Hoppa yfir valmynd

802/2019. Úrskurður frá 14. júní 2019

Úrskurður

Hinn 14. júní 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 802/2019 í máli ÚNU 19020016.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 20. febrúar 2019 kærði Landssamband smábátaeigenda, LS, synjun Hafrannsóknastofnunar á beiðni samtakanna um lista yfir þá aðila sem hafa orsakað skyndilokanir á veiðisvæðum á árunum 2016 til 2018.

Í kæru kemur fram að 28. janúar 2019 hafi LS sent Fiskistofu beiðni um fyrrnefndan lista. Í svari stofnunarinnar, dags. 20. febrúar 2019, er vísað til þess að samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 79/1997 taki Hafrannsóknastofnun ákvarðanir um slíkar lokanir og framsendi Fiskistofa því erindið til stofnunarinnar. Svar Hafrannsóknastofnunar við beiðni LS, einnig dags. 20. febrúar 2019, var að stofnuninni væri óheimilt að veita upplýsingarnar á grundvelli persónuverndarlaga.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 25. febrúar 2019, var kæran kynnt Hafrannsóknastofnun og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Í umsögn stofnunarinnar, dags. 11. mars 2019, er annars vegar dregið í efa að heimilt sé að afhenda umbeðnar upplýsingar á grundvelli persónuverndarsjónarmiða og hins vegar vísað til þess að stofnunin hafi ekki aðgang að umbeðnum upplýsingum. Umsögninni fylgdi tafla sem sýnir 16 atriði sem skráð eru í gagnagrunn stofnunarinnar um skyndilokanir. Skipaskrárnúmer frá þeim fiskibát sem mælt er úr hafi aldrei verið skráð og enginn lykill sé til staðar sem tengi skyndilokunartöfluna við frekari upplýsingar. Því sé ekki hægt að rekja skyndilokanir til einstakra skipaskrárnúmera út frá þeim upplýsingum sem Hafrannsóknastofnun búi yfir.

Umsögn Hafrannsóknastofnunar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 11. mars 2019, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekar athugasemdum í ljósi hennar. Kærandi skilaði ekki athugasemdum vegna umsagnarinnar.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Hafrannsóknastofnunar á beiðni Landssambands smábátaeigenda um lista yfir þá aðila sem orsakað hafa skyndilokanir á veiðisvæðum á árunum 2016 til 2018.

Réttur almennings til aðgangs að gögnum tekur til þeirra gagna sem fyrirliggjandi eru þegar beiðni um aðgang berst, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 20. gr. laganna er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er.

Í fyrstu svaraði Hafrannsóknastofnun upplýsingabeiðni LS á þann veg að óheimilt væri að veita upplýsingarnar á grundvelli persónuverndarlaga en í umsögn stofnunarinnar vegna kæru LS kemur fram að umbeðnar upplýsingar séu ekki fyrirliggjandi enda séu þær ekki hluti af gagnagrunni stofnunarinnar um skyndilokanir. Af skoðun þeirra atriða sem fram koma í töflunni sem fylgdi umsögn stofnunarinnar og unnin er upp úr gagnagrunni stofnunarinnar um skyndilokanir er ljóst að skipaskrárnúmer koma þar ekki fram. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja þá fullyrðingu Hafrannsóknarstofnunar að ekki sé hægt að rekja skyndilokanir til einstakra skipaskrárnúmera út frá þeim upplýsingum sem Hafrannsóknastofnun búi yfir. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða. Því er óhjákvæmilegt að vísa kæru LS frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru Landssambands smábátaeigenda, dags. 20. febrúar 2019, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir      Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum