Hoppa yfir valmynd
24.05.2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Stóraukin aðsókn í kennaranám

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 24. maí 2019.

Nú berast þær góðu fréttir að umsóknum fjölgi mjög um kennaranám í háskólum hér á landi. Umsóknum um framhaldsnám til kennsluréttinda í leik- og grunnskólakennaranámi við Háskóla Íslands fjölgar um 30% miðað við meðaltal síðustu fimm ára samkvæmt upplýsingum frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Þá hefur fjöldi umsókna í listkennsludeild Listaháskóla Íslands aukist um 122% frá síðasta ári, ekki síst vegna tilkomu nýrrar námsleiðar við deildina fyrir nemendur sem hafa grunngráðu í öðru en listum en vilja bæta við sig meistaranámi í kennslufræðum.

Þetta er virkilega ánægjulegt og að mínu mati enn betri vísbendingar um að við séum á réttri leið en í fyrra fjölgaði umsóknum um kennaranám verulega, bæði í Háskólanum á Akureyri, þar sem aukningin er 53% í grunnnám í kennaradeild, og við Háskóla Íslands, þar sem umsóknum um grunnskólakennaranám fjölgaði um 6% og leikskólakennaranám um 60%. Kennarastarfið er enda spennandi kostur sem býður upp á fjölbreytta starfsmöguleika og mikið starfsöryggi. Það er eftirtektarverð gróska í íslenskum skólum þessi misserin og ég finn sjálf fyrir miklum meðbyr með menntamálum og umræðunni um íslenskt skólastarf til framtíðar.

Í vor kynntum við aðgerðir sem miða að því að fjölga kennurum en í þeim felst meðal annars að frá og með næsta hausti býðst leik- og grunnskólakennaranemum á lokaári launað starfsnám. Þá geta nemendur á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi sótt um námsstyrk sem nemur alls 800.000 kr. til að sinna lokaverkefnum sínum samhliða launuðu starfsnámi. Mennta- og menningarmálaráðuneytið veitir enn fremur styrki til að fjölga kennurum með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn sem m.a. taka á móti nýjum kennurum sem koma til starfa í skólum. Umsóknum um slíkt nám hefur fjölgað um 100% milli ára samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands.

Fyrr á árinu mælti ég fyrir kennarafrumvarpinu sem snýr að menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla. Frumvarpið er í meðförum þingsins en samþykkt þess mun leiða til meiri sveigjanleika, flæðis kennara milli skólastiga og að gæði menntunar og fjölbreytileiki hennar aukist. Einnig er breytingunum ætlað að stuðla að aukinni viðurkenningu á störfum kennara og faglegu sjálfstæði þeirra ásamt því að styðja við nýliðun í kennarastétt.

Öflugt menntakerfi er forsenda framfara og það kerfi er borið uppi af kennurum sem með sínum störfum leggja grunn að annarri fagmennsku í samfélaginu. Til þess að mæta áskorunum framtíðarinnar þurfum við fjölhæfa og drífandi kennara. Það er sérlega ánægjulegt að fleiri íhugi nú að starfa á þeim vettvangi og taka þannig mikilvægan þátt í mótun framtíðarinnar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta