ekkert nema klisja. Staðreyndin er sú að flestir sem á þurfa að halda leita sér aðstoðar lögmanna og treysta þeim til að greiða úr sínum mikilvægustu málum. Á þetta benti hinn mæti lögmaður, stjórnmálamaður og forseti Bandaríkjanna Abraham Lincoln. Oft nefndur “Honest Ab”. Ráð hans til ungra lögmanna voru að falla ekki að þessari klisju og að vera ávallt heiðarlegir. Ef dómgreindin segði þeim að starf lögmanns byði þeim ekki að vera heiðarlegir, ættu þeir að vera heiðarlegir án þess að stunda lögmennsku – velja sér aðra starfsgrein en þá sem þeir ganga út frá að geri þá að óheiðarlegum mönnum.

En hvað er heiðarlegur lögmaður? Ég ætla mér ekki að fara djúpt í siðfræðilegar kenningar um heiðarleika en þar er þó ekki aðeins vísað til þess að fylgja lögum heldur einnig siðferðilegum viðmiðum sem lúta t.d. að réttsýni, samkvæmni, heilindum, ábyrgð og samvisku. Allt eru þetta eiginleikar sem prýða góðan lögmann. Heiðarleiki stéttar getur þó ekki ráðist af samvisku eða gildum einstakra manna heldur verður stéttin að koma sér saman um sameiginleg almenn viðmið og tryggja að þeim sé fylgt.

Lög um lögmenn og siðareglur sem Lögmannafélagið á að setja samkvæmt þeim gefur lögmönnum ákveðinn ramma. Segja má að hann lúti annars vegar að því hvaða kröfur menn þurfa að uppfylla til að fá lögmannsréttindi og svo hins vegar að því hvernig lögmenn eigi að haga störfum sínum og samskiptum. Þessi rammi er forsenda þess að lögmenn geti staðið undir þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir gagnvart umbjóðendum sínum og samfélaginu.

Þær kröfur sem gerðar eru til þess að menn geti öðlast lögmannsréttindi lúta fyrst og fremst að menntun en líka að óflekkuðu mannorði og fjárhagslegri stöðu. Ekki er gerð krafa um starfsþjálfun eða handleiðslu. Háskólanám og námskeið lögmanna getur vissulega þjálfað nemendur í lögfræði, gagnrýnni hugsun og siðfræði. Ég hef hins vegar ákveðnar efasemdir um að slík þjálfun geti komið í stað handleiðslu reyndra lögmanna við úrlausn raunverulegra verkefna þar sem reynir á hlutverk og skyldur lögmanna. Það er því að mínu mati umhugsunarefni hvort ekki eigi að gera þá kröfu að menn öðlist starfsreynslu áður en þeir fá lögmannsréttindi. Slíkar kröfur eru gerðar í mörgum nágrannaríkja okkar.

Í lögum um lögmenn er fjallað um störf lögmanna. Þar er þeim gert skylt að rækja störf sín af alúð og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Þótt ekki sé vikið beinum orðum að sjónarmiðum um sjálfstæði og hlutleysi lögmanna má af ákvæðum laganna ráða að það er grundvallarregla.

Lögmönnum er eins og allir hér vita skylt að hafa með sér félag – Lögmannafélag Íslands – og er öllum lögmönnum skylt að vera aðilar að því. Skyldan til aðildar er studd þeim rökum að Lögmannafélagið hafi ákveðið eftirlitshlutverk með lögmönnum sem þjóni almannahagsmunum. Ég vil ekki hér fara ofan í nauðsyn skylduaðildar en legg þess í stað áherslu á að mikilvægt er að eftirlit Lögmannafélagsins sé virkt og skapi það aðhald sem þarf til að lögmannsstéttin standi undir þeirri samfélagslegu ábyrgð sem henni er falin.

Aðhalds- og eftirlitshlutverk Lögmannafélagsins er meðal annars fólgið í setningu siðareglna og eftirliti með að þeim sé fylgt. Siðareglurnar eru eðli málsins samkvæmt almennar. Í siðareglunum er lögð rík áhersla á hlutleysi og sjálfstæði lögmanna. Þeir eiga að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna og ekki láta eigin skoðanir eða hagsmuni sína ráða ferðinni. Þetta rímar vel við það hlutverk lögmanna sem ég lýsti í upphafi að upplýsa um efni laganna og stuðla þannig að því að þeim sé fylgt og stilla til friðar. Sáttahlutverk lögmanna er mikilvægt, ekki síst í þeim hraða og flókna heimi sem við búum í. Það er vont ef lögmenn rækta ekki það hlutverk sem skyldi. Klisjan um samviskulausa lögmanninn sprettur úr staðalímynd um þann sem hefur lifibrauð af ósætti manna og elur á henni. Hér má aftur vísa í Lincoln forseta sem sagði að sá lögfræðingur sem leitar sátta og friðar hefur tækifæri til að verða góður maður.

Í siðareglunum er einnig fjallað um samskipti við dómstóla og þar m.a. tekið fram að þeir eigi að sýna dómstólum fulla tillitsemi og virðingu, vanda málatilbúnað sinn og stuðla að greiðri og góðri málsmeðferð fyrir dómstólum. Þetta er mikilvægt út frá virkni réttarkerfisins.

Samkvæmt lögum um lögmenn kemur Lögmannafélagið fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum um þau málefni sem stétt þeirra varða. Lögmannafélagið er þar ekki bara í hlutverki hagsmunagæslu heldur líka aðhalds með dómstólum og stjórnvöldum og ekki síður með eigin félagsmönnum – þessi hlutverk hagsmunagæslu og aðhalds geta vissulega farið saman. Það þjónar stéttinni að þeir sem henni tilheyra séu heiðarlegir í störfum sínum.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að stjórnvöld eigi að hafa virkara hlutverk við eftirfylgni á gæðum lögmannsþjónustu og því að lögmenn sinni skyldum sínum. Ég er á því að lögmenn eiga sjálfir að hafa slíkt eftirlit með höndum. Það samræmist best sjálfstæði lögmanna, sem eins og formaður Lögmannafélagsins kom að, er mikilvægt til að lögmenn geti gefið hlutlaus ráð. Það er hins vegar álitamál að mínu mati hvort gildandi lög leggi nægilega áherslu á möguleika Lögmannafélagsins til frumkvæðis í eftirliti og gefi félaginu nægileg úrræði til að bregðast við ef skyldur lögmanna samkvæmt lögum og siðareglum eru vanræktar.

Lögmenn og Lögmannafélagið hafa á undanförnum árum rækt vel aðhaldshlutverk sitt með stjórnvöldum og dómstólum og sett sig í varðstöðu fyrir réttarríkið í opinberri umræðu og er það vel. Lögmenn verða líka – eins og allir – að horfa inn á við. Vera gagnrýnir á eigin verk – greina ábyrgð sína og skyldur – og svara því hvort þeir geti gert betur. Lögmannafélaginu er falið þetta hlutverk að lögum. Opin og heiðarleg umræða um starfshætti lögmanna og hvað má gera betur er án efa eitt besta tækið sem Lögmannafélagið hefur til aðhalds.

Ég vil óska Lögmannafélaginu allra heilla í framtíðinni og góðs gengis í mikilvægum verkefnum sínum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta