Hoppa yfir valmynd

A 283/2008 Úrskurður frá 29. júlí 2008

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 29. júlí 2008 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-283/2008.

 

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 25. mars 2008, kærði [...], synjun Borgarskjalasafns á að veita honum aðgang að gögnum á nafni föður hans vegna fjárhagsaðstoðar við hann.

 

Af gögnum málsins og samkvæmt svörum Borgarskjalasafns til úrskurðarnefndarinnar verður ráðið að 4. september 2007 hafi Velferðarsvið Reykjavíkurborgar sent erindi til Borgarskjalasafns þar sem óskað var eftir öllum skjölum varðandi barnaverndarmál kæranda. Var þar sérstaklega óskað eftir skjölum varðandi kæranda og fjölskyldu hans á árunum 1954-1970. Skjölin voru afhent Velferðarsviði 12. september og sá það um afgreiðslu gagnanna til kæranda.

 

Þann 31. október 2007 fór kærandi þess á leit við Borgarskjalasafn sjálft að það afhenti sér afrit af öllum gögnum varðandi afskipti Barnaverndarnefndar Reykjavíkur af sér og fjölskyldu sinni á árunum 1954-1970. Við leit fundust engar frekari upplýsingar en þegar höfðu verið afhentar Velferðarsviði. Kærandi lét safninu í té ákveðnar viðbótarupplýsingar með tölvupósti 20. desember. Fór í kjölfar þess fram ítarlegri leit í skjölum safnsins. Formleg afgreiðsla Borgarskjalasafns á beiðni hans um gögn barst honum síðan með bréfi safnsins, dags. 4. mars 2008. Í því segir m.a. svo:

 

„Þrátt fyrir ítarlega endurtekna leit höfum við haft uppi á takmörkuðum upplýsingum varðandi afskipti barnaverndar­yfirvalda af fjölskyldu þinni.

Í spjaldskrá Barnaverndarnefndar fannst spjald  yfir mál föður og móður, þar sem vísað var í tvær lögregluskýrslur og í gjörðabók nefndarinnar. Afrit þess fylgir hér. Að auki fannst heimilisyfirlitsskýrsla frá 1956. Hún var óskráð í skjalasafni nefndarinnar og fannst við handvirka leit í gegnum skýrslur nefndarinnar.

Í hluta skjalanna er fjallað um einkamálefni annarra einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Veittur er aðgangur að þeim skjölum en nöfn og auðkenni hafa verið afmáð sbr. 7. gr. upplýsingalaga.

Ekkert mál fannst um bróður og afskipti af fjölskyldunni eftir 1956. Haft var samband við Velferðarsvið og fannst hvorki barnaverndarmál á þig né foreldra þar. Mál fannst á Borgarskjalasafni á nafni föður vegna fjárhagsaðstoðar við fjölskyldu þína. Synjað er um aðgang að þeim gögnum þar sem um er að ræða gögn um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari.“

 

Kæra máls þessa beinist að þeirri synjun sem fram kemur í tilvitnuðu bréfi.

 

 

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 2. apríl 2008, var kæran kynnt Borgarskjalasafni og safninu gefinn frestur til 11. sama mánaðar til að koma á framfæri frekari rökum fyrir ákvörðun sinni og til að láta nefndinni í té afrit af öllum gögnum málsins. Bréf nefndarinnar barst Borgarskjalasafni fyrst þann 9. apríl og var með vísan til þess gefinn lengri svarfrestur. Svar Borgarskjalasafns barst úrskurðarnefndinni 28. apríl með ódagsettu bréfi. Í því kemur fram að á Borgarskjalasafni hafi fundist mál á nafni föður kæranda vegna fjárhagsaðstoðar Félagsmálastofnunar við hann. Synjað hafi verið um aðgang að þeim gögnum með vísan til 5. gr. upplýsingalaga. Kemur fram í bréfinu að gögnin sem um var beðið hafi að geyma upplýsingar um fjárhagsmálefni föður  kæranda sem telja megi einkamál hans og sem réttur kæranda sem lögerfingja nái ekki til. Úrskurðarnefndin veitti kæranda kost á að tjá sig um svar Borgarskjalasafns með bréfi, dags. 2. maí sl. Athugasemdir hans bárust með bréfi, dags. 14. sama mánaðar.

 

Með bréfi, dags. 3. júní, tilkynnti úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæranda að það væri meðal annars til athugunar vegna meðferðar á kærumáli hans hvort Borgarskjalasafni hefði verið rétt að afgreiða beiðni hans skv. III. kafla upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 9. gr. þeirra laga, á þeim grundvelli að þau gögn sem um ræddi í málinu teldust innihalda upplýsingar um hann sjálfan. Með vísan til þessa veitti úrskurðarnefndin kæranda kost á að láta henni í té frekari upplýsingar, en þegar hefðu fram komið, um tilgang upplýsingabeiðninnar, þannig að hægt væri að leggja mat á þá hagsmuni, fjárhagslega eða eftir atvikum af öðrum toga, sem kærandi hefði af því að fá gögnin í hendur. Erindi þetta var ítrekað 26. júní. Svar kæranda barst úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 7. júlí. Kemur þar fram að kærandi hafi ekki frekari upplýsingar um málið fram að færa. Hins vegar áréttar hann að hann telji sig hafa rétt til upplýsinganna þar sem hann hafi í æsku notið, beint eða óbeint, þeirrar aðstoðar sem faðir hans hafi þegið. Auk þess segir hann ástæður sínar fyrir ósk um upplýsingar vera persónulegar og lúta að þekkingu á eigin fortíð, foreldrum og sögu.

 

 

Niðurstaða

 

1.

Í III. kafla upplýsingalaga er kveðið á um aðgang aðila að upplýsingum um hann sjálfan. Sé litið til orðalags 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga virðist í ákvæðinu gert ráð fyrir að þau gögn sem um er beðið þurfi að innihalda upplýsingar sem beinlínis lúta að viðkomandi aðila sjálfum. Að túlkun þessa ákvæðis hefur verið vikið í nokkrum úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. úrskurði í málum A-21/1997, A-56/1998, A-106/2000 og A-182/2004. Í athugasemdum með 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga sem fylgdu frumvarpi til laganna segir að ákvæðið sé byggt á áður óskráðri meginreglu um rétt einstaklinga til aðgangs að gögnum sem  séu í vörslu stjórnvalda og varði þá sérstaklega, enda standi reglur um þagnarskyldu því ekki í vegi. Með vísan til þessa hefur úrskurðarnefnd skýrt 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga svo að undir greinina falli ekki einvörðungu þau tilvik þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum með upplýsingum um sig sjálfan, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingarnar varða hann sjálfan, þannig að hann hafi einstaklega hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnunum. Ber þó að hafa í huga, sbr. dóm Hæstaréttar frá 19. október 2000, í máli nr. 330/2000, að mikilvægt er að gera skýran greinarmun á upplýsingarétti almennings skv. II kafla upplýsingalaga og upplýsingarétti aðila skv. III. kafla laganna. Hinn ríki réttur aðila til aðgangs að gögnum er undantekning frá hinni almennu reglu laganna um rétt almennings. Því verður að vera hafið yfir  vafa að sá sem fer fram á aðgang að gögnum teljist aðili í skilningi 9. gr. upplýsingalaga svo leyst verði úr beiðni hans á grundvelli þeirrar greinar.

 

Þau gögn sem Borgarskjalasafn Reykjavíkur hefur synjað kæranda um aðgang að fjalla ekki með beinum hætti um hann sjálfan, heldur föður hans. Að mjög óverulegu leyti er í gögnunum að finna upplýsingar um móður hans. Í kæru hefur kærandi vísað til þess að hann telji eðlilegt að hann fái umræddar upplýsingar um fjárhagsaðstoð við föður sinn, enda séu báðir foreldrar hans látnir og eðlilegt að hann sem „einn lögerfingi þeirra og (ó)beinn aðnjótandi umræddrar aðstoðar fái umbeðinn aðgang“. Í bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. maí 2008, bendir kærandi á að hann sé lögerfingi og að fjárhagsmálefni foreldra hans í æsku hafi af augljósum ástæðum haft áhrif á líf hans. Tekur kærandi fram að honum hafi verið fullkunnugt um að bág fjárhagsstaða hafi verið uppi hjá föður hans. Hafi hann nú aðeins óskað upplýsinga sem staðfesti það, og leiðrétti hugsanlegan misskilning af sinni hálfu. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til kæranda, dags. 3. júní 2008, veitti hún honum kost á að lýsa frekar hagsmunum sínum af því, umfram aðra, að fá aðgang að umbeðnum gögnum. Athugasemdir hans af því tilefni bárust nefndinni með bréfi, dags 7. júlí sama ár.

 

Það leiðir af eðli máls að einstaklingar búa almennt yfir nokkurri vitneskju um fjárhag og heilsufar foreldra sinna. Þeim kann einnig að varða það nokkru að fá slíkar upplýsingar í hendur, séu þær fyrirliggjandi, enda kunna þær m.a. að varpa ljósi á aðstæður í uppvexti þeirra. Almennt verður þó ekki talið að einstaklingar hafi af því lögvarða hagsmuni umfram aðra að fá aðgang að slíkum upplýsingum í fórum stjórnvalda þótt undantekningar kunni vissulega að vera frá slíku, s.s. vegna erfða eða annarra sérgreindra og fyrirliggjandi atvika. Í máli þessu hefur kærandi ekki sýnt fram á að hann hafi af því lögvarða hagsmuni umfram aðra að fá aðgang að þeim gögnum sem Borgarskjalasafn hefur synjað honum um aðgang að. Hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál í þessu sambandi bæði litið til efnis þeirra gagna sem um ræðir og þeirra aðstæðna og röksemda sem kærandi hefur fært fram til stuðnings þess að honum beri að fá aðgang að umræddum gögnum. Þar af leiðandi ber að leysa úr beiðni hans á grundvelli II. kafla upplýsingalaga.

 

2.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að  veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, en þó með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. Á þessum grundvelli tók Borgarskjalasafn hina kærðu ákvörðun og synjaði kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum á grundvelli 5. gr. laganna. Úrskurðarnefndin hefur fengið gögn málsins í hendur. Fela þau í sér upplýsingar um fjárhagsmálefni föður kæranda og heilsufar. Að mjög óverulegu leyti er einnig vikið í gögnum málsins að heilsufari móður hans. Þær upplýsingar sem fram koma í gögnunum eru þess eðlis að rétt var að takmarka  rétt almennings til aðgangs að þeim á grundvelli fyrri málsl. 5. gr. upplýsingalaga. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð

Staðfest er sú ákvörðun Borgarskjalasafns að synja kæranda, [...], um aðgang að gögnum á nafni föður hans vegna fjárhagsaðstoðar við hann.

 

 

 

Friðgeir Björnsson, formaður

 

 

 

 

                              Sigurveig Jónsdóttir                                                              Trausti Fannar Valsson
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum