Hoppa yfir valmynd

806/2019. Úrskurður frá 3. júlí 2019

Úrskurður

Hinn 3. júlí 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 806/2019 í máli ÚNU 18110010.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 8. nóvember 2018, kærði Landssamband smábátaeigenda ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 11. október 2018, um synjun beiðni um aðgang að bréfi og fylgigögnum frá Félagi makrílveiðimanna.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að efni bréfsins varði beiðni um flutning heimilda úr línu- og handfærakerfi. Í ljósi þess að Félag makrílveiðimanna hafi ekki samþykkt afhendingu til þriðja aðila, umbeðin gögn séu „lögfræðilegs eðlis“ og varði viðskiptahagsmuni einstaklinga og lögaðila í félaginu telji ráðuneytið að undanþága 9. gr. upplýsingalaga eigi við um þau.

Í kæru segir að kærandi uni ekki niðurstöðu ráðuneytisins og óski þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurði um ágreininginn með vísan til 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu með bréfi, dags. 12. nóvember 2018, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að.

Í umsögn ráðuneytisins, dags. 22. nóvember 2018, segir að bréf og fylgigögn Félags makrílveiðimanna hafi borist ráðuneytinu þann 21. júní 2018. Um sé að ræða greinargerð þar sem óskað hafi verið upplýsinga og skýringa á stjórnvaldsreglum um stjórn veiða á makríl. Upplýsinganna hafi verið óskað svo lögmaður félagsins gæti lagt mat á tiltekið álitaefni. Færð séu lögfræðileg rök fyrir afstöðu félagsins til álitaefnisins. Ljóst sé að markmið Félags makrílveiðimanna sé að knýja fram breytingar á reglum um stjórn makrílveiða, mögulega með málsókn fyrir dómstólum. Samkvæmt framansögðu telji ráðuneytið að í greinargerðinni felist mikilvægir viðskiptahagsmunir félagsmanna sem óeðlilegt sé að þriðji aðili geti nýtt í sína þágu á þessu stigi málsins. Ráðuneytið telji ekki rétt að aðilar sem ekki tengjast málinu, en telji sínum hagsmunum mögulega raskað vegna málafylgju Félags makrílveiðimanna, kynni eða nýti sér slíka aðkeypta lögfræðilega greinargerð.

Umsögn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 22. nóvember 2018, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í umsögn kæranda, dags. 5. desember 2018, kemur fram að kærandi gæti hagsmuna smábátaeigenda, þar með talinna aðila sem stunda færaveiðar á makríl en séu ekki í Félagi markílveiðimanna. Af þeim sökum telur kærandi að það geti skaðað hagsmuni félagsmanna sinna að þeim sé ekki að fullu kunnugt um erindi þar sem ráðuneytið sé knúið svara við túlkun á stjórnvaldsreglum um stjórn veiða á makríl. Kærandi mótmælir því að í greinargerðinni geti falist mikilvægir viðskiptahagsmunir félagsmanna Félags makrílveiðimanna þar sem hagsmunirnir séu ekki bundnir við félagsmennina heldur fjölmarga aðra og varði málefni sem snúi að nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum sem séu sameign íslensku þjóðarinnar.

Kærandi mótmælir einnig þeirri röksemd ráðuneytisins að aðgangur að bréfum og álitsgerðum sé heftur þegar þær séu kostaðar. Ekki sé að finna ákvæði um þennan greinarmun í upplýsingalögum eða skýringum við 9. gr. frumvarps til laganna. Þetta hefði Félagi makrílveiðimanna átt að vera ljóst áður en það sendi erindi til ráðuneytis, m.a. með hótun um málsókn. Að lokum ítrekar kærandi að félagsmenn hans séu á makrílveiðum í návígi við félaga í Félagi makrílveiðimanna og eigi því beina hagsmuni af umfjöllun stjórnsýslunnar um stjórnvaldsreglur um stjórn veiða á makríl.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er félag sem gætir hagsmuna smábátaeigenda, til aðgangs að bréfi Félags makrílveiðimanna til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins þar sem óskað var upplýsinga og skýringa á reglum um stjórn veiða á makríl. Ákvörðun ráðuneytisins um synjun beiðni kæranda er byggð á því að um sé að ræða upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni félagsmanna í Félagi makrílveiðimanna sem sanngjarnt sé og eðlilegt að fari leynt á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Vísað er til þess að samþykki félagsins fyrir að kæranda verði veittur aðgangur að upplýsingunum liggi ekki fyrir.

Ákvæði 9. gr. upplýsingalaga er undantekning frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna um upplýsingarétt almennings. Í ákvæðinu segir orðrétt:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“

Í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að 9. gr. frumvarpsins feli í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:

„Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“

Þá er enn fremur tiltekið í greinargerðinni:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir máli að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða.“

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið umbeðin gögn með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum. Um er að ræða bréf lögmanns, f.h. Félags makrílveiðimanna, til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 18. júní 2018. Bréfið er á sex tölusettum blaðsíðum þar sem fjallað er almennt um þróun veiða á makríl, því næst sett fram sjónarmið um stjórn fiskveiða á sviðinu og loks óskað eftir upplýsingum og skýringum frá ráðuneytinu sem varða einkum framsal aflaheimilda samkvæmt reglugerð nr. 315/2018.

Hvorki ráðuneytið né Félag makrílveiðimanna, sem ráðuneytið leitaði til við meðferð beiðni kæranda, sbr. 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga, hafa rökstutt sérstaklega hvernig þær upplýsingar sem fram koma í bréfinu geti orðið Félagi makrílveiðimanna eða einstökum félagsmönnum þess skaðlegar ef þær verða gerðar opinberar. Hin kærða ákvörðun er fremur byggð á almennum hugleiðingum um að það sé „ekki rétt“ að þriðji aðili kynni eða nýti sér „aðkeypta lögfræðilega greinargerð“. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að ákvæði 9. gr. upplýsingalaga, skýringar við ákvæðið í frumvarpi til laganna og framkvæmd laganna í úrskurðum og dómum gefa engin tilefni til þess að skýra það svo rúmri skýringu. Það er þvert á móti eðlilegt að almenningur eigi rétt til aðgangs að upplýsingum um samskipti opinberra aðila annars vegar og hins vegar hagsmunaaðila. Einungis er réttlætanlegt að takmarka aðgang að slíkum gögnum þegar þau hafa að geyma upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- eða viðskiptaleyndarmál eða aðrar sambærilega viðkvæmar upplýsingar. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál koma engar upplýsingar fram í bréfinu sem lúta að svo veigamiklum hagsmunum að þær réttlæti undanþágu frá meginreglu 5. gr. upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum í vörslum opinberra aðila.

Í ljósi framangreindrar umfjöllunar er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að ekki séu fyrir hendi lagaskilyrði fyrir því að synja kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir ráðuneytið að veita kæranda aðgang að þeim.

Úrskurðarorð:

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er skylt að veita kæranda, Landssambandi smábátaeigenda, aðgang að bréfi Félags makrílveiðimanna til ráðuneytisins, dags. 18. júní 2018, sem hefur að geyma ósk um upplýsingar og skýringar á reglum um stjórn veiða á makríl.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum