Hoppa yfir valmynd

820/2019. Úrskurður frá 10. september 2019

Úrskurður

Hinn 10. september 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 820/2019 í máli ÚNU 19060006.

Kæra og málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 21. júní 2019, kærði A synjun skrifstofu Alþingis á beiðni um aðgang að gögnum. Kærandi óskaði eftir því með bréfi, dags. 29. maí 2019, að skrifstofa Alþingis veitti honum aðgang að ljósriti af aksturdagsbók alþingismanna frá og með árinu 2013 til og með árinu 2018. Skrifstofa Alþingis svaraði beiðninni með bréfi, dags. 12. júní 2019. Í svarinu kemur m.a. fram að af hálfu skrifstofu Alþingis hafi verið byggt á því að leysa eigi úr beiðnum um aðgang að gögnum úr skjalasafni þingsins samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012, eftir því sem frekast væri unnt, þótt lögin taki ekki til Alþingis. Upplýsingar úr akstursdagbók þingmanns geymi hins vegar upplýsingar um það hvernig þingmaður rækir samband sitt við kjósendur og hagsmunaaðila í kjördæmi hans og lúti þær því ekki að rekstri eða annarri stjórnsýslu skrifstofu Alþingis sem gera megi ráð fyrir að fallið geti undir upplýsingalög með sambærilegum hætti og gildi um stjórnsýslu á vegum framkvæmdarvalds, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Því sé ekki unnt að verða við beiðninni.

Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að akstursdagsbók alþingismanna á tilteknu tímabili á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012.

Með lögum nr. 72/2019 sem tóku gildi þann 11. júní 2019 var gildissvið upplýsingalaga nr. 140/2012 víkkað á þann hátt að lögin taki einnig til stjórnsýslu Alþingis eins og nánar er afmarkað í lögum um þingsköp Alþingis og reglum forsætisnefndar sem settar eru á grundvelli þeirra. Ákvæði V.–VII. kafla upplýsingalaga taka þó ekki til Alþingis eða stofnana þess. Í þessu felst að synjun á aðgangi að gögnum sem varða stjórnsýslu Alþingis er ekki kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál á grundvelli 20. gr. upplýsingalaga. Verður því að vísa kærum vegna synjunar Alþingis á aðgangi að gögnum frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Þegar kærandi óskaði eftir gögnunum hafði lagabreytingin ekki tekið gildi og náðu upplýsingalög því ekki til stjórnsýslu Alþingis. Því verður kærunni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 21. júní 2019, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum