Hoppa yfir valmynd

784/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019

Deilt var um þá ákvörðun Vestmannaeyjabæjar að synja kæranda um aðgang að minnisblaði stýrihóps sem hafði farið fyrir viðræðum við íslenska ríkið um samning Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar um rekstur Herjólfs. Vestmannaeyjabær vísaði til þess að minnisblaðið væri ekki opinbert og heyrði ekki undir upplýsingalög. Í ljósi þess að Vestmannaeyjabær væri stjórnvald sem heyrði undir upplýsingalög taldi úrskurðarnefnd ekki vafa leika á því að umrætt minnisblað félli undir lögin og því þyrfti að afgreiða ósk um aðgang að því í samræmi við ákvæði upplýsingalaga. Var því lagt fyrir Vestmannaeyjabæ að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar.

Úrskurður

Hinn 31. maí 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 784/2019 í máli ÚNU 18070008.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 19. júlí 2018, kærði A synjun Vestmannaeyjabæjar um aðgang að minnisblaði stýrihóps, sem fór af hálfu sveitarfélagsins fyrir viðræðum við íslenska ríkið um samning Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar um rekstur Herjólfs.

Kærandi óskaði eftir minnisblaðinu 12. júní 2018. Með bréfi, dags. 14. júní 2018, var honum synjað um aðgang að minnisblaðinu, þar sem það væri ekki opinbert og heyrði ekki undir upplýsingalög.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 27. júlí 2018, var kæran kynnt Vestmannaeyjabæ og frestur veittur til að senda umsögn um kæruna. Jafnframt var óskað eftir afriti af þeim gögnum sem kæran lyti að. Vegna sumarleyfa hjá starfsfólki Vestmannaeyjabæjar var viðbótarfrestur veittur til 28. ágúst 2018.

Með tölvupósti, dags. 23. ágúst 2018, bárust úrskurðarnefndinni umbeðin gögn í málinu. Ekki barst umsögn frá Vestmannaeyjabæ.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að minnisblaði stýrihóps, sem fór af hálfu sveitarfélagsins fyrir viðræðum við íslenska ríkið um samning Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar um rekstur Herjólfs. Í minnisblaðinu er að finna lögfræðilega greiningu og ráðgjöf. Synjun Vestmannaeyjabæjar er byggð á því að minnisblaðið sé ekki opinbert og heyri ekki undir upplýsingalög.

Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að skylt sé að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna. Það er ljóst af gögnum málsins að minnisblaðið sem kærandi óskaði eftir er fyrirliggjandi hjá Vestmannaeyjabæ í skilningi 5. gr. upplýsingalaga. Í ljósi þess að Vestmannaeyjabær er stjórnvald sem heyrir undir upplýsingalög telur úrskurðarnefnd ekki vafa leika á því að umrætt minnisblað falli undir upplýsingalögin og því þurfi að afgreiða ósk um aðgang að því í samræmi við ákvæði laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga skal ákvörðun um að synja skriflegri beiðni um aðgang að gögnum, í heild eða hluta, tilkynnt skriflega og rökstudd stuttlega. Í ákvörðun skal koma fram afstaða stjórnvalds til aukins aðgangs, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna, og leiðbeiningar um rétt til kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þá segir í 3. mgr. 19. gr. að um málsmeðferð fari að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum.

Stjórnvöld sem hafa til meðferðar beiðni um aðgang að upplýsingum ber að afmarka beiðnina við gögn í vörslum sínum, sbr. 15. gr. upplýsingalaga, og taka afstöðu til réttar beiðanda til aðgangs að þeim með rökstuddri ákvörðun. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna, sbr. 6.-10. gr. þeirra.

Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál samræmdist málsmeðferð sveitarfélagsins við töku hinnar kærðu ákvörðunar ekki ákvæðum upplýsingalaga. Eins og hér stendur á verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir sveitarfélagið að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.

Úrskurðarorð:

Beiðni A, dags. 12. júní 2018, um aðgang að minnisblaði stýrihóps sem fór fyrir viðræðum við íslenska ríkið um samning Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar um rekstur Herjólfs, er vísað til Vestmannaeyjabæjar til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir      Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira