Hoppa yfir valmynd

768/2018. Úrskurður frá 7. desember 2018

Kærð var ákvörðun embættis ríkisskattstjóra um synjun beiðni um aðgang að gögnum um samskipti ársreikningaskrár við Seðlabanka Íslands og dótturfélög á tilteknu tímabili. Undir meðferð málsins fyrir úrskurðarnefndinni kom fram af hálfu ríkisskattstjóra að engin gögn lægju fyrir um samskipti ársreikningaskrár við þau félög sem kærandi tilgreindi í fyrirspurn sinni. Var kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurður

Hinn 7. desember 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 768/2018 í máli ÚNU 18060002.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 4. júní 2018, kærði A synjun Ríkisskattstjóra (RSK) á beiðni um aðgang að gögnum varðandi samskipti ársreikningaskrár við Seðlabanka Íslands og dótturfélög hans á ákveðnu tímabili.

Með bréfi til ársreikningaskrár RSK, dags. 28. mars 2018, óskaði kærandi eftir afriti af skriflegum samskiptum og bréfaskriftum milli ársreikningaskrár RSK og Austurbrautar ehf., EA fjárfestingafélags ehf., Seðlabanka Íslands og annarra dótturfélaga Seðlabankans en þeirra sem að framan greinir, frá árinu 2014 fram til þessa árs. Tilefni beiðninnar var sagnfræðirannsókn kæranda á ýmsum málefnum sem vörðuðu Seðlabanka Íslands.

Í svari RSK, dags. 7. maí 2018, var vísað til hlutverks ársreikningaskrár í 2. tölul. 2. mgr. 2. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006. Tekið var fram að samkvæmt 3. mgr. 109. gr. sömu laga skyldi ársreikningaskrá veita aðgang að þeim gögnum sem skilaskyld væru til skrárinnar. Sá aðgangur næði hins vegar ekki til annarra þeirra upplýsinga sem skráin kynni að hafa undir höndum og lytu ekki með beinum hætti að birtingu ársreiknings. Þrátt fyrir að í lögum um ársreikninga væri ekki að finna ákvæði um þagnarskyldu teldi RSK að hliðsjón þyrfti að hafa af 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 að því leyti sem ekki væru tilgreindar með beinum og skýrum hætti þær upplýsingar sem gæta bæri trúnaðar um. Gögn sem RSK hefði undir höndum og gætu t.a.m. varðað lögbundið eftirlit ársreikningaskrár væru að mati RSK þess eðlis að sanngjarnt og eðlilegt væri að aðgangur að þeim væri takmarkaður með vísan til 9. gr. upplýsingalaga, enda gætu þau varðað viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni félaganna. Með vísan til þessa var kæranda synjað um aðgang að gögnunum.

Í kæru til úrskurðarnefndar kemur fram að kæranda sé ekki ljóst hvernig 9. gr. upplýsingalaga geti átt við um samskipti vegna eftirlits ársreikningaskrár við lögaðila. Kærandi telur að ársreikningaskrá RSK beri að athuga hvort í umbeðnum gögnum sé að finna raunverulega viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- og samkeppnisstöðu og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Ekki nægi að segja almennum orðum að gögnin gætu innihaldið viðkvæmar upplýsingar, þar sem slíkt standist ekki mælikvarða 9. gr. upplýsingalaga.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 12. júní 2018, var RSK veittur frestur til að senda úrskurðarnefnd umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var óskað eftir afriti af þeim gögnum sem beðið væri um í málinu.

Í umsögn RSK, dags. 25. júní 2018, eru þau sjónarmið áréttuð sem synjun á beiðni kæranda byggðist á, þ.e. að gögn sem RSK hafi undir höndum og geti t.a.m. varðað lögbundið eftirlit ársreikningaskrár séu að mati RSK þess eðlis að sanngjarnt og eðlilegt sé að aðgangur að þeim sé takmarkaður með vísan til 9. gr. upplýsingalaga, enda geti þau varðað viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni félaganna. RSK telur embættinu jafnframt óheimilt að veita upplýsingar um það hvort tiltekinn aðili hafi sætt eftirliti á grundvelli laganna eða ekki.

Hvað varðaði beiðni úrskurðarnefndar um afrit af umbeðnum gögnum í málinu tók RSK fram að í tilviki því sem um ræddi lægju engin gögn fyrir um samskipti ársreikningaskrár við þau félög sem kærandi vísaði til í fyrirspurn sinni.

Með bréfi, dags. 4. júlí 2018, var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi umsagnar RSK. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum hjá Ríkisskattstjóra varðandi samskipti ársreikningaskrár við Seðlabanka Íslands og dótturfélög hans frá árinu 2014 fram til þessa árs. Synjun RSK var rökstudd með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, þar sem umbeðin gögn gætu innihaldið viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- og samkeppnisstöðu og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra lögaðila sem fjallað væri um í gögnunum. Hins vegar kom fram við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni að engin gögn lægju fyrir um samskipti ársreikningaskrár við þau félög sem nefnd voru í upplýsingabeiðni kæranda.

Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna tiltekins máls, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt 20. gr. þeirra laga er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Ekki er ástæða til að draga í efa þá fullyrðingu RSK að í máli þessu liggi umbeðin gögn ekki fyrir. Með vísan til þess liggur ekki fyrir synjun á afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru A, dags. 4. júní 2018, á hendur Ríkisskattstjóra.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira