Hoppa yfir valmynd

785/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019

Úrskurður

Hinn 31. maí 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 785/2019 í máli ÚNU 18070009.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 17. júní 2018, kærði A afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni hans um aðgang að samningi Vestmannaeyjabæjar og Íslenskra heilsulinda ehf. vegna könnunar á fýsileika þess að gert yrði baðlón í Vestmannaeyjum.

Með erindi, dags. 25. maí 2018, óskaði kærandi eftir aðgangi að samningnum. Í svari Vestmannaeyjabæjar, dags. 5. júní 2018, kom fram að erindi kæranda ætti ekki við, þar sem Íslenskar heilsulindir ehf. væri einkafyrirtæki. Ef kærandi vildi frekari upplýsingar bæri honum að hafa samband við fyrirtækið.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 27. júlí 2018, var kæran kynnt Vestmannaeyjabæ og frestur veittur til að senda umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Jafnframt var óskað eftir afriti af þeim gögnum sem kæran lyti að. Vegna sumarleyfa hjá starfsfólki Vestmannaeyjabæjar var veittur viðbótarfrestur til 28. ágúst 2018.

Í tölvupósti frá Vestmannaeyjabæ, dags. 23. ágúst 2018, kom fram að engin minnisblöð eða samningar lægju fyrir. Tölvupóstinum fylgdi bókun frá bæjarráði Vestmannaeyjabæjar. Þar kom fram að gert hefði verið samkomulag, dags. 24. maí 2018, um samstarf Vestmannaeyjabæjar og Íslenskra heilsulinda um framkvæmd fýsileikakönnunar að því er varðaði gerð baðlóns, heilsulindar, sjósundsaðstöðu og tengdra mannvirkja í Vestmannaeyjum.

Með tölvupósti Vestmannaeyjabæjar til úrskurðarnefndar, dags. 8. maí 2019, fylgdi afrit af framangreindu samkomulagi Vestmannaeyjabæjar og Íslenskra heilsulinda.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að samkomulagi Vestmannaeyjabæjar og Íslenskra heilsulinda. Vestmannaeyjabær hefur bæði haldið því fram að gagnabeiðni kæranda eigi ekki við þar sem Íslenskar heilsulindir sé einkafyrirtæki, og að engin minnisblöð eða samningar liggi fyrir vegna samstarfs bæjarins við fyrirtækið.

Úrskurðarnefnd telur að þrátt fyrir að gagnabeiðni kæranda til Vestmannaeyjabæjar hafi verið orðuð þannig að óskað væri eftir „samningi“ bæjarins við Íslenskar heilsulindir hafi kærandi í reynd átt við það samkomulag, dags. 24. maí 2018, sem nefnt er í bókun bæjarráðs Vestmannaeyjabæjar, um samstarf bæjarins og Íslenskra heilsulinda um framkvæmd fýsileikakönnunar að því er varðaði gerð baðlóns, heilsulindar, sjósundsaðstöðu og tengdra mannvirkja í Vestmannaeyjum.

Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál skortir á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda, líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir, sbr. einnig 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Vestmannaeyjabæ að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.

Úrskurðarorð:

Beiðni A, dags. 25. maí 2018, er vísað til Vestmannaeyjabæjar til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum