Hoppa yfir valmynd
21.11.2019 Heilbrigðisráðuneytið

Bætum heilsulæsi

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Öflug lýðheilsa er forsenda fyrir heilbrigðu og góðu samfélagi. Góð heilsa og líðan sem flestra leiðir af sér gott samfélag. Heilsulæsi er mikilvægur áhrifaþáttur góðrar heilsu, en heilsulæsi er í stuttu máli geta fólks til að taka upplýstar ákvarðanir um eigið heilsufar. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, skilgreinir heilsulæsi á eftirfarandi hátt: Heilsulæsi gerir fólki kleift að taka jákvæðar ákvarðanir. Það felur í sér ákveðið stig þekkingar, persónulega færni og sjálfstraust til að grípa til aðgerða til að bæta heilsu einstaklinga og samfélagshópa með því að breyta persónulegum lifnaðarháttum og lífsskilyrðum. Þannig þýðir heilsulæsi meira en til dæmis að geta lesið bæklinga og pantað tíma.

Heilsulæsi er lykiþáttur í því að við náum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Bætt heilsulæsi leiðir líka til aukins jöfnuðar til heilsu, því það leiðir til þess að allir samfélagshópar hafi aðgang að og getu til að nota heilsufarsupplýsingar á skilvirkan hátt.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur tekið saman aðgerðir sem stjórnvöld geta gripið til til þess að stuðla að bættu heilsulæsi. Þær aðgerðir eru til dæmis efling lýðheilsu, að tryggja greiðan aðgang að upplýsingum um heilsueflingu, forvarnir, meðferð og áhrifaþætti heilsu. Hlutverk samfélaga í þessu samhengi er að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa þar sem holla valið er auðvelda valið. Félagasamtök  geta einnig haft áhrif, til dæmis með því að hvetja og styðja við heilsuhegðun einstaklinga og skapa aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum og höfða til minnihlutahópa.

Undir Embætti landlæknis heyra ýmis verkefni sem eru til þess fallin að efla heilsulæsi. Verkefnið Heilsueflandi samfélag hefur til dæmis þann tilgang að efla lýðheilsu og felst í því að sveitarfélög, landsfjórðungar, sýslur eða hverfi vinni skipulega að því að heilsa og líðan allra íbúa sé höfð í fyrirrúmi í allri stefnumótun. Önnur verkefni sem falla undir verksvið Embættis landlæknis sem stuðla að bættu heilsulæsi eru til dæmis heilsueflandi skólar og söfnun lýðheilsuvísa.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að leggja skuli áherslu á forvarnir og lýðheilsu og ég hef  lagt sérstaka áherslu á það í embætti heilbrigðisráðherra að tryggja framgang verkefna á því sviði, til dæmis með því að efla geðheilbrigðisþjónustu og leggja áherslu á geðrækt, vímuvarnir og skaðaminnkun. Með því að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu og efla heilsulæsi drögum við úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið, stuðlum að góðri heilsu og lífsgæðum landsmanna og tryggjum góða heilbrigðisþjónustu til framtíðar.

Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 21. nóvember 2019

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum