Hoppa yfir valmynd

A-341/2010. Úrskurður frá 7. júlí 2010

 

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 7. júlí 2010 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-341/2010.

 

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 8. júní sl., kærði [...] afgreiðslu Reykjavíkurborgar, Borgarskjalasafns Reykjavíkur, á beiðni hans um afrit gagna í fórum safnsins um afskipti barnaverndaryfirvalda af honum og vegna dvalar hans sem barn að [vistheimilinu X].

 

Í kæru rekur kærandi að honum hafi verið afhentar upplýsingar um manneskju honum óviðkomandi og af þeim sökum óski hann allra gagna sem til eru á safninu um hann og foreldra hans. Þá telur hann ljósritun gagna, sem þegar hafa verið afhent honum, ábótavant og óskar eftir þeim aftur, betur unnum.

  

Málsmeðferð

Eins og fram hefur komið barst kæra máls þessa til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með bréfi, dags. 8. júní sl. Var kæran send Borgarskjalasafni Reykjavíkur með bréfi, dags. 10. júní, og því veittur frestur til 21. júní til að gera athugasemdir við hana. Óskaði úrskurðarnefndin jafnframt eftir því að sér yrðu látin í té afrit af umbeðnum gögnum innan sama frests. Var frestur veittur til 23. júní og bárust athugasemdir safnsins þann sama dag. Í þeim kemur m.a. fram að engar upplýsingar umfram þær sem afhentar hafa verið kæranda hafi fundist í fórum safnsins.

 

Með athugasemdunum bárust gögn málsins þ.á m. bréf Borgarskjalasafns Reykjavíkur til kæranda, dags. 21. júní, þar sem m.a. kemur fram að kærandi hafi fengið afhent afrit gagna um manneskju honum óviðkomandi, er það harmað og kærandi beðinn um að skila safninu afritunum. Er í bréfinu rakið að mistök hafi væntanlega átt sér stað við skjalavistun málsins fyrir tæpri hálfri öld. Gögn nöfnu móður kæranda voru fyrir mistök vistuð ásamt gögnum sem vörðuðu móður kæranda. Kærandi var með bréfi Borgarskjalasafns Reykjavíkur beðinn afsökunar á þeim óþægindum og vanlíðan sem afhending þessara röngu upplýsinga kynni að hafa valdið honum.  

 

Kæranda var með bréfi, dags. 24. júní, kynntar athugasemdir Borgarskjalasafns Reykjavíkur við kæruna og hann beðinn um að upplýsa hvort hann teldi svar safnsins fullnægjandi. Ef hann teldi svo vera myndi meðferð málsins fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál verða felld niður að hans beiðni, sbr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Þess var óskað að svör kæranda bærust nefndinni eigi síðar en 2. júlí sl. en að öðrum kosti yrði kæran tekin til úrskurðar. Frekari svör eða athugasemdir kæranda hafa ekki borist úrskurðarnefnd um upplýsingamál og kæran því tekin til úrskurðar. 

 

 

Niðurstaða

Í 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 kemur fram að lögin taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og fellur Reykjavíkurborg, Borgarskjalasafn Reykjavíkur, undir gildissvið laganna. Í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan.“ 

 

Í 1. mgr. 12. gr. upplýsingalaga kemur fram að stjórnvald tekur ákvörðun um það hvort gögn, sem heimilt er að veita aðgang að, skuli sýnd eða veitt af þeim ljósrit eða afrit. Í máli því sem hér um ræðir var kæranda afhent ljósrit allra þeirra gagna sem vörðuðu beiðni hans og til eru í vörslu Borgarskjalasafns Reykjavíkur. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 12. gr. tekur stjórnvald ákvörðun um það á hvern hátt aðgangur er veittur, þ.e. hvort umbeðin gögn verði sýnd eða ljósrit af þeim veitt eins og hér um ræðir. Þegar stjórnvald hefur tekið þá ákvörðun að afhenda ljósrit gagna verður að ætla að þau verði að vera þannig úr garði gerð að sá sem við þeim tekur geti kynnt sér þær upplýsingar sem fram koma í gögnunum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér þau gögn sem kæranda voru afhent og fær ekki séð að ljósritun sé ábótavant, einkum þegar horft er til aldurs gagnanna.   

 

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Nefndin getur því aðeins lagt úrskurð á mál að þau gögn, eða að minnsta kosti þær upplýsingar, sem óskað er eftir aðgangi að, séu í vörslum stjórnvalda, eins og það hugtak er skilgreint í 1. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 3. mgr. 10. gr. laganna. Vegna þess að engin gögn umfram þau gögn sem kæranda hafa þegar verið afhent eru í vörslum Borgarskjalasafns Reykjavíkur, svo sem gerð er grein fyrir í málsmeðferðarkafla hér að framan, verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Trausti Fannar Valsson er í leyfi frá störfum í úrskurðarnefndinni og hefur varamaður hans, Símon Sigvaldason, tekið sæti í nefndinni.

 

 

Úrskurðarorð

Kæru [...] á gagnaafhendingu Reykjavíkurborgar, Borgarskjalasafn Reykjavíkur, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

 

Friðgeir Björnsson

formaður

 

 

 Sigurveig Jónsdóttir                                                                                          Símon Sigvaldason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum