Hoppa yfir valmynd
08.06.2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Áfram íslenska

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 8. júní 2019.

Þingsályktunartillaga um að efla íslensku sem opinbert mál hér á landi var samþykkt með 56 samhljóða atkvæðum á Alþingi í gær. Það er sérlega gleðilegt að finna þann meðbyr sem er með tillögunni bæði á þinginu og úti í samfélaginu. Það er pólitísk samstaða um að leggja í vegferð til að vekja sem flesta til vitundar um mikilvægi þess að við höldum áfram að tala íslensku í þessu landi. Við eigum að nota okkar litríka og lifandi tungumál til allra hluta, hvort sem er í starfi eða leik.

Tungumál sem þróast
Við eigum ekki að vera feimin við íslenskuna, hún er okkar. Hún hefur þjónað Íslendingum í nær 1150 ár og hún hefur þraukað allan þennan tíma einmitt af því hún hefur óspart verið notuð. Þannig hefur hún þróast en ekki staðnað. Hún á ekki heima á safni, hún er tæki sem við eigum að nota alla daga, allan daginn til hvers kyns samskipta. Við eigum að skapa, skrifa, lesa og syngja á henni – og kannski það sem er mikilvægast: við eigum að leika okkur með hana.

Íslenska á öllum sviðum
Meginmarkmið þingsályktunarinnar sem nú hefur verið samþykkt, eru þau að íslenska verði notuð á öllum sviðum samfélagsins, að íslenskukennsla verði efld á öllum skólastigum ásamt menntun og starfsþróun kennara og að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi verði tryggð. Í ályktuninni eru tilteknar 22 aðgerðir til að ná þessum markmiðum. Þær ná til skólanna, inn á heimilin, inn í snjalltækin, til allra listgreina, út í atvinnulífið, inn í stjórnsýsluna, til ferðaþjónustunnar, inn í fjölmiðlana, til bókaútgáfunnar, inn á bókasöfnin, inn í tölvuheiminn og út á göturnar. Við viljum ná til allra, hvar sem þeir eru.

Fjölþættar aðgerðir
Nokkrum aðgerðum hefur þegar verið ýtt úr vör og má þar nefna stuðning við útgáfu bóka á íslensku en með því að endurgreiða allt að fjórðung beins kostnaðar vegna útgáfunnar er myndarlega stutt við aukið framboð á íslensku efni. Þá hefur verið settur á laggirnar nýr sjóður til að styrkja sérstaklega útgáfu barna- og ungmennabóka á íslensku en óumdeilt er að sárlega vantar meira framboð af bókum sem hæfa yngri lesendum. Nýlega var úthlutað í fyrsta sinn úr þessum sjóði til 20 verkefna. Þetta eru bækur af ólíkum toga og fyrir ýmsan aldur. Sjóðurinn sjálfur fékk nafnið Auður sem þótti vel hæfa, enda er honum ætlað að minna á raunverulegan fjársjóð þjóðarinnar, bókmenntirnar. Þjóðarsáttmáli um læsi er enn í fullu gildi og verður fram haldið af þunga. Aukin áhersla verður lögð á fræðslu til foreldra og uppalenda ungra barna um mikilvægi þess að leggja grunn að málþroska og læsi barna strax í bernsku. Þegar er búið að leggja upp með áætlun um að auka nýliðun í kennarastétt m.a. með launuðu starfsnámi og námsstyrkjum í starfstengdri leiðsögn. Fleiri tillögur sem snerta kennaranám og starfsþróun kennara eru í burðarliðnum. Þá liggja fyrir tillögur um stuðning við einkarekna fjölmiðla um miðlun efnis á íslensku. Við ætlum einnig að huga sérstaklega að þeim sístækkandi hópi sem lærir íslensku sem annað mál, bæði skólabörnum og fullorðnum innflytjendum og finna leiðir til að auðvelda þeim að ná tökum á tungumálinu. Þá leggjum við mikla áherslu á notkun íslensku í hinum skapandi greinum. Íslenskan er listræn, sama í hvaða formi listin birtist.

Altalandi snjalltæki
Til að tryggja að íslenskan verði gjaldgeng í stafrænum heimi, rafrænum samskiptum og upplýsingavinnslu sem byggist á tölvu- og fjarskiptatækni er nú unnið eftir verkáætluninni Máltækni fyrir íslensku 2018-2022. Í því felst að þróa og byggja upp tæknilega innviði sem nauðsynlegir eru til þess að brúa bil milli talmáls og búnaðar, svo sem talgreini, talgervil, þýðingarvél og málrýni/leiðréttingarforrit. Það fylgir því nokkur fyrirhöfn að tilheyra fámennri þjóð sem talar sitt eigið tungumál en við ætlum ekki að verða eftirbátar annarra sem geta notað sitt mál í samskiptum við tölvur og snjalltæki framtíðarinnar. Sjálfseignarstofnunin Almannarómur hefur verið fengin til að halda utan um þetta risavaxna verkefni sem þegar er farið af stað og er fullfjármagnað.

Allir leggja sitt af mörkum
Ég þakka þær fjölmörgu ábendingar sem borist hafa við þingsályktunartillöguna í ferli hennar í þinginu, þær gagnlegu umsagnir sem bárust og þá góðu umfjöllun sem málið fékk fengið í allsherjar- og menntamálanefnd. Við höfum hafið ákveðna vegferð og þær aðgerðir sem lagðar eru til snerta velflest svið þjóðfélagsins. Í þessu mikilvæga máli þurfa allir að leggja sitt af mörkum: stofnanir, atvinnulíf og félagasamtök – og við öll. Við getum, hvert og eitt okkar, tekið þátt í að þróa tungumálið okkar, móta það og nýta á skapandi hátt. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að íslenskan dafni og þróist svo hún megi áfram þjóna okkur og gleðja alla daga.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum