Hoppa yfir valmynd

A 291/2008 Úrskurður frá 19. desember 2008

ÚRSKURÐUR

Hinn 19. desember 2008 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. 291/2008.

 

Kæruefni

Með erindi, dags. 28. apríl 2008, kærði [...] viðbrögð og svör prófasts [X-prófastsdæmis], biskups Íslands, starfsfólks [Y-kirkju] og starfsfólks Biskupsstofu við beiðni hans um upplýsingar. Kæruefnið hefur verið afmarkað nánar undir meðferð málsins eins og nánar kemur fram síðar í úrskurðinum, fyrst og fremst kafla 2 í niðurstöðum, og beinist nú aðeins að ákvörðunum biskups Íslands og Biskupsstofu fyrir hans hönd.

Málsatvik
Með bréfi, dags. 25. febrúar 2008 óskaði kærandi eftir því við sr. [A], prófast [X-prófastsdæmis], að hann léti sér í té staðfestingu á því hvort skírn dóttur hans hefði átt sér stað tiltekinn dag í kirkju í prófastsumdæmi [A] og öll gögn þar að lútandi. Í bréfinu óskaði hann enn fremur upplýsinga um ábyrgð, skyldu og hlutverk skírnarvotta og svara við fleiri tilgreindum spurningum. Þessu bréfi svaraði prófastur með bréfi, dags. 4. mars. Þar kemur fram að hann hafi ekki undir höndum gögn um embættisverk annarra presta, heldur séu þau send til Þjóðskrár, og þau eigi kærandi rétt á að fá í hendur. Kærandi ritaði í framhaldinu bréf til úrskurðarnefndar Þjóðkirkjunnar, dags. 18. mars 2008, þar sem kvartað var undan því að prófastur hefði ekki afhent honum umbeðin gögn.

Kærandi ritaði bréf til biskups Íslands, dags. 1. apríl, þar sem hann fór fram á að biskupsembættið afhenti honum öll gögn varðandi umrædda skírn. Þá fór kærandi fram á það við Biskupsstofu, með bréfi dags. 14. apríl, að fá að kynna sér öll gögn Þjóðkirkjunnar um Vinaleiðina, kristilega sálgæslu annars vegar og aðgang að öllum skjölum og gögnum sem vörðuðu hann sjálfan og dóttur hans hins vegar, og að lokum ritaði kærandi bréf til [Y-kirkju], dags. 15. apríl, þar sem hann óskaði aðgangs að öllum gögnum vegna skírnar dóttur hans.  

Svar barst kæranda frá biskupi, dags. 3. apríl 2008. Kom þar fram að þar sem málið hefði verið kært til úrskurðarnefndar kirkjunnar væri ekki unnt að svara málaleitan hans á meðan málið væri í þeim farvegi. Eins og fyrr segir er kæran til úrskurðarnefndarinnar dags. 28. apríl. Í kærunni kemur fram að kæranda hafi hvorki borist svör við erindi til Biskupsstofu, dags. 14. apríl, né erindi til [Y-kirkju], dags. 15. apríl. Í kærunni kemur einnig fram að úrskurðarnefnd Þjóðkirkjunnar hafi þann 14. apríl vísað frá máli hans á hendur prófasti [X-prófastsdæmis].

 


Málsmeðferð

Í upphafi afmarkaði kærandi kæru sína á fremur víðtækan hátt, auk þess sem athugasemdir hans beindust að fleiri þáttum en synjunum stjórnvalda á beiðnum hans um aðgang að fyrirliggjandi gögnum. Af því tilefni ritaði úrskurðarnefndin honum bréf, dags. 30. apríl 2008, sbr. leiðbeiningarreglu 7. gr. og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem óskað var eftir nánari afmörkun á kæruefnum.

Í svarbréfi kæranda, dags. 1. júní 2008, kemur fram að þau atriði sem hann óski eftir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál taki til umfjöllunar séu: „1. Svör eða skortur á svörum vegna erindis til biskups 1. apríl 2008. 2. Skortur á svörum vegna erindis til Biskupsstofu 14. apríl.“ Um fyrrnefnda atriðið tekur kærandi fram að hann óski þess að biskup afhendi honum öll gögn varðandi skírn dóttur hans. Tekur hann fram að hann óski þess að fá upplýsingar um hvar skírnin sé skráð, hvenær, hvernig og af hverjum. Þá óskar kærandi afrita af öllum skráningum, svo sem í kirkjubók og manntalsbók, auk þess sem hann óskar upplýsinga og gagna um skírnarvotta og staðfestingu forsjáraðila á heimild til skírnar. Að lokum óskar kærandi upplýsinga um ábyrgð, skyldu og hlutverk skírnarvotta og um skilning þjóðkirkjunnar á skírninni. Um síðarnefnda atriðið tekur kærandi fram að hann óski þess að kynna sér öll gögn þjóðkirkjunnar um vinaleiðina svonefndu, auk allra gagna sem varða hann sjálfan og dóttur hans.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kynnti Biskupsstofu framkomna kæru, með bréfi, dags. 11. júlí. Beindi úrskurðarnefndin þeim tilmælum til Biskupsstofu, að ef beiðni kæranda hefði ekki þegar verið afgreidd, yrði tekin ákvörðun um beiðni hans, svo fljótt sem við yrði komið, og eigi síðar en 25. júlí. Kysi stofnunin að synja framkominni beiðni óskaði nefndin eftir því að henni yrðu látin í té afrit af gögnum málsins og athugasemdir við framkomna kæru innan sömu tímamarka.

Svar Biskupsstofu barst úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 18. júlí 2008. Í gögnum sem fylgdu bréfinu kom fram að með bréfi til Biskupsstofu, dags. 5. maí 2008, hefði kærandi óskað eftir að fá afrit af vígslubréfi sr. [B] og upplýsingar um kjarasamning, mánaðarlaun og launatengd gjöld og hlunnindi sr. [B] „sem „skólaprests“ veturinn 2006-7“ og hver hafi greitt hvað af þeim launum.

Í sama bréfi Biskupsstofu til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að stofnunin hafi sent kæranda öll gögn sem varði mál hans og vistuð séu í skjalasafni Biskupsstofu. Gögn sem varði skírn dóttur hans [í sveitarfélaginu Y] séu ekki vistuð í skjalasafninu og ekki starfslýsing vegna starfs sr. [B] við grunnskóla í [Z-prestakalli] veturinn 2006-2007. Þá sé hafnað beiðni kæranda um upplýsingar um kjarasamning, laun og launatengd gjöld sr. [B], en kæranda bent á að kynna sér úrskurði Kjararáðs um laun presta sem birtir séu á heimasíðu ráðsins. Af afritum bréfa til kæranda sem fylgdu svari Biskupsstofu til úrskurðarnefndarinnar verður ráðið að stofnunin hafi tilkynnt kæranda þessa afstöðu formlega, auk þess að stofnunin hafnaði því sérstaklega í bréfi til kæranda, dags. 15. júlí, að veita honum afrit af vígslubréfi sr. [B] en afhenti honum í staðinn staðlað form af vígslubréfi prests. Af gögnum málsins verður einnig ráðið að með öðru bréfi, dags. sama dag, hafi verið fallist á beiðni kæranda um afhendingu afrits af öllum úrskurðum úrskurðarnefndar og áfrýjunarnefndar Þjóðkirkjunnar frá upphafi og til og með árinu 2005.

Með bréfi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 25. júlí, tilkynnti kærandi að sér hefði borist bréf frá Biskupsstofu, dags. 15. júlí, ásamt tilteknum gögnum og lista yfir málsgögn. Þrátt fyrir fullyrðingu Biskupsstofu hefðu sér ekki borist tilgreind átta gögn. Í bréfinu tekur kærandi fram að hann geri sérstakar athugasemdir við að hafa ekki fengið afrit af vígslubréfi sr. [B] og að hann hafi ekki fengið upplýsingar um kjarasamning, laun og launatengd gjöld sr. [B]. Þá segist kærandi efast um að hann hafi fengið aðgang að öllum gögnum um vinaleiðina. Bendir hann í því sambandi á að hann hafi engin gögn fengið um samskipti eða samning milli kirkjunnar annars vegar og bæjaryfirvalda í [sveitarfélaginu Z] hins vegar, eða einstakra skóla í [sveitarfélaginu Z] (og [í sveitarfélaginu Þ]) eða menntamálaráðuneytisins. Þá óskar hann afstöðu úrskurðarnefndar til þess hvort Biskupsstofa og einstakar sóknir séu sama stjórnvald í skilningi laga, eða hvort honum beri að senda sérstakar beiðnir um aðgang að gögnum til einstakra sókna.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál ritaði Biskupsstofu bréf, dags. 24. september 2008, þar sem óskað var upplýsinga um það hvort þau gögn sem væru tilgreind í bréfi kæranda lægju fyrir í skjalasafni stofnunarinnar, og ef svo væri hvort stofnunin teldi rétt að afhenda þau.

Svar barst úrskurðarnefndinni með bréfi Biskupsstofu, dags. 1. október 2008. Af gögnum sem fylgdu bréfinu verður ráðið að 25. júlí 2008 hafi kærandi sent Biskupsstofu samhljóða bréf og hann sendi úrskurðarnefndinni þann sama dag. Við því bréfi hafi Biskupsstofa brugðist 2. ágúst og afhent honum þau tilgreindu átta gögn sem áður áttu að hafa verið afhent honum skv. skýringum stofnunarinnar. Í bréfi Biskupsstofu kemur að auki fram að stofnunin hafi hafnað beiðni kæranda um afrit af vígslubréfi sr. [B]. Vígslubréf sé persónulegt gagn viðkomandi prests og þurfi kærandi því að snúa sér til hans með ósk um að fá afhent afrit þess. Biskupsstofa hafi þegar látið af hendi staðlað eintak af eyðublaði vígslubréfs. Þá kemur fram í bréfinu að grunnlaun presta séu skv. úrskurði kjararáðs 473.549 kr. Sóknarprestar og prestar, sem starfi í prestaköllum, fái einnig greiddar einingar og fari fjöldi þeirra eftir íbúafjölda í viðkomandi prestakalli. Vísar stofnunin nánar til úrskurðar Kjararáðs frá 27. ágúst 2008. Þá kemur fram í bréfinu að kæranda hafi þegar verið afhent öll gögn sem Biskupsstofa hafi um verkefnið „Vinaleiðina“, og að stofnunin hafi ekki vitneskju um samninga eða samkomulag milli Biskupsstofu og bæjaryfirvalda í [sveitarfélaginu Z] eða einstakra skóla í [sveitarfélaginu Z] og [í sveitarfélaginu Þ].

Með vísan til framangreinds er niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál eins og hér segir.

 

Niðurstaða


1.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 taka þau til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Í athugasemdum sem fylgdu umræddu ákvæði í frumvarpi því sem síðan varð að upplýsingalögum er þetta orðalag skýrt svo að lögin taki „til þeirrar starfsemi sem heyrir undir framkvæmdarvaldið samkvæmt þrískiptingu ríkisvaldsins.“

Af 1. gr. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, leiðir að þjóðkirkjan telst sjálfstætt trúfélag, sem nýtur sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu innan lögmæltra marka, sbr. 1. mgr. 2. gr. sömu laga. Það leiðir engu að síður af tengslum ríkisvaldsins og þjóðkirkjunnar, sbr. ekki síst 1. mgr. 62. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, að stofnanir og embætti þjóðkirkjunnar teljast til handhafa framkvæmdarvalds a.m.k. að því leyti sem þeim er falið opinbert vald. Með vísan til þessa taka ákvæði upplýsingalaga nr. 50/1996 til stjórnsýslu þjóðkirkjunnar, a.m.k. að því leyti sem henni er falið opinbert vald.
 
Samkvæmt 6. gr. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, fer biskup Íslands með yfirstjórn þjóðkirkjunnar ásamt öðrum kirkjulegum stjórnvöldum eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögunum. Í 1. mgr. 10. gr. laganna kemur enn fremur fram að biskup fylgi eftir reglum er kirkjuþing setur, samþykktum kirkjuþings og markaðri stefnu þess og prestastefnu og hafi ákvörðunarvald um einstök mál, nema þau heyri undir önnur stjórnvöld þjóðkirkjunnar samkvæmt lögunum. Í lögunum er ekki sérstaklega mælt fyrir um tilvist eða starfsemi Biskupsstofu. Slík fyrirmæli var hins vegar að finna í eldri lögum, sbr. 37. gr. laga nr. 62/1990, um skipan prestakalla o.fl., en þar kom fram að embættisskrifstofa biskups, biskupsstofa, skyldi vera í Reykjavík og annast vörslu og reikningshald sjóða og annarra eigna þjóðkirkjunnar. Byggja verður á því að stofnunin hafi, að því leyti sem hér skiptir máli, enn sambærilega stöðu innan stjórnsýslu þjóðkirkjunnar, en skv. upplýsingum á heimasíðu stofnunarinnar er hún embættisskrifstofa biskups, auk þess að sinna skrifstofustörfum fyrir Kirkjuráð og kirkjuþing.

Af atvikum málsins, þeirri kæru sem er til úrskurðar og þeirri löggjöf sem gildir um starfsemi þjóðkirkjunnar leiðir að ákvarðanir þær sem teknar hafa verið í máli þessu af hálfu Biskupsstofu um aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga teljast teknar fyrir hönd biskups og á stjórnsýslulegri ábyrgð hans. Þrátt fyrir að kæra sú sem til umfjöllunar er í máli þessu beinist þannig annars vegar að biskupi Íslands og að Biskupsstofu hins vegar ber að leysa úr kærunni með þeim hætti að kærunni sé beint að einum og sama aðilanum, biskupi Íslands, og Biskupsstofu fyrir hans hönd.

 

2.

Af erindum kæranda til úrskurðarnefndar um upplýsingamál verður ráðið að athugasemdir hans, eins og þær hafa verið afmarkaðar við meðferð málsins, beinast að eftirtöldum atriðum: Í fyrsta lagi að svörum, eða skorti á svörum, vegna erindis til biskups, dags. 1. apríl 2008. Lúta þær í grundvallaratriðum að því að kæranda hafi ekki verið afhent öll gögn varðandi skírn dóttur hans, hvar skírnin sé skráð, hvenær, hvernig og af hverjum, auk afrita af skráningum í kirkjubók og manntalsbók, gagna og upplýsingar um skírnarvotta og staðfestingu forsjáraðila á heimild til skírnar. Í öðru lagi beinast athugasemdir kæranda, sbr. einnig bréf kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. júní 2008, að skorti á svörum við erindi hans til Biskupsstofu, dags. 14. apríl. Lúta þær athugasemdir sérstaklega að því að honum hafi ekki verið afhent öll gögn stofnunarinnar um vinaleiðina svonefndu. Í bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. júlí, áréttar kærandi þessar athugasemdir. Í þriðja lagi beinast athugasemdir kæranda að því, sbr. bréf til úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. júlí, að honum hafi verið synjað um aðgang að vígslubréfi sr. [B], og í fjórða lagi, sbr. athugasemdir í sama bréfi, að hann hafi ekki fengið fullnægjandi upplýsingar um kjarasamning, laun og launatengd gjöld sr. [B].

Verður nú fjallað sérstaklega um hvert framangreindra atriða.

 

3.

Kæra máls þessa beinist að því í fyrsta lagi, sbr. framangreint, að stjórnvöld hafi ekki látið kæranda í té umbeðin gögn varðandi skírn dóttur hans. Réttur samkvæmt upplýsingalögum felur í sér rétt til aðgangs að gögnum sem eru fyrirliggjandi hjá stjórnvöldum og teljast hluti máls, sbr. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga, og á það við hvort sem beiðni um aðgang grundvallast á rétti almennings til aðgangs að gögnum skv. 3. gr. eða rétti aðila sjálfs til aðgangs að upplýsingum um hann sjálfan skv. 9. gr. laganna. Af hálfu Biskupsstofu hefur komið fram að stofnunin hafi þegar afhent kæranda öll þau gögn sem varði mál hans og vistuð séu í skjalasafni stofnunarinnar. Gögn sem varði skírn dóttur hans [í sveitarfélaginu Y] séu ekki vistuð í skjalasafni stofnunarinnar. Gögn málsins gefa ekki ástæðu til að draga þá fullyrðingu stofnunarinnar í efa.

Samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Hið sama gildir um synjun stjórnvalds um að veita ljósrit af skjölum eða afrit af öðrum gögnum. Eins og rakið hefur verið liggja ekki frekari gögn fyrir í skjalasafni Biskupsstofu um skírn á dóttur kæranda en honum hafa þegar verið afhent. Ber af þeirri ástæðu að vísa þessum þætti kærunnar frá úrskurðarnefndinni.

 

4.

Kæra málsins beinist að því í öðru lagi að stjórnvöld hafi ekki afhent kæranda fullnægjandi gögn og upplýsingar um hina svonefndu „Vinaleið“. Í gögnum málsins kemur ekki skýrlega fram að hvaða gögnum eða máli umræddri beiðni er beint. Samkvæmt lýsingu verkefnisstjóra fræðslusviðs Biskupsstofu, dags. 17. mars 2006, sem fyrir liggur í gögnum málsins, kemur á hinn bóginn fram að á kirkjuþingi 2003 hafi verið samþykkt ályktun um þjónustu á vegum kirkjunnar sem nefnd hafi verið „Vinaleið.“ Þar kemur einnig fram að um sé að ræða sálgæslu og forvarnarstarf í grunnskólum sem sé hugsað sem hluti af safnaðarstarfi kirkjunnar og skólum boðin á hverjum stað. Með hliðsjón af fyrirspurnum kæranda, sem og viðbrögðum Biskupsstofu við þeim, verður hér á því byggt að fyrirspurnir kæranda og beiðnir um gögn lúti að þessu leyti að upplýsingum um framkvæmd umrædds verkefnis sem á rætur í samþykkt kirkjuþings árið 2003.

Af hálfu Biskupsstofu er fram komið, sbr. bréf stofnunarinnar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 1. október 2008, að kæranda hafi verið afhent öll gögn sem Biskupsstofa hafi um verkefnið „Vinaleiðina“. Gögn málsins gefa ekki ástæðu til að draga þá fullyrðingu stofnunarinnar í efa. Með hliðsjón af því ber að vísa þessum þætti í kæru málsins frá úrskurðarnefndinni.

Tekið skal fram að í þessari afstöðu úrskurðarnefndarinnar felst ekki afstaða til þess hvort hjá öðrum aðilum, sem eftir atvikum falla undir gildissvið upplýsingalaga, kunni að liggja fyrir frekari upplýsingar um framkvæmd vinaleiðarverkefnisins, s.s. hjá einstökum sveitarfélögum vegna aðkomu viðkomandi grunnskóla að verkefninu eða hjá einstökum prestum, né afstaða til þess hvort slík gögn ættu að liggja fyrir hjá Biskupsstofu, biskupi sjálfum eða Kirkjuráði. Aðeins skal á það bent að ekki verður séð að lög nr. 78/1997 leggi með beinum hætti þær skyldur á herðar þessum aðilum að gæta að því að öll gögn sem til verða vegna verkefna presta liggi fyrir með aðgengilegum hætti í miðlægu skjalasafni á vegum Þjóðkirkjunnar.

 

5.

Í þriðja lagi beinist kæra máls þessa að synjun Biskupsstofu á því að láta kæranda í té afrit af vígslubréfi sr. [B]. Hefur Biskupsstofa byggt synjun sína á þeirri forsendu að slíkt bréf sé persónulegt gagn viðkomandi prests og þurfi kærandi því að snúa sér til hans til að fá afhent ljósrit þess.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, er biskupi Íslands að lögum falið það verkefni að vígja presta og setja þeim vígslubréf. Verður ekki annað séð en að hér sé um að ræða lögbundið verkefni biskups sem teljist til stjórnsýslu í skilningi 1. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fékk afhent afrit af vígslubréfi sr. [B] 18. desember 2008. Í því skjali koma engar tilteknar upplýsingar fram um einkahagi hans sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sbr. 5. gr. upplýsingalaga. Ekki verður séð að önnur þau atriði séu fyrir hendi sem leitt geti til þess að undantekningarreglur 4. eða 6. gr. sömu laga eigi við í málinu.

Með vísan til þessa og atvika málsins að öðru leyti er það afstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að Biskupsstofu beri að afhenda kæranda afrit af vígslubréfi sr. [B].

 

6.

Í fjórða lagi beinist kæra málsins að synjun Biskupsstofu á beiðni um upplýsingar um kjarasamning, laun og launatengd gjöld sr. [B]. Nánar tiltekið var beðið um upplýsingar um „kjarasamning, mánaðarlaun og launatengd gjöld og hlunnindi sr. [B] sem „skólaprests“ veturinn 2006-7“. Af öðrum gögnum málsins verður ráðið að beiðni þessi lýtur að upplýsingum um launakjör sr. [B] við vinnu við áður nefnda vinaleið. Þessari beiðni synjaði Biskupsstofa með bréfi, dags. 15. júlí 2008, en þar segir m.a. svo: „Hvað varðar upplýsingar um laun sr. [B] hefur verið ákveðið að hafna þeirri beiðni. Bent skal á að upplýsingar um laun presta er að finna í úrskurðum Kjararáðs sem hægt er að skoða á heimasíðu ráðsins“. Í bréfi stofnunarinnar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 1. október 2008, kemur fram að grunnlaun presta séu skv. úrskurði Kjararáðs 473.549 kr. Sóknarprestar og prestar, sem starfi í prestaköllum, fái einnig greiddar einingar og fari fjöldi þeirra eftir íbúafjölda í viðkomandi prestakalli. Vísar stofnunin nánar til úrskurðar Kjararáðs frá 27. ágúst 2008.

Í upplýsingum sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál aflaði frá Biskupsstofu 18. desember 2008 kemur fram að þeir prestar og/eða djáknar sem unnið hafa í grunnskólum sveitarfélaga að vinaleiðinni svonefndu hafi ekki verið ráðnir til þeirra starfa af biskupi, Kirkjuráði eða Biskupsstofu og hafi því ekki fengið greidd laun frá þeim aðilum. Hjá Biskupsstofu liggi því ekki fyrir ráðningarsamningar vegna vinnu við þessi verkefni eða gögn um launagreiðslur vegna þeirra. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekki ástæðu til að draga þessa fullyrðingu í efa. Af þeim sökum ber að vísa þessum þætti málsins frá úrskurðarnefndinni.

Tekið skal fram að samkvæmt upplýsingum sem fram hafa komið af hálfu Biskupsstofu við meðferð málsins má ráða að laun þeirra sem starfað hafa við vinaleiðina svonefndu hafi almennt verið greidd af viðkomandi sveitarfélagi eða viðkomandi sókn. Ekki verður talið útilokað að kærandi eigi kost á að afla umræddra upplýsinga frá þeim aðilum.


 

Úrskurðarorð

Kæru [...], á hendur Biskupi Íslands og Biskupsstofu er vísað frá að öðru leyti en því að Biskupsstofu ber að afhenda honum afrit af vígslubréfi sr. [B].

 

Friðgeir Björnsson
formaður

 


                                   Sigurveig Jónsdóttir                                                       Trausti Fannar Valsson.
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum