Hoppa yfir valmynd

658/2016. Úrskurður frá 31. október 2016

Úrskurður

Hinn 31. október 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 658/2016 í máli ÚNU 16040001.  

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Þann 30. mars 2016 kom A í afgreiðslu forsætisráðuneytis og óskaði eftir að bera fram munnlega kæru á afgreiðslu Borgarskjalasafns á beiðni hans um gögn. Með erindi dags. 26. apríl 2016 var Borgarskjalasafni kynnt kæran og óskað eftir nánari upplýsingum um hina kærðu ákvörðun. Beiðni nefndarinnar var ítrekuð með símtali þann 2. júní 2016.  

Í umsögn Borgarskjalasafns, dags. 6. júní 2016, segir að kærandi hafi komið í afgreiðslu safnsins þann 1. mars 2016 og fyllt út eyðublað vegna umsóknar um aðgang að öllum gögnum í vörslum safnsins sem varða hans mál, einkum vistun kæranda að Silungapolli, heimavist Laugarnesskóla, Laugarási í Biskupstungum og Hróarsdal í Skagafirði. Kærandi hafi fyrst fengið afhent skjöl frá safninu árið 2010 eftir ítarlega leit. Síðar sama ár hafi kærandi aftur óskað eftir afritum sömu skjala. Árið 2011 hafi kærandi óskað í þriðja sinn eftir afhendingu gagna. Til öryggis hafi leit verið endurtekin en engin fleiri gögn hafi fundist. Sömu gögn hafi því verið afhent í þriðja sinn. Við leit í kjölfar beiðni kæranda 1. mars 2016 hafi sömu gögn fundist og engar vísbendingar um að fleiri væru til. Beiðni kæranda hafi ekki verið synjað, heldur hafi kærandi fengið aðgang að öllum gögnum sem fundust á safninu um hann sjálfan, sbr. 1. mgr. 30. gr. laga um opinber skjalasöfn nr. 77/2014. Í hluta skjalanna sé fjallað um einkamálefni annarra einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Aðgangur hafi verið veittur en upplýsingarnar afmáðar, sbr. 2. og 3. mgr. 30. gr. laganna. Þá hafi lítill hluti gagna sem fundust verið afmáður, til að mynda færslur í fundargerðum Barnaverndarnefndar sem varða mál annarra fjölskyldna og nöfn þriðju aðila í lögregluskýrslum eða á nafnalistum. 

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum í vörslum Borgarskjalasafns sem fjalla um hann sjálfan á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Réttur kæranda til aðgangs að slíkum gögnum er meðal annars takmarkaður af 3. mgr. 14. gr., en þar segir að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang. Í framkvæmd hefur ákvæðið verði skýrt þannig að undir greinina falli ekki einvörðungu þau tilvik þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum um sig sjálfan, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingar varða hann sjálfan þannig að hann hafi einstaklega hagsmuni af því umfram aðra að fá aðgang að gögnunum.  

Borgarskjalasafn er héraðsskjalasafn sem fellur undir lög um opinber skjalasöfn nr. 77/2014. Um beiðni kæranda gilda því jafnframt ákvæði VI. kafla laganna, en í 1. mgr. 30. gr. kemur fram að opinberu skjalasafni sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum um hann þegar liðin eru 30 ár frá því að þau urðu til, enda gildi ekki þær takmarkanir um skjalið sem fram koma í 27. og 28. gr. laganna. Öll gögn sem fundust við leit Borgarskjalasafns urðu til fyrir það tímamark. Einnig er heimilt skv. 2. mgr. 30. gr. laganna að takmarka aðgang aðila að skjölum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að skjölum. Framangreint ákvæði er þannig samhljóða ákvæði 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. 

Borgarskjalasafn hefur afhent úrskurðarnefnd um upplýsingamál afrit af þeim gögnum sem fundust á safninu og falla undir beiðni kæranda og auðkennt sérstaklega hvaða upplýsingar voru afmáðar úr eintökum skjalanna sem kærandi hefur fengið afhent. Skoðun nefndarinnar hefur leitt í ljós að á stöku stað hafa nöfn annarra en kæranda verið afmáð úr skjölunum. Nöfn einstaklinga í skjölum á borð við þau er kærandi hefur beiðst aðgangs að, þar á meðal lista um börn á vistheimilum og lögregluskýrslur, teljast tvímælalaust til upplýsinga um einkamálefni viðkomandi. Með hinni kærðu ákvörðun hefur Borgarskjalasafn vegið hagsmuni þessara einstaklinga gegn þeim hagsmunum kæranda að fá aðgang að upplýsingunum og hefur skoðun nefndarinnar ekki leitt annað í ljós en að matið samræmist ákvæðum 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og 2. mgr. 30. gr. laga um opinber skjalasöfn nr. 77/2014. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest. 

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Borgarskjalasafns, dags. 4. mars 2016, að synja kæranda, A, um aðgang að gögnum um sig, umfram þann hluta sem kærandi hefur þegar fengið aðgang að. 

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum